Sólin á bak við skýin: Einkunnakvarði Ungra umhverfissinna

Mynd: Ungir umhverfissinnar

Mynd: Ungir umhverfissinnar

Sólin lét kannski ekki sjá sig á kjördag en hana var hægt að finna í hjörtum ýmissa sem gerðu sér ferð á kjörstaði landsins. Þessi sól á sér upptök í samnefndu verkefni Ungra umhverfissinna sem var kynnt í aðdraganda kosninga. Um þremur vikum fyrir kosningar afhentu þau þeim flokkum sem voru í framboði til Alþingiskosninga skærgult einkunnablað. Einkunnirnar voru í hefðbundnu formi, hægt var að fá stig frá núll og upp í hundrað og voru þær mat á ágæti þeirra loftslags- og náttúruverndaraðgerða sem kynntar voru í stefnum flokkanna.


Verkefnið og viðbrögðin

Mikil vinna var lögð í einkunnaskalann. Atriðin sem lögð voru honum til grundvallar snerta á þremur meginefnum: loftslagsmálum, náttúruvernd og hringrásarsamfélagi. Undir hverju efni voru til skoðunar ýmsar aðgerðir sem renna stoðum undir betri stefnu og framkvæmdir í umhverfismálum. Áhersla var lögð á hlutleysi við gerð skalans, hvaða flokkur sem var gat skorað hátt ef stefna hans í umhverfismálum væri heildstæð og vel undirbúin. Þá dugði ekki til að kalla eftir aðgerðum án þess að gefa greinargóða og raunhæfa lýsingu á því hvernig þessum aðgerðum skyldi hagað. Stefnur flokkanna voru síðan metnar út frá þessum skala af þremur fræðikonum sem allar höfðu bakgrunn í umhverfis- og sjálfbærni fræðum. Loks voru einkunnirnar kynntar þann 3. september 2021, þremur vikum fyrir kosningar. Flokkunum níu og almenningi öllum voru birtar einkunnirnar og útkoman kom mörgum á óvart. 

Viðbrögðin við verkefninu voru misjöfn, sumir flokkanna urðu fyrir vonbrigðum eða voru ósáttir með einkunn sína meðan aðrir fögnuðu því að hafa fengið í hendurnar frítt auglýsingaefni fyrir kosningarnar. Sumir reyndu að grafa undan ágæti verkferlanna að baki skalans og sneru þannig umræðunni frá loftslagsaðgerðum og yfir í tæknileg atriði sem komu stóru málunum lítið við. Það hafði þó þau áhrif að villa kom í ljós við einkunnagjöf Sjálfstæðisflokksins, sem var leiðrétt um leið. Almennt var Ungum umhverfissinnum þó hrósað fyrir að leggja aukna áherslu á umhverfismálin og undirstrika mikilvægi þeirra í kosningunum. Meginmarkmið skalans var að gera kjósendum kleift að taka upplýsta ákvörðun þegar til kosninganna kæmi. Einnig var þetta tilraun til að koma loftslagsmálum í brennidepil kosningaumræðna, en næstu fjögur ár geta skipt sköpum fyrir örlög Íslands og heimsins. Verkefnið tókst vel til en hvort markmiðinu hafi verið náð er alfarið önnur saga.

Kosið með sól í hjarta - eða hvað?

