„Skelfilegt að reyna að æfa með 100 manns í Covid-aðstæðum“

Stúdentablaðið/Sophie Kass

Stúdentablaðið/Sophie Kass

Innan veggja háskólans er hópur fólks sem lætur lítið fyrir sér fara. Einhver okkar vita ekki af þeim en sum hafa séð þau einstaka sinnum. Þessi hópur kemur fram við útskriftir sem og aðra viðburði; þetta, er Háskólakórinn.

Greipur Garðarsson er stjórnarformaður kórsins, en áður sinnti hann m.a. hlutverki skemmtanastjóra. Við spjölluðum sitthvað um kórinn og hvernig Kófið hefur komið við hann. Viðtalið fór fram fyrir hertar aðgerðir í samfélaginu.

Sungið í 48 ár

Háskólakórinn hefur verið starfandi frá árinu 1972. Rúmlega 100 manns eru í kórnum eins og er, en sú tala lækkar oftast eftir því sem líður á. Eins og blönduðum kór sæmir er honum skipt upp í raddir; Sópran, alt, tenór og bassa. Skiptingin er nokkuð jöfn þetta haustið, eða 60/40 (S+A/T+B).

Inntökuprufur eru haldnar bæði að hausti og að vori, í byrjun hverrar annar, en það kemst ekki hver sem er í kórinn, „Við erum með reglu að við tökum bara inn 18 og eldri,“ segir Greipur, en aldur núverandi kórmeðlima er á bilinu 18-33 ára. Greipur segir inntökuprufurnar hafa gengið of vel. „Það er skelfilegt að reyna að æfa með 100 manns í Covid-aðstæðum, þannig að við höfum þurft að brjóta  hópinn niður í minni hópa, einnig þurfti að fresta fyrstu æfingunum.“  

Þegar ég spyr Greip um styrki og aðrar fjármagnanir segir hann að HÍ styrki kórinn „því við tökum þátt í athöfnum og svona. Við fáum líka lítinn styrk frá FS (Félagsstofnun Stúdenta) og reynum að sækja um fleiri. Það er samt alveg kórgjald inn í kórinn. Það verður lægra núna, vegna þess að það sem við myndum eyða honum í er ekki hægt að gera.“

Fjölbreyttur hópur en klassísk kórlög

„Við borgum aðstöðuna okkar í Neskirkju með því að syngja í messum. Fólk er alls staðar í trú, en það tekur þátt, ekkert vandamál. Skúli, prestur í Neskirkju, er mjög góður ræðumaður, hann hefur mjög nútímalegar skoðanir varðandi trú og ég kann mjög mikið að meta það,“ segir Greipur aðspurður út í lagaval kórsins, en bætir við „Sko Gunnsteinn [kórstjóri] er mjög „klassískur“ maður. Hann segir að við eigum ekki að snerta gospel; eina skiptið sem við reyndum, þurfti kórinn að segja nei við því. Við höfum samt verið að reyna að fá meðmæli frá kórmeðlimum um lög til að syngja.“ Greipur segir að flest kórlaganna séu íslensk og fá lög sem fari út fyrir þennan klassíska hring. 

Í kórinn kemur fólk úr ólíkum hornum samfélagsins sem öll eiga það sameiginlegt að syngja vel og hafa gaman. „Það eru margir í kórnum sem eru komnir á vinnumarkað, kórinn er ekki bara fyrir háskólafólk. Eins og ég, ég á ekkert að vera þarna lengur. Það var til dæmis einn sem var í kórnum í alveg 12 ár, hann er málari, fór aldrei í háskólann. Þannig að þetta er svolítið opið!“ Meirihluti meðlima eru þó stúdentar við HÍ, en einnig eru einhverjir úr HR og LHÍ. Þá mynda skiptinemar góðan hluta hópsins. „Við fáum vanalega mjög mikið af skiptinemum í kórinn, myndi kannski segja 30-40% af honum eru oftast skiptinemar eða þá erlendir einstaklingar sem eru fluttir hingað. Það er skemmtilegt hvað þetta er allskonar!“ segir Greipur.

