Babelsbókasafn Borges

Þýðing: Árni Pétur Árnason

Þegar ég var ungur, um leið og ég tók að sökkva mér í bækur, tilkynnti ég foreldrum mínum að mig langaði í „Af-hverju-bókina“. Þau höfðu aldrei heyrt af slíkri bók sem hefði að geyma svörin við öllum lífsins spurningum en fullorðna fólkið í kringum mig hafði alltaf síendurtekið að ef ég vildi vita eitthvað, ætti ég að lesa bækur. Þetta er einnig það sem The Pagemaster sagði við Richard: „Mundu þetta: ef þú efast, leitaðu í bækur.“ Ég þekkti ekki Google á þeim tíma og ég vissi ekki hvað alfræðiorðabók var. Hversu margar bækur ætti ég þá að lesa? 21? 42? 882? Ég setti fram þá tilgátu að til væri bók bókanna, nokkurs konar meginbók sem væri yfirlitsrit yfir allt sem nokkurn tímann hefði verið skrifað og mætti nota til að finna allt sem hugurinn girntist; svörin við hverri spurningu. Ég kallaði hana „Af-hverju-bókina“. Við fórum eitt sinn í bókabúð og ég bað um hana en ekki nokkur hafði hugmynd um um hvað ég væri að tala. Búðareigandinn hélt að ég væri að biðja um orðabók. Ég yfirgaf búðina dapur í bragði en uppgötvaði nokkrum dögum seinna að hann hafði rétt fyrir sér. Ég áttaði mig á því að ég gæti fundið allar þær upplýsingar sem ég vildi úr orðabók með því að nota sáraeinfalt rakið reiknirit (e. recursive algorithm). Ég byrjaði á efnasamböndum. Í hvert skipti sem ég fletti upp efnasambandi eða -blöndu var mér beint aftur að frumefnunum sem nauðsynleg væru við gerð þess. Með þessar frumeiningar efnafræðinnar í huga, ráðfærði ég mig aftur við orðabókina til þess að finna meiri upplýsingar um þær.

Babelsbókasafnið

Ímyndaðu þér að í stað orðabókar hefðum við gríðarstórt bókasafn. Bygging þessi er samsett úr óendanlega mörgum sexhyrndum herbergjum. Allir sexhyrningarnir eru áþekkir og tengdir með forsölum sem innihalda rúm og allar nauðsynjar. Í þessu rými er einnig hringstigi sem liggur bæði upp og niður og veitir þannig aðgang að óþekktum fjölda herbergja. Þessi hönnun endurtekur sig á hverri hæð bókasafnsins. Í hverjum sexhyrningi eru 20 bókaskápar og í hverjum skápi standa 32 bækur. Í hverri bók eru 410 blaðsíður en á hverri þeirra standa 40 línur sem hver samanstendur úr 80 rittáknum. Þessar bækur innihalda allar mögulegar samsetningar 25 rittákna, þ.e. hinna 22 bókstafa spænska stafrófsins, punkts, kommu og bils. Þess vegna má segja að bókasafnið innihaldi allt! Margar bókanna eru með öllu óskiljanlegar þar sem þær hafa að geyma handahófskennda þvælu. Hins vegar má einnig finna skiljanlegar bækur. Í sumum þeirra ert þú meira að segja aðalpersónan. Raunar má finna allt þitt lífshlaup, þar með talið framtíð þína, í þessum bókum. Allt þitt þvaður, öll þín samtöl og öll beðmál sem þú munt deila með elskhuga þínum. Allt erfðamengið þitt er geymt í þessu safni. Þessi grein sem þú ert að lesa er geymd þar. Ef þú ert áfjáður stærðfræðingur gætir þú fundið sönnun eða afsönnun tilgátu Riemanns og ef þú ert músíkant gætir þú fundið hið fullkomna lag sem aldrei hefur heyrst. Ef upplýsingarnar eru of miklar til að rúmast í einni bók, gætir þú fundið þær samþjappaðar í einni bók og fágætt samþjöppunarreiknirit í annarri. Þriðja bókin myndi síðan segja þér hvernig þú afþjappar þær.

Þetta er Babelsbókasafnið. Heilinn á bak við það er argentínski rithöfundurinn og bókasafnsfræðingurinn Jorge Luis Borges en hann kynnti það fyrst í samnefndri smásögu sinni, „Babelsbókasafnið“. Í fyrstu gæti svo borið við að þú gleðjist þar sem bókasafnið hljóti að innihalda svörin við öllum spurningum þínum en síðan verður þú vafalaust óhuggandi. Bókunum er dreift um safnið af handahófi og þú getur ekki vitað hvar hver bók sé geymd. Þú hlýtur að skilja að þar sem fjöldi bókanna er svo skelfilega mikill, er borin von að finna læsilegar bækur. Þú ættir ekki einu sinni að hugsa um að reyna það.

