Íslenska stjórnarskráin: Sú gamla og nýja

Íslenska stjórnarskráin er okkar æðsta réttarheimild og er samningur þjóðarinnar við valdhafa. Núverandi stjórnarskrá Íslands er lýðveldisstjórnarskráin sem tók gildi árið 1944, þegar Ísland varð lýðveldi. Á undan henni var í gildi stjórnarskrá Konungsríkisins Íslands, sem var innleidd árið 1920. Sú stjórnarskrá byggði að stórum hluta á stjórnarskrá Danmerkur frá árinu 1848 og fyrstu stjórnarskrá Íslands frá árinu 1874. Núverandi lýðveldisstjórnarskrá hefur verið breytt og hún bætt í takt við stefnur og strauma samfélagsins. Beinagrindin að henni á engu að síður rætur sínar að rekja til 19. aldar, þegar konungur Danmerkur gaf okkur fyrstu stjórnarskrá Íslands. 

Af hverju nýja stjórnarskrá?

Lýðveldisstjórnarskráin hefur verið stagbætt í gegnum tíðina, en allsherjar yfirhalning hefur enn ekki átt sér stað þó mörg séu þeirrar skoðunar að það vanti ýmislegt í stjórnarskrána til þess að takast á við áskoranir nútímans. Þar má kannski fyrst og fremst nefna friðhelgi náttúrunnar og umhverfisvernd. En hvergi í núverandi stjórnarskrá eru reglur um náttúruvernd lögfestar, eða mörk sett fyrir því hvernig nýta má auðlindir landsins án þess að náttúran beri óafturkræfan skaða af. 

Fyrir um það bil áratug síðan skipaði Alþingi stjórnlaganefnd sem lagði fram tillögur um breytingar á stjórnarskránni. Þar voru skýrar tillögur settar fram hvað varðar umhverfisvernd og upplýsingaskyldu valdhafa til almennings um áhrif framkvæmda á ástand umhverfis og náttúru. Stjórnlagaráð lagði einnig til ákvæði sem varða meðal annars gagnsæja stjórnsýslu, aukna vernd gegn ofbeldi, þjóðaratkvæðagreiðslu að frumkvæði kjósenda og að arður sameiginlegra auðlinda verði þjóðareign. 

Árið 2012 var svo efnt til ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem fyrrnefndar tillögur stjórnlagaráðs að stjórnarskrá voru bornar undir íslensku þjóðina. Þar kom meðal annars í ljós að þorri kjósenda, eða 83%, vildu að náttúruauðlindir sem ekki væru í einkaeigu yrðu þjóðareign, og að 67% kjósenda studdu að tillögur stjórnlagaráðs yrðu grundvöllurinn að nýrri stjórnarskrá. Síðan hafa árin liðið án þess að stjórnarskránni hafi nokkuð verið breytt, og því eru sum á þeirri skoðun að þjóðaratkvæðagreiðsla með tæplega 50% kjörsókn hafi verið virt að vettugi. Ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur eru ekki lagalega bindandi fyrir Alþingi, en til hvers að halda slíkar kosningar ef ekkert er aðhafst af yfirvöldum í kjölfarið?

Hvar er nýja stjórnarskráin?

Á kvenréttindadaginn, þann 19. júní árið 2020, hrintu Samtök kvenna um nýja stjórnarskrá af stað undirskriftasöfnun með eftirfarandi yfirskrift: „Við krefjumst þess að Alþingi virði niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október 2012 og lögfesti nýju stjórnarskrána. Í kosningunni samþykktu yfir 2/3 hlutar kjósenda að tillögurnar sem kosið var um skyldu verða grundvöllur nýrrar stjórnarskrár. Tillögurnar eru heildstæður samfélagssáttmáli, það er ekki Alþingis að velja og hafna ákvæðum úr sáttmálanum. Þjóðin er stjórnarskrárgjafinn og setur valdhöfum mörk en ekki öfugt. Við ætlum ekki að bíða í heilan áratug eftir að nýja stjórnarskráin taki gildi og því krefjumst við aðgerða strax!“ Yfir fjörutíu þúsund manns skrifuðu undir þessa yfirlýsingu. 

Í kjölfar þessa fór myllumerkið #hvar eins og eldur í sinu um samfélagsmiðla, og vegglistamenn skreyttu götur Reykjavíkur með orðunum „Hvar er nýja stjórnarskráin?“ Stærsta verkið frá Skiltamálun Reykjavíkur, staðsett á vegg við bílaplan á Skúlagötu, var hreinsað burtu tveimur dögum eftir birtingu þess að beiðni Rekstrarfélags Stjórnarráðsins. Listamennirnir tóku sig til og gerðu enn stærra verk aðeins aftar á Skúlagötu, sem stendur enn og bíður átekta, líkt og þjóðin.

Til að gera langa sögu stutta, þá eru ótal ástæður fyrir því að mörgum finnst kominn tími til að heiðra beiðni þjóðarinnar og endurskoða stjórnarskrána í heild sinni. Með henni nær þjóðin fram skýrari lagaramma utan um varðveislu náttúrunnar, gagnsærri stjórnsýslu og greiðari þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðhaldi valdhafa. 


IMG_8626 copy.jpeg
IMG_9120.jpeg
IMG_9120 copy3.jpeg
IMG_9380 copy.jpeg
Myndir: Narfi Þorsteinsson

Myndir: Narfi Þorsteinsson