Nýtt líf í nýju landi
Þýðing: Lilja Ragnheiður Einarsdóttir
Allt fólk er á hreyfingu, breytist, reikar, flytur …
Þrátt fyrir að hafa gert það frá upphafi mannkyns, hefur hraðskreiður heimur nútímans ýtt undir leit fólks að hamingjunni sem aldrei fyrr. Við leitum öll að okkar samastað á þessari jörðu og finnum hann oft fyrir utan þægindarammann okkar, í fjarlægu landi. Þegar þetta gerist göngum við í gegnum svipað aðlögunarferli sem almennt reynist erfitt. Hér eftir koma ráð til þess að auðvelda þetta sársaukafulla ferli, skref fyrir skref.
Til að byrja með er vert að nefna að flutningar milli staða eru meðal mest streituvaldandi atburða í lífinu. Ekki einungis með tilliti til skipulags og praktísku atriðanna heldur er líka krefjandi að byrja á núlli, sérstaklega ef man hefur ekkert stuðningsnet ennþá. Þetta leiðir okkur þægilega að fyrsta heilræðinu.
Sambönd
Sambönd eru mikilvæg, hvort sem þau eru rómantísk eða vinasambönd, því þau mynda grunn að tengslaneti fólks sem hvetja okkur til að þrífast og dafna en mynda líka öryggisnet sem er til staðar þegar við ráðum ekki við eitthvað á eigin spýtur. Ekki geta öll sambönd verið náin og persónuleg en það er mikilvægt að halda áfram að leita. Til að byggja upp sambönd þarf að gefa sér tíma og hlúa vel að þeim. Ef þú kynnist einhverjum nýjum þá skaltu ekki gleyma að gefa aðeins af þér; fara saman í kaffi, í bíó eða gönguferð, veita hjálparhönd eða huggun þegar við á, verja gæðastundum saman og þroskast í sameiningu í gegnum og meðfram sambandinu. Ef sambandið rennur svo sitt skeið, þá skaltu muna að ekki allt fólk sem tekur þátt í lífi þínu endist þar að eilífu. Sumt fólk kemur inn í líf manns til að veita (eða þiggja) hjálp, en það gæti líka alltaf farið þaðan aftur.
Félagslegt tengslanet
Það er ekki óalgengt að þetta fyrsta skref reynist erfitt, enda vaxa vinir eða makar ekki á trjám. Einföld leið til að takast á við þann vanda er að kynnast sjálfu sér betur fyrst - hver eru þín áhugamál og draumar, hvernig slakar þú á, hvaða tónlist hlustar þú á, hver er uppáhalds ísinn þinn? Þegar þú hefur kynnst þér aðeins betur þá geturðu fundið samkomur og viðburði þar sem þú gætir kynnst fólki með lík áhugamál. Spila verslanir í Reykjavík bjóða upp á ókeypis spila kvöld, barir og skemmtistaðir standa fyrir spurningakeppnum, uppistandi og jafnvel dansleikjum. Nemendafélög skipuleggja líka ferðir til ýmissa áhugaverðra staða um allan bæ.
Ef þetta virðist yfirþyrmandi skref skaltu byrja á einhverju einföldu eins og samtali við samstarfsmann eða ferð í næstu sundlaug fyrir ekta upplifun og rabb við næsta mann.
Ýttu þér út fyrir þægindarammann
Allt sem þú ert einmitt núna er þökk sé persónulegum áskorunum sem þú hefur tekist á við í lífinu og þátttaka þín í lífum þinna nánustu. Raunar væri nákvæmara að segja að þessi reynsla sért þú og þegar þú skilur það, áttarðu þig á því að það ert aðeins þú sem takmarkar eigin möguleika. Það er engin leið að vita hvort man hafi hæfileika í einhverri íþrótt eða tónlist nema með fyrri reynslu. Ef þú finnur eitthvað sem þú getur tekið þátt í sem þú hefur ekki prófað áður - láttu á það reyna!
Bjóddu sjálfum þér fínt út að borða, spilaðu með hljómsveit á hljóðfæri sem þú hefur aldrei spilað á áður, taktu þátt í sjálfboðastarfi fyrir félag sem skiptir þig máli eða skrifaðu bók. Það er svo litlu að tapa og til svo mikils að vinna, þetta gæti verið það sem þú gerir einstaklega vel.
Markmið
Að lokum skaltu setja þér raunhæf skammtíma og langtíma markmið sem hjálpa þér að halda þínu striki þegar þér finnst þig vanta áhuga og hvatningu. Lykillinn er að vera ekki of strangur við sjálfan sig og fylgja þinni eigin samvisku en ekki áætlunum annarra. Þú þarft ekki að geta hlaupið maraþon á minna en ári eða prjónað á þig heilan galla úr íslenskum lopa. Það er nóg að vera bara sjálfum sér góður með jákvæðri sjálfsstyrkingu enda ert þú eina manneskjan sem þú þarft að verja allri ævinni með.
Þessi skref eru öll samofin og þau er hægt að takast á við hvor í sínu lagi eða í hvaða samsetningu sem er. Ef þér finnst þér ekki miða áfram og eiga erfitt, reyndu þá að einblína á það sem hentar þér og haltu þínu striki þar til þú nærð markmiðunum smátt og smátt. Allt sem er þess virði að taka sér fyrir hendur er þess vert að gera illa því jafnvel pínulítið er betra en ekkert.
Ef þú ert að lesa þessa grein er mjög líklegt að hún sé skrifuð sérstaklega fyrir þig og ef svo vil ég þakka fyrir að þú hafir veitt henni athygli. Þó að ég viti ekkert um þitt einstaka ferðalag þá er greinilegt að þú ert að vinna í því að bæta þig með því að taka þetta fyrsta erfiða skref.
Þegar í harðbakkann slær skaltu muna að þú ert aldrei eitt.
Allt fólk er á hreyfingu, breytist, reikar, flytur…
Við erum öll í þessu saman.