Kosningarnar komu og fóru með öllum sínum loforðum, yfirlýsingum og auglýsingum. Mörgum sólskinsbörnum til mikillar mæðu virðast umhverfis- og loftslagsmálin ekki hafa skipt sköpum fyrir flesta kjósendur þegar kom að atkvæðagreiðslu. Þetta má sjá í kosningasigri Framsóknar og töluverðri fylgisaukningu Flokks fólksins, en hvorugur þessara flokka hlutu góða einkunn í Sólinni. Vinstri græn töpuðu fylgi og þar með áhrifum innan ríkisstjórnar sitji hún áfram. Auk þess fengu Vinstri græn, Viðreisn og Píratar, sem skoruðu hæst í Sólinni, einungis um 30% atkvæða samalagt. Vegið meðaltal einkunna fyrir þingið í heild sinni er einungis 36.8 stig af hundrað og vegið meðaltal sitjandi ríkisstjórnar eftir kosningar er enn lægra en þingsins, 31 stig. Íslenska þjóðin öll fær þannig fall á einkunnakvarða Sólarinnar miðað við úrslit Alþingiskosninga. Vel unnið verk og göfugt markmið Ungra Umhverfissinna virðist ekki hafa dugað til að snúa landinu á rétta leið í umhverfis- og loftslagsmálum.

Helsta ástæðan fyrir þessum löku viðbrögðum má finna í gögnum Íslensku kosningarannsóknarinnar. Rannsóknin hefur fylgst með kosningum síðustu 40 árin og sýnir skýra áherslu ungs og menntaðs fólks á loftslagsmálin fram yfir önnur mál. Aðrir láta önnur hefðbundnari mál, líkt og kjara- eða fjármál, ákvarða atkvæði sitt. Umhverfismálin eru fjarlægari kjósendum, áhrif þeirra eru ekki endilega skýr í þeirra daglega lífi og afleiðingar aðgerðaleysis eru ekki vandamál sem margir ná almennilega utan um án ítarlegrar rannsóknarvinnu. Þó finnst vonarneisti í gögnunum því þrátt fyrir þennan áherslumun milli kynslóða og stétta má greina áhuga meðal almennings á því að eitthvað skuli gert í þessum málum sem ekki var til staðar í kosningum fyrri ára. Það birtist í því að umhverfis- og loftslagsmál voru talin meðal fjögurra helstu pólitísku verkefna sem Ísland stendur frammi fyrir í dag. Einnig mátti greina áherslu á umhverfið í kosningabaráttu stakra flokka, jafnvel hjá sumum sem fengu falleinkunn á einkunnaskalanum. Allt bendir þetta til þess að vilji til að ganga í aðgerðir í þessum málaflokki sé til staðar og þá má halda úti von um að þessi málaflokkur fái meiri framgang á næsta kjörtímabili en hann hefur áður fengið.

Næstu ár skipta sköpum 

Það má ekki gleymast að unga fólkið í dag mun erfa jörðina í því ásigkomulagi sem fyrri kynslóðir skilja hana eftir í. Eins og staðan er núna eru ekki miklar líkur á því að jörðin fari aftur í sama horf og komandi kynslóðir munu þurfa að takast á við ófyrirséð verkefni. Það er munaður að leyfa sér að hugsa ekki um framtíðina í samhengi við umhverfismál. Heil kynslóð af fólki sem annars ætti að hafa áhyggjur af öðrum hlutum nýtur ekki þessa munaðar. Þegar framtíðin er óljós er lítið hægt að velta sér upp úr því hvort kaupa ætti íbúð eða ekki á landi sem verður ef til vill ekki íbúðarhæft eftir hálfa öld. Þrátt fyrir að Ungir umhverfissinnar hafi ekki náð til allra kjósenda, eins og sést á úrslitum kosninganna, unnu þau þó mikilvægt starf og gerðu þingflokka landsins ábyrga fyrir stefnum sínum í umhverfismálum. Mikilvægt er að halda starfinu áfram til þess að auka þrýsting á stjórnvöld og fá þau til að koma vel fram við jörðina og íbúa hennar.

Hægt er að leggja sitt af mörkum til málstaðarins, en Ungir umhverfissinnar eru frjáls félagasamtök sem hver sem er getur skráð sig í og tekið þátt í. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu þeirra, https://www.umhverfissinnar.is/ auk þess sem hægt er að skoða niðurstöður og upplýsingar um Sólina á https://solin2021.is/. 

Mynd: Ungir umhverfissinnar

Mynd: Ungir umhverfissinnar