„Við höfum öll rödd“

„Minningar mínar frá háskólaárunum snúast kannski minnst um það sem ég lærði, heldur frekar um fólkið sem ég kynntist. Ég er ennþá í sambandi við marga úr náminu og lærði mikið af þátttökunni í félagslífinu.“ Stúdentablaðið/Hólmfríður María Bjarnard…

„Minningar mínar frá háskólaárunum snúast kannski minnst um það sem ég lærði, heldur frekar um fólkið sem ég kynntist. Ég er ennþá í sambandi við marga úr náminu og lærði mikið af þátttökunni í félagslífinu.“ Stúdentablaðið/Hólmfríður María Bjarnardóttir

Blaðamenn Stúdentablaðsins renndu í hlað á Bessastöðum þann 10. mars síðastliðinn, rétt fyrir samkomubann og lokun háskólabygginga. Tilefnið var viðtal við Elizu Reid, forsetafrú Íslands. Eliza hefur nýtt vettvang sinn sem forsetafrú til að tala fyrir auknu jafnrétti kynjanna og hélt fyrir skömmu Ted fyrirlestur sem bar yfirskriftina „Pulling Back the Curtain: Life as a First Lady“. Þá er hún stofnandi rithöfundaþingsins Iceland Writers Retreat og starfar fyrir Íslandsstofu á erlendum og hérlendum vettvangi. Þetta og margt fleira var rætt yfir kaffibolla á björtum og sólríkum þriðjudegi, en þess ber að geta að handabönd voru með öllu óheimil.

Rithöfundaþing í Veröld

Auk þess að sinna starfi forsetafrúar hefur Eliza ýmis fjölbreytt verkefni á sinni könnu. Í lok apríl var fyrirhugað að rithöfundaþingið Iceland Writers Retreat færi fram í sjöunda skipti hér á landi, að þessu sinni í Veröld í Háskóla Íslands. Því hefur nú verið frestað í ljósi aðstæðna í samfélaginu. „Rithöfundaþingin hafa verið mjög gefandi og áhugavert verkefni,“ segir Eliza. „Þau eru ætluð fólki sem hefur gaman af að skrifa en þetta er ekki endilega mjög fræðilegur viðburður. Erlendir höfundar koma til sögueyjunnar Íslands til að taka þátt í litlum og fjölbreyttum vinnustofum og fólk kemur alls staðar að úr heiminum.“ Á rithöfundaþinginu fá erlendu gestirnir líka að kynnast íslenskum bókmenntum og menningu. Af íslensku rithöfundunum sem áttu  að taka þátt í verkefninu í ár má nefna Kristínu Eiríksdóttur, Kristínu Helgu Gunnarsdóttur, Ármann Jakobsson og Huldar Breiðfjörð. Þátttakendur fara í bókmenntagöngur í miðbæ Reykjavíkur og keyra Gullna hringinn þar sem þeir koma við á Gljúfrasteini og í Skálholti. Eliza segir leiðsögumenn ferðanna alltaf vera rithöfunda. „Til að byrja með var Guðni leiðsögumaður, hann kom ókeypis, en svo varð hann svolítið uppteknari.“

Nemar í ritlist við Háskóla Íslands hafa gjarnan tekið þátt í rithöfundaþinginu sem sjálfboðaliðar. „Við pörum einn nemanda við hvern rithöfund og þau eru tengiliðir þeirra meðan á dvölinni stendur,“ segir Eliza. „Ef höfund vantar til dæmis far frá hótelinu eða þarf að vita hvar sé best að kaupa íslenskar lopapeysur getur hann haft samband við tengiliðinn sinn.“ Eliza segir viðburðinn vera gefandi og áhugaverðan fyrir alla sem að honum standa. „Það er einstök tilfinning að sjá fólk upplifa og skapa svona góðar minningar á hverju ári. Ég stofnaði fyrirtæki mitt árið 2008, reyndar viku fyrir hrun, en það er enn í gangi.“