Þá segir Greipur það ekki vandamál að syngja á íslensku, þrátt fyrir að stór hluti kórsins séu skiptinemar. „Það er alltaf einn einstaklingur í kórnum með titilinn Framburðarmeistari, sem hjálpar skiptinemunum með íslenskan framburð. Það hafa ekki allir áhuga á að læra íslensku, en þeir sem leggja vinnu í það ná ágætis árangri.“ Þá fari æfingar oftast fram á íslensku, en það sé heldur ekki til fyrirstöðu. „Skiptinemarnir eru fljótir að læra lykilorðin sem hann notar til að skilja hvað hann er að biðja um.“

Stúdentablaðið/Sædís Harpa Stefánsdóttir

Stúdentablaðið/Sædís Harpa Stefánsdóttir

Geta sungið, lifað, leikið sér...

Ólíkt mörgum kórum, hefur Háskólakórinn þann eiginleika að vera rekinn af kórmeðlimunum sjálfum, en ekki kórstjóra. Auk þess að stjórna söngnum, sér kórstjórinn um viðburði og annað utanumhald. Greipur sér meðal annars um að stýra fólki í verkefni. „Á venjulegu kórári, sem er ekki núna, þá höfum við stóra tónleika á haustin, erum líka með jóla- og vortónleika. Förum oft til útlanda að vori til og syngjum þá vanalega á viðburðum og tökum þátt í keppnum. Áður en ég byrjaði var það annað hvert ár, en síðan eftir að ég byrjaði hefur það verið á hverju ári. Svo syngjum við líka í útskriftunum, en það kemur fyrir að við syngjum á öðrum atburðum, en það er óvenjulegt.“

Ekki nóg með að það sé mikið að gera í söngstarfi, þá hefur félagsstarfið líka verið stór partur af kórnum. Í raun mætti segja að það sé nemendafélagsbragur yfir kórstarfinu, en Greipur segir einmitt að margir hafi sleppt því að taka þátt í nemendafélaginu sínu vegna nægs félagsstarfs í kórnum. „Það er erfitt að halda kórpartý í ár, en venjulega erum við með nýliðapartý, hrekkjavökupartý, skemmtum okkur líka á aðalfundunum sem eru tveir, svo erum við með árshátíð alltaf á vorin, erum með útilegu líka.“ Þá fari kórinn líka í æfingabúðir á hverri önn, þar sem ein helgi er tekin í æfingar og skemmtun.

Það eru erfiðir tímar...

Covid-19 faraldurinn hefur haft víðtæk áhrif í samfélaginu og þar eru kórar landsins ekki undanskildir. Einhverjir þeirra hafa fellt niður tónleika og æfingar, þá oft vegna hás aldurs meðlima. Hvernig er staðan hjá hinum unga Háskólakór?

„Í vor, þegar þetta byrjaði, þá þurftum við að fella niður allar æfingar. Svo þegar ástandið róaðist gátum við verið með nokkrar æfingar fyrir útskriftina [í júní sl.] og sungum svo þar. Við vorum með plan um að fara til Skotlands um sumarið en þar fór allt niður,“ segir Greipur. Kórinn hefur prófað að æfa hverja rödd fyrir sig en Greipur hefur líka skipt kórnum upp í tvo litla kóra „þar sem ég er t.d. búinn að tengja saman fjölskyldumeðlimi, fólk sem býr saman, fólk sem er í sambandi, til að minnka líkur á krosssmitum.“ 

Að lokum spurði ég Greip út í plön kórsins á næstunni, en eins og við mátti búast voru þau óljós. „Við færðum hugmyndina að halda stóra tónleika á haustönn fram í lok vors, en við verðum bara að sjá hvort það gangi upp eða ekki. Í staðinn ætluðum við að reyna að taka eitthvað upp núna að hausti. Svo getur alltaf gerst að fólk fer að smitast inni og þá erum við komin í einangrun.“

_________________________________________________________________________

Meira um Háskólakórinn má finna á vefsíðunni kor.hi.is, en einnig á Facebook, Instagram og svo má hlusta á hann á Spotify.