Rödd stúdenta skiptir máli

Ljósmynd/Aðsend

Ljósmynd/Aðsend

Í tilefni af aldarafmæli SHÍ á árinu birtir Stúdentablaðið pistla frá fyrrverandi formönnum Stúdentaráðs í hverju tölublaði. Björg Magnúsdóttir reið á vaðið í síðasta blaði og nú er komið að Maríu Rut Kristinsdóttur, en hún sinnti starfi formanns skólaárið 2013-2014.

Ef þú lítur í kringum þig (að því gefnu að þú sitjir á háskólasvæðinu) getur þú séð ummerki um baráttu Stúdentaráðs hvívetna. Allt frá aðgangskortinu í veskinu þínu, Stúdentakjallaranum, Stúdentagörðunum, námslánum, hagsmunagæslu, fjölbreyttum kennsluháttum yfir í fleiri innstungur og bætta aðstöðu. Allt skiptir þetta máli fyrir daglegt líf þeirra sem stunda nám við HÍ. Ég þekki það af eigin reynslu hvernig það er að vera talsmaður stúdenta út á við og gera allt sem í mínu valdi stendur til að standa vörð um hagsmuni þessa mikilvæga hóps. Ég var fyrir sjö árum síðan formaður (í dag forseti) SHÍ. Það er líklegt að dágóður fjöldi háskólastúdenta hafi þá verið að plana fermingarveisluna sína en hvað um það? Ég tók við embættinu þegar Stúdentaráð var að ganga í gegnum miklar breytingar, nýtt kerfi og öðruvísi nálgun. Þar sem lögð var áhersla á að fá fulltrúa stúdenta frá öllum fimm fræðasviðum skólans og víkka þannig sjóndeildarhring og viðfangsefni ráðsins frá því sem áður var. Árið 2013 var kosningaár, árið þegar Sigmundur Davíð varð forsætisráðherra og ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar tók við.  

Sögulegur slagur við LÍN 

Eitt fyrsta verkefni nýs menntamálaráðherra var að boða miklar breytingar á lánasjóðskerfinu í þá veru að námsframvindukröfur (hversu margar einingar þurfa að koma í hús til þess að eiga rétt á námsláni) voru auknar úr 18 einingum í 22. Þetta var í júní 2013 og átti að taka gildi strax um haustið. Við áttum marga fundi um málið og mótmæltum þessu hátt og skýrt. Sumarið var í raun alveg undirlagt „LÍN málinu“ svokallaða. Það skipti engu máli hvað við sögðum, ákvörðuninni var ekki haggað. Þannig að við brugðum á það ráð að halda blaðamannafund um miðjan júlímánuð og stefna íslenska ríkinu og LÍN vegna þessa, og þá sérstaklega vegna þess skamma fyrirvara sem stúdentum var gefinn til að aðlagast breyttu fyrirkomulagi. Við fengum flýtimeðferð og niðurstaða dómsins lá fyrir um mánuði síðar; stjórn LÍN var óheimilt að breyta úthlutunarreglum sjóðsins með þeim hætti sem það var gert og við náðum þannig að fresta ákvörðuninni um eitt ár. Þetta var þvílíkur skóli fyrir okkur öll sem stóðum í brúnni á þessum tíma og í fyrsta sinn í sögu Stúdentaráðs þar sem farið var í mál við ríkið vegna stjórnvaldsákvarðana. Við tókum mikla áhættu en hún borgaði sig. Rödd stúdenta skipti máli.

Hækkun skrásetningargjalda, niðurskurður og verkfall kennara

Seinna um veturinn var einnig tekin sú ákvörðun að hækka skráningargjöld úr 60 þúsundum í 75 þúsund, en aðeins tveimur árum áður var gjaldið hækkað úr 45 þúsundum í 60 þúsund. Skólinn var illa fjársveltur á þessum tíma og auðvitað var þetta tilraun til að mæta því. En þá eins og nú settum við spurningarmerki við lögmæti aðgerðarinnar. Við framleiddum myndband þar sem skorað var á ríkisstjórn að falla frá niðurskurði til HÍ sem þá þótti frekar framúrstefnulegt, en í dag þykir væntanlega bara mjög hallærislegt. Við fórum einnig af stað með herferðina „Stúdentar athugið“ sem var vitundarvakning á meðal stúdenta á strætóskýlum og plakötum víða um borgina um þau kjör sem stúdentum var boðið upp á þá. Félag Háskólakennara boðaði einnig verkfall rétt fyrir prófatíð 2014 og var það eitt af mínum síðustu verkum, að skora á fjármálaráðherra og þingheim að semja hið fyrsta við þá og leysa kjaradeiluna. Við útbjuggum heimasíðuna 9april.is (en þann dag tók Félag Háskólakennara ákvörðun um hvort boðað yrði til verkfalls á lögbundnum prófatíma skólans) þar sem hægt var að senda öllum þingmönnum og ráðherrum einföld skilaboð og skrifuðu 3588 háskólanemar undir á örfáum klukkustundum. Hætt var við verkfallið á endanum. Rödd stúdenta skipti máli.

Það skiptir máli að hafa hátt

Við héldum samstöðufundi, mótmæli og höfðum mjög mikil læti á þessu viðburðaríka ári. Það er nefnilega þannig að stúdentar verða að vera hávær þrýstihópur svo eftir þeim sé tekið. Réttindin og lífskjörin koma ekki af sjálfu sér. Það þarf að berjast fyrir þeim. Ég hef fylgst með Stúdentaráði frá því að ég lét af embætti og þeim mikilvægu málum sem það hefur sett á oddinn. Það er merkilegt að fylgjast með því að ennþá hefur ekki tekist að breyta lánasjóðskerfinu, þrátt fyrir ítrekuð loforð um annað. Enn er barist fyrir bættum kjörum og gegn hækkun skrásetningargjalda. Sagan virðist nefnilega svolítið fara í hringi. Þess vegna skiptir Stúdentaráð svo miklu máli. Ég vona kæri lesandi að þú vanmetir ekki mikilvægi þess og takir þátt í baráttunni þegar eftir því er óskað. Á þessu ári fagnar Stúdentaráð 100 ára afmæli. Ég er stolt af því að hafa fengið að taka þátt í að móta sögu ráðsins ásamt þeim sem á undan okkur komu og þeim sem tóku við keflinu. Ég er handviss um að framtíð Stúdentaráðs sé björt, en fyrst og fremst mun tilvist þess vera jafn mikilvæg næstu hundrað árin, líkt og þau voru síðustu hundrað. 

Til hamingju við öll.

Samstöðufundur stúdenta á Austurvelli.

Samstöðufundur stúdenta á Austurvelli.