Háskólaárin einstakt tímabil

Eliza er með gráðu í alþjóðasamskiptum frá Toronto og meistaragráðu í sagnfræði frá Oxford. Hún segir menntunina nýtast vel í hlutverki sínu sem forsetafrú og í öðrum störfum. „Háskólinn í Toronto var á þeim tíma annar af tveimur háskólum í Kanada sem bauð upp á BS-gráðu í alþjóðasamskiptum. Þetta var blanda af sagnfræði, stjórnmálafræði og hagfræði og naut vinsælda hjá þeim sem vildu starfa á sviði utanríkismála, til dæmis hjá utanríkisráðuneytinu eða sem diplómatar. Það má segja að þessi bakgrunnur nýtist mér sem forsetafrú, ég er alltaf að kynnast nýju fólki og hef gaman af að tala um samband Íslands við önnur ríki. Það er svo margt sem sameinar okkur og aðrar þjóðir.“ Þá hefur Eliza starfað á vegum Íslandsstofu síðan í október. „Ég tek þátt í viðburðum fyrir hönd Íslandsstofu bæði hérlendis og erlendis,“ segir Eliza. „Þar tala ég meðal annars um sjálfbærni, ferðamennsku, jafnréttismál, nýsköpun og fleira sem tengist því að kynna Ísland sem áfangastað og stað fyrir fjárfesta.“

Þrátt fyrir að það skipti máli að sinna náminu vel segir Eliza að háskólaárin snúist ekki eingöngu um það sem fari fram innan veggja kennslustofunnar. „Upplifunin sem við eigum sem nemendur skiptir líka máli.“ Eliza tók virkan þátt í félagslífinu þegar hún var í háskólanámi og var til dæmis formaður stúdentafélags, leiklistarfélags, sat í ritnefnd árbókarinnar og söng í kór. „Minningar mínar frá háskólaárunum snúast kannski minnst um það sem ég lærði, heldur frekar um fólkið sem ég kynntist. Ég er ennþá í sambandi við marga úr náminu og lærði mikið af þátttökunni í félagslífinu. Ég er alltaf að hvetja fólk til þess að nýta allt sem er í boði á háskólaárunum því þetta er einstakt tímabil.“ Eliza segir að það skipti ekki öllu máli hvaða námsleið sé farin í háskólanámi. „Ef fólk er ekki alveg búið að ákveða hvað það langar að læra þá mæli ég alltaf með að það skrái sig í eitthvað sem því þykir skemmtilegt og áhugavert. Háskólanám snýst um að kenna okkur hvernig eigi að koma skipulagi á hugmyndir okkar og koma þeim á framfæri. Það snýst ekki alltaf um hvaða nám muni tryggja þér bestar tekjur eða besta starfið í framtíðinni. Maður veit aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér.“

„Ég er að reyna að breyta þessari gamaldags ímynd og þá sérstaklega ímyndinni af kvenkyns maka.“ Stúdentablaðið/Hólmfríður María Bjarnardóttir

„Ég er að reyna að breyta þessari gamaldags ímynd og þá sérstaklega ímyndinni af kvenkyns maka.“ Stúdentablaðið/Hólmfríður María Bjarnardóttir

Ekki skraut fyrir makann

Eliza hefur í viðtölum og fyrirlestrum sagt að hlutverk forsetafrúar sé ekki vel skilgreint á Íslandi en fólk geri samt sem áður ákveðnar kröfur til hennar. Aðspurð um hvort sér þyki gerðar úreltar kröfur til maka þjóðarleiðtoga segist Eliza hafa velt því mikið fyrir sér. „Ég er að reyna að breyta þessari gamaldags ímynd og þá sérstaklega ímyndinni af kvenkyns maka. Oft hefur verið litið á forsetafrúr sem einhvers konar skraut fyrir það sem mennirnir þeirra eru að gera.“ Í byrjun marsmánaðar fóru forsetahjónin í opinbera heimsókn til Póllands. Auk hefðbundinna og opinberra viðburða ákvað Eliza að skipuleggja fundi og ávarpa ýmis samtök meðan á heimsókninni stóð. „Meðan Guðni sinnti skyldum sínum sem forseti ávarpaði ég meðal annars hóp af kvenkyns frumkvöðlum og félag kvenna í atvinnulífinu í Póllandi. Ég talaði líka við útgefendur og rithöfunda og hitti fulltrúa jafnréttisráðsins og innflytjendaráðsins í Gdańsk.“ Eliza segist hafa lagt áherslu á að deila myndum og fréttum frá heimsókninni. „Ég vil senda skilaboð um að ég eigi líka rödd og að ég geti notað röddina mína.“