Nákvæmlega það sem ég var að leita að

Í smásögu Borges trúa bókasafnsverðirnir að til sé skrá sem innihaldi fullkominn lista af öllum bókunum og nota megi til þess að ráða fram úr leyndardómum safnsins. Þannig mætti finna allar merkingarbæru bækurnar. Ef þú fyndir þessa bókaskrá, myndir þú öðlast guðdómlega krafta og gætir áunnið þér fullkomna þekkingu. Hún er „Af-hverju-bókin“ sem ég leitaði svo lengi að. Hins vegar hlýtur bókasafnið einnig að innihalda geysimikinn fjölda rangra bókaskráa og bóka byggðra á fölskum forsendum. Titlar bókanna eru þar að auki alls ótengdir innihaldi bókanna þar sem þeir eru líka handahófskenndir.

Borges fæddist í einum sexhyrninganna og eyddi ævi sinni í að leita að þessari bókaskrá bókaskránna.„Líkt og allir sem að bókasafninu koma, ferðaðist ég á mínum æskuárum; ég hef ferðast langar leiðir í leit að bók, sem gæti verið bókaskrá bókaskránna. Nú þegar augu mín eru döpur og sjá ei hvað ég hef sjálfur skrifað, undirbý ég mig fyrir dauðann. Og það einungis örfáum kílómetrum frá sexhyrningnum sem ég fæddist í. Eftir dauða minn munu vorkunnlátar hendur kasta líkinu yfir handriðið; gröf mín verður ómælanlegt tómið; lík mitt mun falla að eilífu, og rotna og eyðast í vindi sem sem eilíft fallið knýr. Ég fullyrði að Bókasafnið sé endalaust.“

Þekking er takmörkuð

Því miður (eða kannski sem betur fer) er Babelsbókasafnið ekki til í okkar sjáanlega alheimi. Samkvæmt lýsingu Borges eru 410 × 40 × 80 = 1.312.000 rittákn í hverri bók og í bókasafninu öllu eru allar mögulegar samsetningar rittáknanna 25. Því séuværu bækurnar 25^1312000. Áætlað er að fjöldi þungeinda (öreind mynduð úr þremur kvörkum) í okkar sjáanlega alheimi sé „bara“ 10^80. Við hefðum því ekki nógan efnivið til þess að byggja slíkt bókasafn.

Jonathan Basile bjó til stafræna útgáfu af Babelsbókasafninu sem nálgast má á vefsíðu hans, http://libraryofbabel.info. Hún er hins vegar bara tölvunarbrella sem líkir eftir bókasafninu. Hann þróaði reiknirit byggt á línulegum samkvæmum slembitalnagjafa en ég ætla að leyfa nörðunum í lesendahópnum að spreyta sig á þeirri brellu sem æfingu.

Gerum ráð fyrir að til væri nógur efniviður í alheiminum til þess að byggja bókasafnið, kannski hefði heimssmiður hannað það; myndi það innihalda allt? Nei, alls ekki. Ef það innihéldi allt, þyrfti það að innihalda bókaskrá yfir allar bækur þess. Ef svo væri komið, hlyti að vera önnur skrá sem inniheldur allar bækurnar auk bókaskrárinnar og svo framvegis, við getum bætt við fleiri og fleiri bókum. Samkvæmt þessari röksemdarfærslu, má skilja að til þess að innihalda allt þyrfti bókasafnið að hafa endalausan fjölda bóka. Raunar þyrfti bara eina bók með endalausan fjölda blaðsíðna. Sú lýsing sem Borges gaf í bók sinni segir hins vegar að að bókasafnið sé einungis mótsagnalaust ef fjöldi bókanna er tæmanlegur. Hvað myndi gerast ef til væri óendanlegur fjöldi bóka sem hver hefði óendanlegan fjölda blaðsíðna. Veltu því fyrir þér.

Þér þykir kannski miður að Babelsbókasafnið sé ekki til í alvörunni. Á því biðst ég afsökunar. Þú getur hins vegar dregið lærdóm af sögu Borges, líkt og Albert Einstein sagði eitt sinn: „hugmyndaflugið er þekkingu mikilvægara. Þekking er takmörkuð. Ímyndunaraflið umlykur heiminn.“ Lestur bóka kyndir hugmyndaflug þitt, skoðaðu því listann yfir jólabókatillögur okkar.


MenningMaicol Cipriani