Tíu sparnaðarráð í boði Fjármála- og atvinnulífsnefndar SHÍ

Fáðu þér stúdentakort

Sparigris.png

Stúdentakortið veitir til dæmis afslátt í World Class, Ísbúð Huppu, hjá Jömm, Prikinu og svo mætti lengi telja. Farðu inn á student.is til að sjá fleiri tilboð! Auk hinna ýmsu afslátta veitir stúdentakortið þér einnig aukinn aðgang að byggingum Háskólan Íslands. Geggjað í prófatörnum sem og fyrir náttuglurnar sem finnst best að læra á kvöldin. Sótt er um stúdentakort í gegnum Ugluna. Þú skráir þig inn, velur „Uglan mín“ og því næst „Stúdentakort“. Síðan þegar kortið er tilbúið þá sækir þú það einfaldlega á þjónustuborðið á Háskólatorgi!

  

Byrjaðu djammið á Stúdentakjallaranum!

Margir fátækir námsmenn kannast eflaust við það að opna heimabankann morgunin eftir gott djamm og það neglandi djammviskubit sem kann að fylgja í kjölfarið. Á kjallaranum færðu ódýrasta bjórinn og með stúdentakortinu er hann ennþá ódýrari! Síðasta föstudag hvers mánaðar stendur kjallarinn svo fyrir „skítblönkum föstudegi“ þar sem Tuborg Green er á 500 kr.- (ásamt fleiri frábærum tilboðum!)

 

Sæktu um greiningarstyrk Stúdentasjóðs

Allir stúdentar við Háskóla Íslands geta sótt um styrk hafi þeir farið í greiningu vegna sértækra námsörðugleika eða athyglisbrests/ofvirkni (ADHD) og fengið niðurstöður þaðan. Við mælum með að lesa lög sjóðsins vel og passa að öll nauðsynleg fylgigögn séu til staðar. Stúdentasjóður býður einnig upp á fleiri styrki fyrir námsmenn, farðu inn á student.is fyrir nánari upplýsingar!


Mættu á alla viðburði sem bjóða upp á fríar veitingar.

Margir viðburðir bjóða upp á fríar veitingar, sérstaklega fyrir fyrstu gesti. Hafðu eyrun opin og fylgstu vel með Facebook viðburðum fyrir t.d. listasýningar, opnanir og kynningarviðburði og ekki vera hrætt við að vera mætt snemma. Það eru allar líkur á því að þú farir ekki þyrst heim og ekki er það verra að fá smá menningarupplifun í leiðinni.  

  

Bjóddu þér í mat til vina og vandamanna

Bjóddu þér í mat til ömmu og afa þegar fer að líða á mánuðinn eða „kíktu í stutta heimsókn“ til vina þinna á matmálstíma þannig þau neyðist til að bjóða þér að borða með. Þú verður hratt uppáhalds barnabarnið með því að mæta reglulega í heimsókn og mundu bara að bjóða vinum þínum í mat á móti eftir næstu útborgun.

 

Finndu skólabækurnar á netinu

Skólabækur geta verið rándýrar og því er oft sárt að kaupa bækur fyrir marga áfanga í byrjun annar. Það er líklegt að námsbrautin þín sé með skiptibókamarkað á Facebook þar sem má finna notaðar bækur á lægra verði og það er ekki aðeins hagstæðara heldur umhverfisvænna. Einnig er oft hægt að finna bækurnar ókeypis á netinu á vefsíðum eins og libgen.is eða planetebook.com. 

 

Kynntu þér niðurgreiðslur á vegum stéttarfélagsins þíns 

Ef þú ert í vinnu með námi, eins og meirihluti íslenskra námsmanna, er um að gera þú kynnir þér réttindi þín á vefsíðu stéttarfélags þíns. Til að mynda bjóða flest stéttarfélög upp á niðurgreiðslur á ýmsu eins og til dæmis sálfræðiþjónustu, líkamsræktarþjónustu sem og styrki til menntunar. Stéttarfélagið þitt er til staðar til þess að þjóna þínum hagsmunum svo þú skalt ekki hika við að hafa samband við þitt stéttarfélag ef þú vilt kynna þér hverju þú átt rétt á. 

 

Farðu með dósirnar

Það er sniðugt að fara með áldósir í endurvinnsluna og fá til baka skilagjald. Vertu duglegt að fara með dósirnar og reyndu jafnvel að gera nágrannanum greiða og farðu með dósirnar fyrir hann. Margt smátt gerir eitt stórt. 

 

Settu þér mörk

Gott er að setjast niður og kortleggja í hvað launin þín fara. Þá er sniðugt að setja sér mörk sem varðar neyslu og sparnað. Ýmis öpp og forrit eru til staðar til að hjálpa þér að fylgjast með neyslu þinni, þar má helst nefna Meniga en þar hefur þú fullkomna yfirsýn yfir þín fjármál. Það getur reynst sniðugt að leggja hluta af mánaðarlaunum sínum til hliðar í sparnað og svo nýta hinn hlutann til neyslu. Það má samt ekki gleyma sér í sparnaðinum, það þarf líka að lifa. 

 

Verslaðu notað eða fáðu lánað

Fatnaður getur verið mjög dýr og því stundum afar vont fyrir budduna að versla föt. Reyndu að versla notaðan fatnað, það er bæði ódýrara og umhverfisvænna. Kíktu í verslanir á borð við Extraloppuna, Trendport og Wasteland en þær eru með mikið úrval af notuðum fatnaði. Auk þess er líka sniðugt að fá lánuð föt frá vini ef þið eruð í svipaðri stærð, það kostar ekki neitt.