„Ég vil ítreka að ég er í mikilli forréttindastöðu í þessu hlutverki og finnst mikill heiður að vera forsetafrú,“ bætir Eliza við. „Ég vil gera mitt besta en það er auðvitað engin handbók um hvernig eigi að vera maki þjóðarleiðtoga. Þegar Guðni tók við embættinu vildi ég vita hvað ég mætti gera og hvað ekki. Ég er svolítið týpan sem vill fylgja reglunum og vildi ekki vera landi og þjóð til skammar. En eftir að ég komst inn í þetta og lærði á hlutina, lít ég á það sem kost að hafa tækifæri til þess að þróa þetta hlutverk eins og mig langar.“ Eliza undirstrikar að þetta þýði ekki að maki næsta forseta Íslands, að því gefnu að næsti forseti eigi maka, þurfi að sinna hlutverkinu á sama hátt og hún. „Ég er auðvitað ekki skyldug til að gera neitt, ef ég vil bara vera heima og gera ekki neitt þá er það líka í lagi.“

Aðgengi innflytjenda að íslenskunámi

Eliza birti í nóvember síðastliðnum pistil í tilefni af degi íslenskrar tungu. Pistillinn vakti mikla athygli og var dreift víða á netinu. Eliza birti tvær gerðir af íslenska textanum, fyrst útgáfuna eftir að textinn var lesinn yfir og síðan frumútgáfuna. Í pistlinum stendur að markmiðið með skrifunum sé að „hvetja fólk sem er ekki með ís­lensku sem móður­mál sitt til að reyna að gera sitt besta, og ekki gef­ast upp. Og benda líka á að tungu­málið get­ur verið mjög fal­legt, full­komið eða ófull­komið.“ Aðspurð um íslenskuna segir Eliza mikilvægt að fólk tileinki sér málið þegar það flytji til landsins. „Ég er heppin að eiga tengdamóður sem talaði bara íslensku við mig og hvatti mig áfram. Ég vissi þegar ég kom til landsins með Guðna að hér yrði ég til frambúðar eða myndi að minnsta kosti eiga sterka tengingu við Ísland. Ég held að það sé erfiðara að finna tíma til að læra málið ef maður kemur bara til að vera hér í eitt eða tvö ár.“ 

Eliza lærði til að byrja með íslensku í Endurmenntun Háskóla Íslands. „Það var í raun heppni að ég byrjaði strax að læra, kannski tíu dögum eftir að ég flutti til landsins. Það er mjög auðvelt að búa á Íslandi og tala ensku án þess að tala neina íslensku.“ Eliza segir fólk gjarnan fresta því að læra málið. „En þá lærir maður það aldrei því maður er búinn að fatta að maður þarf ekki að læra íslensku. Ég hvet fólk til að byrja sem fyrst og reyna að vera duglegt að tala.“ Eliza brýnir fyrir Íslendingum að sýna þeim sem eru að læra málið þolinmæði. „Það þarf að sýna fólki sem talar kannski hægt eða er með sterkan hreim þolinmæði, ekki gagnrýna það eða klára setningarnar þeirra.“ Aðspurð um hvað Íslendingar geti gert betur til að auðvelda innflytjendum að læra íslensku segir hún ýmislegt vera í stöðunni. „Við sem samfélag getum gert þetta aðeins auðveldara. Við lærum auðvitað öll á mismunandi hátt, sumir vilja lesa kennslubækur og gera æfingar en aðrir vilja bara spjalla og hafa þetta meira óformlegt. Það hlýtur að vera hægt að skapa fleiri tækifæri fyrir fólk til að læra íslensku á auðveldan og ódýran hátt.“

Eliza segir innflytjendum oft reynast erfitt að finna tíma og fjármagn til að stunda nám í íslensku. „Sumir koma til landsins og vinna í láglaunastarfi, þurfa kannski að taka strætó fram og til baka og eiga jafnvel ung börn. Hvernig á þetta fólk að safna pening til að fara á námskeið?“ Eliza bendir á að mörg stéttarfélög endurgreiði íslenskunámskeið en þó ekki til að byrja með. Þá segir hún að fólki geti reynst erfitt að finna heppilegan tíma sólarhringsins til að mæta á námskeið og margir þurfi að stóla á almenningssamgöngur sem gangi misvel eftir dögum og tíma dags. „Það getur verið mjög erfitt að finna þennan tíma og ég held að þetta sé eitthvað sem við ættum að skoða. Það væri bara hagur okkar allra.“

