Vegan uppskriftahornið: Grænkeralasagna

Mynd: Snædís Björnsdóttir

Mynd: Snædís Björnsdóttir

Nú þegar hauströkkrið er farið að leggjast yfir og veturinn skammt undan er tilvalið að kalla saman vini, kunningja eða fjölskyldu og halda matarboð. Uppskriftina er einstaklega gaman að elda saman í góðra vina hópi og hún hefur reynst afar vel þegar bæði grænkerar, grænmetisætur, kjötætur og öll þar á milli sitja saman til borðs enda réttur sem er flestum að skapi. Uppskriftina má laga að eigin smekk og útfæra eftir því sem ykkur þykir best. Það tekur um klukkustund að elda réttinn og hann hentar því vel fyrir rólega kvöldstund með þeim sem þér þykir vænt um. 

Fyrir 6

Undirbúningstími: 1 klst

  • 1 rauður chili-pipar eða eftir smekk 

  • 2 vænar gulrætur, skornar í þunnar sneiðar

  • 4 hvítlauksrif, söxuð smátt

  • 1 laukur, smátt saxaður

  • 2 stilkar sellerí, smátt saxaðir 

  • 3 msk ólífuolía

  • 1 rauð paprika

  • 1 dós þistilhjörtu, skorin eftir smekk (má sleppa)

  • 300-400 g sveppir, saxaðir eða skornir smátt

  • salt og pipar

  • 1 ½ tsk óreganó

  • 1 tsk timían

  • 1 dós hakkaðir tómatar

  • 300 g ferskt spínat

  • 1 pk. eða 500 g lasagne-plötur

  • 300 g rifinn vegan ostur

  • e.t.v. vegan parmesan ostur til að strá yfir lasagnað

Béchamel-sósa:

  • 1 msk vegan smjör og 1-2 msk hveiti til að baka upp sósuna

  • 7 dl haframjólk eða önnur bragðlítil plöntumjólk

  • múskat á hnífsoddi

  • salt og pipar

Byrjið á því að skera grænmetið smátt. Steikið chili-pipar, gulrætur, hvítlauk, lauk og sellerí í ólífuolíu við vægan hita í 5 mín. eða þar til allt fer að mýkjast. Bætið sveppum saman við. Kryddið með salti, pipar, óreganó og timían. Steikið við vægan hita þar til sveppirnir eru orðnir mjúkir og safinn úr þeim farinn að sjóða niður. Hellið hökkuðum tómötum út í og látið sjóða í nokkrar mínútur. Setjið spínatið saman við blönduna á pönnunni. 

Béchamel-sósan: Hitið mjólkina í potti. Bræðið smjörið í öðrum potti þar til það freyðir. Hrærið þá hveitinu vel saman við. Takið af hitanum og blandið volgri mjólkinni smám saman út í. Setjið pottinn aftur á helluna þegar sósan er orðin hæfilega slétt. Hitið að suðu. Kryddið sósuna með múskati, salti og pipar og látið malla í a.m.k. 5-10 mín.

Mynd: Snædís Björnsdóttir

Mynd: Snædís Björnsdóttir

Finnið eldfast mót af viðeigandi stærð. Setjið fyrst þunnt lag í mótið af béchamel-sósu, þá grænmetissósu, örlítið af rifnum vegan mozzarella-osti og að síðustu lasagne-plötur. Endurtakið þar til kemur að efsta laginu en þá er best að setja grænmetissósuna á lasagne-plöturnar og þar ofan á béchamel-sósu, síðan rifinn vegan ost og ef til vill vegan parmesan ost. Bakið í ofni í 40 mín. við 180°C. 

Berið e.t.v. fram með fersku salati og kirsuberjatómötum.