Kynjamismunun og Víkingar: Hvers vegna er staðan betri á Norðurlöndunum?

Sexism.png

Þýðing: Lilja Ragnheiður Einarsdóttir

Fáir geta mótmælt þeirri samþykktu staðreynd að meðal þjóða Norðurlanda Evrópu ríkir mesta kynjajafnrétti sem sést hefur á jörðinni hingað til. Hvort sem litið er til vinnu- eða fjölskyldulífs, virðast Norðurlandabúar hafa jafnari ferla og hugmyndir varðandi kyn heldur en önnur lönd. Það er ekki þar með sagt að allt sé með hinu besta móti og að breytingar verði ekki að eiga sér stað, en Norðurlöndin eru nær raunverulegu kynjajafnrétti en aðrar þjóðir. En hvers vegna er það?

Til þess að útskýra þetta nánar er gott að líta til baka til þess tíma þegar löndin sem við þekkjum í dag voru enn í mótun og konur höfðu ekki sömu réttindi og þær hafa nú. Margir óska þess kannski að víkingarnir úr bíómyndunum hefðu verið raunverulegir, það er að segja stoltir menn og konur sem sigruðu fjendur sína og þraukuðu ofsaveður. Þessi glansmynd er því miður ekki sannleikanum samkvæm. Stór hluti víkinga var í raun bændur líkt og annars staðar. Að sama skapi höfðu konur lítil réttindi eins og víðar í Evrópu.

Samkvæmt greinum Holcomb (2015) og Wildgoose (2015) var hlutverk kvenna á þeim tíma sem flestir þekkja sem víkingaöld ekki í hið minnsta heillandi. Fyrir kristnitöku höfðu þær ekki mikil réttindi og, í tímans rás, urðu þær meira að segja að bera ábyrgð á börnum sem eiginmenn þeirra eignuðust utan hjónabands. Konur höfðu ekki mikil völd í samfélaginu, það var talað fyrir þær fyrir dómi og þær gátu aðeins erft fjölskyldur sínar ef öll karlkyns skyldmenni voru látin. Eftir kristnitöku breyttist ekki margt nema það að þeim bar ekki lengur nein skylda til barna sem eiginmenn þeirri höfðu getið utan hjónabandsins.

Þessi lýsing gæti hljómað kunnuglega því hún líkist aðstæðum flestra kvenna á þessum tíma. Fyrir utan örfáar undantekningar var hlutverk kvenna á Norðurlöndum ekkert ósvipað í Frakklandi eða í Grikklandi, svo dæmi séu tekin.

Ef þessir staðir eru bornir saman í nútímanum er samt svo mikill munur að erfitt er að ímynda sér að upphafið hafi verið hið sama. En hvernig gerðist þetta?

Fyrst og fremst liggur munurinn í trúarbrögðum. Kristni breiddi hægt úr sér um Norðurlöndin og var smám saman tekin í sátt sem megin trú á svæðinu (sem hún er enn þann dag í dag) en ferillinn var langur og strangur (Hofmann et al, 2014). Þetta er mikilvægt atriði í þessari umræðu því að þrátt fyrir að Norðurlandabúar hafi samþykkt Kristni sem sín aðal trúarbrögð hefur túin aldrei verið kjarni þjóðarsálar þeirra líkt og í Suður Evrópu til dæmis. Þess vegna fannst hvorki þessi gríðarstóri kynjamunur né skömmin yfir kvenlíkamanum á Norðurlöndunum í jafn miklum mæli og í Suður Evrópu, sem voru jafnframt meira trúuð.

Þetta er lykilatriði því að þrátt fyrir ójöfn réttindi kynjanna á Norðurlöndunum hafa konur þar aldrei tengt líkama sína við djöfulinn. Til samanburðar má líta á lönd þar sem Kristni er grundvöllur þjóðernisins (Grikkland eða Ítalía til dæmis) og sjá að kvenlíkaminn var tengdur við veikindi, illsku, freistingu og væri refsivert og til skammar að hylja hann ekki (Meratzas, 2011). Þetta skapar félagslegt umhverfi þar sem karlmennska er jákvæð en kvenleikinn neikvæður og því oft litið niður á konur og þær niðurlægðar. Sem betur fer var þetta aldrei mjög sterkur þáttur í samfélagsbyggingu Norðurlandanna. 

Norðurlandabúar voru mestmegnis bændur og það leiddi af sér jafnari efnahagsaðstæður í nútímanum. Oft er litið framhjá því í sögunni að hinn mikli félagslegi munur kynjanna kemur frá þjóðum þar sem stéttir og störf eru fjölbreytt. Á því er einföld skýring: ef hægt er að afla fjár án þess að vinna langan vinnudag við erfiðar aðstæður þá gefst meiri tími til hugsunar og því er minni þörf á því að allir fjölskyldumeðlimir vinni. Á Norðurlöndunum hins vegar vann flest fólk við búskap sem þýddi að fjölskyldan sem heild tók þátt í að rækta landið. Konur tóku því virkan þátt í framleiðslu efnahagslegra verðmæta sem tíðkaðist ekki mikið í Evrópu fyrr en eftir seinni heimsstyrjöld þegar konur gengu inn í karlastéttir vegna skorts á vinnuafli.

Þess vegna er ekki að undra að konur á Norðurlöndum í dag búi við mesta jafnrétti kynja sem fyrirfinnst í mannlegu samfélagi hingað til. Saga þeirra segir að þær hafi búið við jafnari grundvöll frá upphafi. Þökk sé gjár milli hugmynda Norðurlandabúa á þjóðerni sínu og trúarbrögðum tókst þeim að komast hjá því að tengja konur beinlínis við illsku sem trúræknari lönd hafa gert. Konur tóku þar að auki alltaf þátt í sköpun verðmæta vegna veðurofsa og hagkerfis sem byggðist aðallega á landbúnaði. Konur búa því við betri kjör í dag á Norðurlöndum því þær byggðu á jafnari grunni.

Heimildir

Hoffman K., Kamp H. & Wemhoff M., 2014, Die Wikinger und Frankische Reich, Wilhelm Fink

Holcomb K, 2015, Pulling the Strings: The Influential Power of Women in Viking Age Iceland, Western Oregon University

Wildgoose R.M., 2015, Undervalued and Insignificant: The Truth About Women in the Early Viking Age, d.n.

Μεράτζας Χ., 2011, Αντεστραμένος Διόνυσος, Εδκ. Πολιτεία