Alþingi – Stjórnmálastofnun eða menningarleg þversögn?
Þýðing: Árni Pétur Árnason
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum, sem liggur á mörkum Norður-Ameríkuflekans og Evrasíuflekans, var fundarstaður Alþingis hvert sumar frá árinu 930. Lesendur sem ekki eru íslenskir að uppruna vita kannski ekki hvað Alþingi er – það er elsta nústarfandi þingið og þaðan eru tengsl þess við þema tölublaðsins, Alþingiskosningar, runnin. Þjóðþing þetta kaus lögsögumann sem skyldi lesa upp lög landsins. Hann tók fyrir öll ný lög sem þörf var á og dæmdi í deilum manna og hópa, með aðstoð ráðs skipuðu lagalærðum mönnum. Sé litið á síðu UNESCO um Þingvelli má sjá að ein forsenda skrásetningar staðarins á Heimsminjaskrá er „stolt vegna sterkra tengsla við norræna/germanska miðaldastjórnsýslu … sem styrkt voru í sjálfstæðisbaráttu 19. aldar" sem gerir staðinn að „helgidóm íslenskrar samfélagsvitundar.“ Þetta eitt og sér gerir staðinn markverðan, að hann sé tákn íslensku þjóðarinnar, sögu hennar, erfiðleika og staðfestu, en það er ekki allt sem kemur til. Ég get auðvitað ekki talað fyrir hvert mannsbarn, en það er skýrt að rauður þráður nútímasögu er upphafning og upptaka norrænnar menningar um allan heim.
Breska sjónarhornið
Sem dæmi má nefna að á Bretlandi, eftir iðnbyltinguna (sem hófst á 18. öld), fjölgaði hjartasjúkdómum og sýkingum hver skonar vegna þröngra, óheilsusamlegra kyrrsetulifnaðarhátta. Þessi þróun leiddi til upphafningar sveita, auðna og öræfa – frelsisþráin og gullaldartregi. Á sama tíma stóð breska heimsveldið í örum vexti, sem leiddi til þess að allt sem viðkom víkingum var tekið mönnum til fordæmis í sjóveldinu sem, ólíkt Grikkjum og Rómverjum, „féll“ ekki, heldur aðlagaðist þeim stöðum sem það hafði numið og stofnað nýlendur í. Upphafning sveitanna og norðursins, sem og upptaka víkinga sem nokkurs konar fyrirrennara Breta, leiddi til styrkingar hugmyndarinnar um „göfuga villimanninn“ sem yfirfærð var á víkingana. Dæmi um þessa upphafningu er vel sjáanleg í Perlunni þar sem eftirmynd eins málverka William Gershom Collingwood hangir. Collingwood dvaldist hér á landi í nokkra mánuði árið 1897 þegar það var í tísku að ferðamenn finndu afskekktari og „villtari“ staði til að sækja heim. Eftirmyndinni sem sjá má í Perlunni hefur verið lýst af starfsmönnum British Museum sem birtingarmynd „íslenska þingsins, samkomu frjálsra manna, að fundi.“ Stöðugt var talað um frelsi í sambandi við norræna menningu, sérstaklega á Bretlandi, og þá sérstaklega í sambandi við nyrðri landsvæði Bretlands, til dæmis Skotland. Víkingar voru birtingarmynd göfugrar villimennsku – hugmyndarinnar um að sveitin og endurupptekning einfaldari, iðjulausari lifnaðarhátta myndi geta af sér betra líf.
Í sögulegu samhengi stendur Alþingi ekki aðeins fyrir sjálfstæði, sjálfsmeðvitund og afrek Íslendinga heldur einnig þrá annarra landa til að líkja eftir því. Í þessum atriðum sé ég leið til að gera upp þversögnina. Hvernig má það vera að hugmyndir um ruddaskap, göfuga „villimennsku“ og það sem er, ef satt skal segja, ofbeldi, sem við tengjum við víkinga, eigi samleið með hugmyndum um frelsi, sem og hugmyndinni um vel skipulagt dómsmálakerfi, líkt og Alþingi virðist hafa verið?
Það er hvort sem er allt hlutdrægt…
Kannski er það einmitt frelsishugmyndin sjálf sem reiðir sig á stjórn- og dómsmálakerfi sem samfélagið allt trúir á og treystir. Mætti rannsaka einstaklingsfrelsið með því að treysta stofnunum? Stofnanirnar þyrftu að sýna traust á móti. Í sívaxandi mæli hef ég tekið eftir greinum sem segja frá því hvernig fólki sem falið er meira frelsi (það er, þeim er falið meira traust) á vinnustöðum, skilar af sér skilvirkari vinnuháttum – það er á vissan hátt allt önnur saga sem ég hef ekki skoðað mikið en sýnir samt það sem ég færi rök fyrir, að traust og frelsi eru síendurtekið hringrásarkerfi og þá skiptir ekki máli hvort um sé að ræða vinnustað, skóla, lög eða stjórnmál.
Þegar ég bar það fyrst á borð að ég myndi skrifa um Alþingi í þetta Alþingiskosningatölublað var ég uggandi yfir því að greinin reyndist of einföld fyrir íslenskan lesendahóp þar sem ég hef enga reynslu af því efni sem íslenskir skólar kenna. Mér finnst hins vegar harla ólíklegt að meirihluti lesenda hafi ekki verið meðvitaður um Þingvelli og Alþingi sem stofnun. Sem betur fer felst í því svo mikið meira en bara tákn íslensks-leika. Upphafning þess og upptaka af hálfu annarra menningarheima hafa mótað heim samtíma okkar töluvert. Þversögn hefur enda aldrei hindrað það að táknsæisstefna yrðu mikilvæg samfélags- og þjóðerniskennd okkar. Þannig að, af hverju ætti það að vera svo hér?