Leiklistarkennsla í skólum: „Eru þau ekki bara að leika sér?“
Það eru ekki mörg ár síðan leiklist bættist við sem hluti af skólastarfi. Nú er leiklistin komin í námskrá fyrir grunnskóla svo nú er gert ráð fyrir að leiklist sé kennd í skólum þó það sé ekki lögbundið. Þó er það frekar undantekning en regla að boðið sé upp á slíkt nám.
Það hefur löngum þótt sjálfsagt að myndlist og tónmennt væru kennd í grunnskóla en kennsla í leiklist en svo til nýtilkomin. Kannski hefur leiklist og dansmennt í gegnum tíðina þótt eitthvað óæðri list enda eru leikur og dans auðvitað bara skemmtun. En kannski er ástæðan líka plássleysi og vanþekking eða óöryggi skólayfirvalda og kennara. Það hefur þó alltaf þótt skemmtilegt að setja upp leikrit fyrir bekkjarkvöld og árshátíðir og þá var ekki talin þörf á neinni fagkunnáttu. Það hefur ekki þótt nein list í sjálfu sér því almennt hefur viðkvæðið verið að allir geti auðvitað leikið, börnin þurfi bara að læra línur og fara með þær og það geta nú allir.
Að vissu leiti er einhver sannleikur í því að börn hafi það í sér að geta leikið enda ekki langt síðan þau hættu í hlutverkaleikjum. Og leikurinn er eðlislægur börnum og fullorðnum sem varðveitt hafa barnið í sér. En leiklistin hefur ýmsar hliðar og snýst ekki bara um að setja upp leikrit.
Kennsluaðferð leiklistar
Kennslufræði leiklistar er þegar leiklistin er notuð við að kenna alls konar fög eða þegar ýmsum leiklistaræfingum er beitt við kennslu. Þessum aðferðum er auðvelt að beita í kennsluefni eins og sögu, lífsleikni og félagsfræði þar sem börnin geta sett upp og leikið Njálsbrennu, gefið sér aðstæður í lífsleikninni eða spunnið úrlausnir á vandamálum.
Það er kannski erfiðara að kenna eðlisfræði eða stærðfræði á þennan hátt en samt er alveg hægt að leika frumur og blóðkorn og setja upp leikþætti þar sem nemendur er þrír og aðrir þrír bætast við af einhverjum ástæðum og þannig sýna verklega stærðfræði. Leiklistina má nota á marga vegu sem kennsluaðferð og gagnast mörgum mjög vel. Þeir sem þekkja til fjölgreindarkenningar Gardners geta séð að leiklistin hjálpar nemendum hvar sem styrkleiki þeirra liggur.
Leikræn tjáning
Önnur hlið á þessum sama teningi er að kenna leiklist sem listgrein. Þar er hún kennd í sérstökum leiklistartímum á svipaðan hátt og myndmennt og tónmennt. Þá eru oftast ráðnir lærðir leikarar eða kennarar með leiklist sem sérsvið til að kenna krökkunum. Áherslan er auðvitað misjöfn hjá kennurunum en yfirleitt er aðalatriðið að styrkja nemendurna sem skapandi einstaklinga. Í því felst að auka ímyndunarafl þeirra og hugmyndaauðgi og hvetja þau til að sýna frumkvæði og taka sjálfstæðar ákvarðanir. Þá er auðvitað líka áhersla lögð á að þjálfa þau í að koma fram og tjá sig frjálslega. Samvinna, samskipti og samningatækni er eitthvað sem þjálfast líka í vinnu við að setja upp leikþætti eða spinna.
Þriðja hliðin má segja að sé að setja upp leikverk eða leikrit en í rauninni er það oftast hluti af fyrrgreindum aðferðum.
Nauðsyn leiklistarkennslu
Í námskrá fyrir grunnskóla segir:
„Menntun í leiklist snýst um að þjálfa nemendur í aðferðum listgreinarinnar en ekki síður um læsi á leiklist í víðu samhengi og að dýpka skilning nemenda á sjálfum sér, mannlegu eðli og samfélagi. Í leiklist fá nemendur tækifæri til þess að setja sig í spor annarra og prófa sig áfram með mismunandi tjáningarform, hegðun og lausnir í öruggu umhverfi í skólanum. Hún styður nemandann í að tjá, móta og miðla hugmyndum sínum og tilfinningum. Leiklist reynir auk þess stöðugt á samvinnu, samskipti, sköpun, tungumál, tjáningu, gagnrýna hugsun, líkams- og raddbeitingu. Allt fer þetta fram í gegnum leik og sköpun.“
Það má segja að nú á dögum sé þörfin fyrir kennslu í leiklist meiri en nokkurn tíma. Skapandi störf eru margvísleg og í rauninni er skapandi hugsun eitt af því sem áhersla er lögð á þegar ráðið er í flest störf. Í námi og starfi eru einnig gerðar auknar kröfur um að nemendur og starfsfólk haldi fyrirlestra. Í framhaldsskólum eru oft gerðar kröfur um að lokaverkefni séu kynnt fyrir framan bekkinn og þar hjálpar leiklistin til. Æfingar sem losa nemendur við feimni og hjálpa þeim að stíga út fyrir þægindahringinn styrkja þá og sjálfsmynd þeirra verður sterkari.
Stjórnendur í skólum þar sem leiklist er kennd segja að nám í leiklist hafi breytt miklu í skólastarfinu. Nemendur sem hafa verið lagðir í einelti hafa tekið þátt og jafnvel blómstrað í uppsetningu á leikritum. Þeir sem eiga í erfiðleikum vegna ofvirkni og eiga erfitt með að sitja kyrrir fá útrás og skemmta sér vel í fagi þar sem þeir geta tjáð sig með látbragði og hreyfingu.
Leiklist er list augnabliksins. Leiklistarkennslan getur tekist á við þau mál sem efst eru á baugi í samfélaginu hverju sinni og brenna á nemendum. Þess vegna er leiklist oft notuð til kennslu í lífsleikni enda hjálpa aðferðir leiklistar til við að skerpa samfélagsvitund nemenda. Þeir verða virkari og taka frekar þátt í lýðræðislegri umræðu og félagsstörfum.
Tilfinning mín er að nám í leiklist ætti að vera lögbundið. Það ætti ekki að hætta þegar grunnskóla líkur heldur vera hluti af námi í framhaldsskóla líka. Leiklistin losar um hömlur, eykur sköpunarflæði og styrkir sjálfsvitund og öryggi í öllum aðstæðum. Þannig má segja að leiklist auki lífsgæði og lífsgleði fólks á öllum aldri.