Hámarkaðu prófatíðina – lágmarkaðu stressið
Nokkur ráð frá Náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands
Nú styttist í lok vormisseris og er prófatíðin að ganga í garð. Sá tími vísar til lok háskólatímabilsins og er ærin ástæða til að fagna en jafnframt vita að á stundum verður það krefjandi og getur valdið streitu. Þessi tími ætti í sjálfu sér að vera gleðiefni þar sem stúdentar eru að koma frá sér þeirri þekkingu sem þeir hafa öðlast. Stúdentar, hvort sem þeir eru í grunnnámi eða framhaldsnámi hafa þurft að ná ákveðnum árangri nú þegar til þess að vera komnir á þennan stað sem þeir eru á. Það er gagnlegt að velta fyrir sér hvernig hægt er að vinna að því að hámarka afköst og gleði á þessu tímabili og lágmarka stress.
Á meðan á háskólanámi stendur er mikilvægt að tileinka sér uppbyggilegt sjálfstal, jákvætt hugarfar og viðhorf og góðar venjur, sérstaklega þegar koma upp krefjandi tímabil eins og prófatími er. Gott er að átta sig á því hverju er hægt að stjórna og hverju ekki. Ekki er hægt að hafa stjórn á því hvernig próf eru lögð fyrir eða hvernig þau fara fram, aftur á móti er hægt að leita upplýsinga um skipulag prófa og lesa í kennsluáætlun um námsmat. Það er hægt að hafa stjórn á því hvernig tímanum er varið til prófundirbúnings, hvaða viðhorf maður tileinkar sér gagnvart prófum, prófatímabili og hvernig hægt er að stjórna streitustigi. Það þarf að sætta sig við það sem ekki er hægt að breyta og finna leiðir til að hagræða því sem er að valda streitu. Mikilvægt er að hlúa vel að sjálfum sér og hér eru nokkur atriði sem geta hjálpað við það.
Uppbyggilegt sjálfstal í stað gagnrýni
Það er mikilvægt að huga að því hvernig þú talar við sjálfa/n þig. Hefur þú tamið þér uppbyggilegt sjálfstal, þ.e. tekið eftir því jákvæða sem þú hef náð að gera á misserinu? Hefur þú sem dæmi mætt í flesta fyrirlestra, farið yfir mest allt lesefnið og skilað öllum verkefnum? Hér er verið að leggja áherslu á þann árangur sem hefur náðst og getu til að glíma við verkefni og próf. Ertu að einblína á það neikvæða, til dæmis það efni sem hefur ekki náðst að fara yfir og það sem þú telur þig ekki kunna eða þekkja? Veldu að byggja þig upp og sýna jákvæðni!
Endurskoða viðhorf
Hvaða skoðun hefur þú á prófum? Finnst þér þú ekki geta sýnt fram á alla kunnáttu þína og færni? Finnst þér þetta vera mælikvarði á þig sem námsmann? Eða horfir þú á próf sem einn hluta af námsmati til að komast nær lokamarkmiði þínu; að ljúka námi sem þú hefur mikinn áhuga á og nýta menntunina á atvinnumarkaði í framtíðinni? Ef þér finnst leiðinlegt að þurfa að rifja upp efni sem búið er að fara yfir á misserinu, gríptu þá tækifærið og hristu upp í viðhorfum þínum til náms. Finndu nýjar leiðir til að vinna úr námsefninu. Þetta er tækifærið til að læra enn betur og öðlast dýpri þekkingu og hæfni.
Endurskoða venjur
Gott er að ígrunda og skoða eigin námsvenjur. Hvaða aðferðir nýtir þú til að læra fyrir prófin? Hvar ertu að læra og með hverjum? Eru þessar venjur, sem þú ert búin/n að temja þér fyrir undirbúning prófa, heppilegar? Ertu tilbúin/n að nýta þér aðrar aðferðir? Það getur verið gagnlegt að ræða um námsefnið við samnemendur og fá aðra og jafnvel nýja sýn. Námsumhverfið skiptir máli og hér er hægt að velja, af ásettu ráði, nýjan stað til þess að læra og þannig aðgreina námið og einkalífið.
Núvitund/slökun
Vertu hér og nú og ekki velta þér upp úr því sem liðið er. Margir stúdentar kannast við „ég hefði átt“ hugsunina: „Ég hefði átt að lesa meira, hefði átt að læra meira“, og svo framvegis. Ekki er hægt að breyta því liðna eða hvernig lært og unnið var yfir misserið. Það er mun gagnlegra að hugsa: „Hvað get ég gert núna og hvað ætla ég að gera?“ Á prófatímabilinu er gott að gefa sér tíma á hverjum degi til að slaka á. Hægt er að hlusta á róandi tónlist eða gera slökunaræfingar. Það er til mikið af ýmsum símaöppum, eins og HappApp, sem geta stutt þig í að gera núvitundaræfingar og æfa slökun.
Hæfilegar kröfur á sjálfan sig
Fullkomnunarárátta er verulega streituvaldandi. Hugsanirnar sem fylgja fullkomnunarhegðun eru bjagaðar og órökréttar. Dragðu úr þessum ofurkröfum eins og að finnast þú „ekki vera að standa þig.“ Leggðu raunhæft mat á þig og nýttu þá innsýn sem það veitir þér á þig og þína styrkleika í námi.
Kæru stúdentar við vonum að þessi atriði komi að gagni við undirbúning prófa og á prófatímabilinu. Náms- og starfsráðgjöf er með fjölbreytt stafrænt efni sem er að finna á heimasíðunni www.hi.is/nshi. Við óskum ykkur góðs gengis og ekki hika að leita til okkar í Náms- og starfsráðgjöf með rafrænum hætti í gegnum netspjall, tölvupóst, síma eða fjarfund á Teams eða Zoom. Einnig hvetjum við ykkur til að fylgja okkur á Instagram og Facebook.
Netfang: radgjof@hi.is
Símanúmer: 525-4315
Netspjallið finnur þú á forsíðu hi.is
Facebook: @nshiradgjof
Instagram: namsradgjofhi
Vefsíða: www.hi.is/nshi