„Mér finnst enn mikilvægara að nota röddina mína þó hún sé ófullkomin og með hreim.“ Stúdentablaðið/Hólmfríður María Bjarnardóttir

„Mér finnst enn mikilvægara að nota röddina mína þó hún sé ófullkomin og með hreim.“ Stúdentablaðið/Hólmfríður María Bjarnardóttir

Öll geta haft áhrif

Þó svo að Ísland sé framarlega í kvenréttindabaráttunni er enn langt í að fullu jafnrétti hafi verið náð. Þetta hefur Eliza meðal annars fjallað um í fyrirlestrum sínum og nýtt sýnileika sinn til að varpa ljósi á stöðu kvenna. „Já, ég tala oft um um jafnréttismál og jafnrétti kynjanna erlendis. Eitt af því sem ég segi alltaf er að við erum auðvitað stolt af því að vera best í heimi en það þýðir ekki að allt sé fullkomið á Íslandi. Við vitum að við eigum enn langt í land. En ég er mjög bjartsýn og vonandi verður fullu jafnrétti náð einhvers staðar, einhvern tímann í heiminum, og hvers vegna ekki á Íslandi?“

Eliza segist vilja láta í sér heyra til að stuðla að auknu jafnrétti. „Ég er fyrst og fremst að reyna að nota röddina mína. Stundum hugsa ég að það sé svolítil kaldhæðni í því að ég hafi fengið þennan vettvang vegna einhvers sem maðurinn minn hefur gert. Mér finnst eins og það sé erfitt að finna að ég eigi rétt á að tjá mig svona mikið um þetta málefni. En þá hugsa ég: „Þetta snýst ekki um hvernig við komumst þangað sem við erum, heldur hvað við gerum þegar við erum komin þangað.“ Ég reyni að láta þetta ekki á mig fá heldur nota röddina mína. Við höfum öll rödd, við getum öll verið fyrirmyndir.“ Sem kona af erlendum uppruna segir Eliza að henni sé þetta mál sérstaklega hugleikið. „Mér finnst enn mikilvægara að nota röddina mína þó hún sé ófullkomin og með hreim. Það er líka mikilvægt. Ég reyni alltaf að hvetja fólk áfram vegna þess að við höfum öll eitthvað mikilvægt að segja. Við erum öll fyrirmyndir, hvort sem við viljum vera jákvæðar eða neikvæðar fyrirmyndir eða höfum lítinn hóp eða stóran. Við getum öll haft áhrif. Ef okkur finnst eitthvert málefni mikilvægt þurfum við að tala um það.“

Málefni flóttafólks

Haustið 2017 ferðaðist Eliza á vegum UN Women til Jórdaníu þar sem hún heimsótti Zaatari flóttamannabúðirnar. „Þegar við fórum fyrst í flóttamannabúðirnar fengum við yfirlitskynningu yfir það sem gerist þar,“ segir Eliza. „Þarna búa 80 þúsund manns á litlu svæði, þetta er í rauninni borg.“ Eliza segir eina sterkustu minningu sína úr ferðinni vera svar sem hún fékk frá starfsmanni UNHCR. „Ég spurði hvernig það væri fyrir hinar fjölskyldurnar, þær sem fá ekki að fara úr búðunum, að sjá fjölskylduna sem býr við hliðina á þeim í gámunum vera á leið til t.d. Svíþjóðar. Var ekki erfitt að vita að þessi fjölskylda fengi að fara og hin yrði áfram í búðunum? Þessi einstaklingur sagði við mig: „Veistu, þetta eru bara svo fáir sem eru að fara að þetta er dropi í hafið. Það er enginn sem tekur eftir því.“ Eliza segir þetta svar sitja í sér. „Svo erum við í Evrópu að tala um að þetta sé flóð af fólki. Þetta er mannréttindamál og við erum öll heimsbúar. Við getum ekki bjargað öllum, en það þýðir ekki að við getum ekki bjargað einhverjum.“

 

Að lokum hvetur Eliza stúdenta til að njóta háskólaáranna og láta rödd sína heyrast.