Stúdentar og pólitík: Hvernig skal taka upplýstar ákvarðanir?

Alþingishúsið copy.png

Það getur verið yfirþyrmandi að taka sín fyrstu skref í pólitík og jafnan erfitt að átta sig á því hvar í hinu pólitíska landslagi þú liggur á hverri stundu. Sjálfar þekkjum við vel hvað það getur reynst snúið að grisja í gegnum fjölda flokka og stefnumál og að fylgjast með því hvaða loforð flokkarnir hafa staðið við eða svikið. Því langar okkur að gefa þér, kæri stúdent, nokkur heilræði um það hvernig þú getur aflað þér upplýsinga og tekið upplýstar ákvarðanir. Vegna þess að þín skoðun skiptir máli og öll geta haft áhrif. 

Hver eru þín gildi? Hvað skiptir þig máli?

Til að byrja með er gott að setjast niður og hugsa með sér hvort það sé eitthvað sem liggur þér á hjarta, hvort þú brennir fyrir einhverju tilteknu viðfangsefni. Ertu að farast úr loftslagskvíða? Finnst þér að betur ætti að taka á geðheilbrigðismálum? Veldur ástandið á leigumarkaðnum þér áhyggjum? Þetta eru allt atriði sem varða pólitík og því er fyrsta skrefið að staðsetja sjálft sig og gildi sín. Af eigin reynslu getum við sagt að þegar við gerðum okkur grein fyrir því hversu pólitískar okkar eigin áhyggjur væru þá fórum við að  fylgjast betur með málum líðandi stundar og láta það okkur varða hvernig tekið væri á þessum efnum. Um leið og þú áttar þig á því hvað það er sem þér finnst mikilvægt og að stjórnmál snerta í raun á öllum þeim málum, auk þess að þau hafa töluverð áhrif á hversdag þinn, kjör og framtíðarhorfur, er mun auðveldara að fylgjast með pólitík og standa með eigin skoðunum. Ef það eru áhyggjurnar sem draga þig í pólitík, líkt og hjá okkur, getur það hjálpað að finna samstöðu með fólki sem hefur sömu gildi og vill berjast fyrir sömu málefnum. Pólitík getur nefnilega veitt okkur tólin til að kljást við vandann. 

Hvar finnum við upplýsingar

Næsta skref væri þá að finna flokk sem samsvarar þínum gildum, deilir sömu áhyggjum og hagsmunum. Þetta er hins vegar það sem reynist flestum hvað erfiðast: Að afla sér upplýsinga um flokkana og hvað er raunverulega að gerast í stjórnmálum. Gott er að byrja á því að skoða heimasíður flokkanna, renna yfir stefnuskrárnar og mögulega punkta niður hjá sér hvað stendur upp úr. Þá getur verið gagnlegt að kanna hverju þið eruð sammála eða ósammála og spyrja hvort það vanti eitthvað sem ykkur þykir skipta máli. Þar næst mælum við eindregið með því að skoða síður á borð við kosningavitinn.is eða kjosturett.is og taka kannanir á þeirra vegum til að fá betri hugmynd um það hvaða flokkar samsvara þínum gildum. Síðan er gott að fylgjast reglulega með fréttum til að fá tilfinningu fyrir því hvað er að gerast og hvernig flokkarnir takast á við hin ýmsu vandamál. Flestir fréttamiðlar eru með undirflokka sem kallast stjórnmál/kosningar, eða eitthvað í þá áttina, þar sem hægt er að fá einungis pólitískar fréttir. Fyrir manneskju sem þarf að minna sig á að skoða fréttir getur það verið gagnlegt að hafa slíkar færslur allar aðgengilegar á einum stað.

Opnir upplýsingafundir geta verið góður vettvangur til þess að afla sér upplýsinga enda fá fréttamenn líka oft að spyrja mikilvægra spurninga í lokin. Þá bjóða stjórnmálaflokkarnir gjarnan upp á vísindaferðir fyrir háskólanema og alls kyns opna viðburði. Einnig er oft hægt að tala beint við stjórnmálafólk eða flokk. Þá er hægt að hafa samband á samfélagsmiðlum eða með tölvupósti og fá svör við spurningum. Fyrir kosningar, líkt og voru nú á dögunum, er til dæmis hægt að mæta á kosningaskrifstofurnar og ræða flokksfólk.  

ÞÚ getur haft áhrif 

Allir geta haft áhrif, þú þarft ekki að hafa mikið vit á pólitík til að mega hafa skoðanir og taka þátt. Því er mikilvægt að þú áttir þig á því að þú, kæri stúdent, getur haft áhrif. Með því að kjósa, taka þátt í starfi stjórnmálaflokka eða bara eiga samræður við vini og kunningja. 

Viljir þú taka þátt í starfi stjórnmálaflokkanna er góð leið að mæta á viðburði ungliðahreyfinga þeirra til að fá tilfinningu hvort þeir eigi vel við þig. Þaðan getur þú ákveðið hvort þig langi að taka þátt í hreyfingunni og mögulega bjóða þig fram í stjórn þeirra. Þetta getur verið góð leið til þess að taka sín fyrstu skref í átt að þingi. 

Mikilvægt er að átta sig á því að líklega mun enginn flokkur deila öllum þínum gildum. Það er allt í lagi að vera fylgjandi nokkurra flokka, jafnvel þó þeir kallist á í tilteknum stefnumálum. Það er líka í lagi að vera ósammála vinum og fjölskyldu, vera óviss eða skipta um skoðun. Þú þarft heldur ekki að deila skoðunum þínum með öðrum ef þú vilt það ekki. En ekki láta það stöðva þig að taka þátt þó svo að þér finnist þú ekki hafa nógu mikið vit á pólitík. Einhvers staðar verða allir að byrja og enginn verður sérfræðingur í stjórnmálum á einni nóttu. Mundu að þú átt alltaf rétt á að hafa skoðun á þeim málefnum sem standa þér nærri. 

Nú vitum við að Alþingiskosningar eru liðnar en pólitík er svo miklu meira en bara á fjögurra ára fresti, þær eru allan ársins hring og alltumliggjandi. Því vonum við að þessi ráð hafi komið þér að gagni, svo þú getir tekið upplýstar ákvarðanir varðandi það hvernig þú vilt að skipulagi landsins sé háttað og hver þú vilt að berjist fyrir þína hönd.