„101 örsaga“

Arstidir.jpg

Karítas Hrundar Pálsdóttir er höfundur bókarinnar Árstíðir – sögur á einföldu máli sem kom út í janúar síðastliðinn. Bókin er ætluð þeim sem eru með íslensku sem annað mál.

 

Hugmyndin kviknaði út frá reynslu af tungumálanámi

Bókin er byggð á meistaraverkefni Karítasar úr ritlist frá Háskóla Íslands. Áður hafði Karítas lokið BA prófi í íslensku með japönsku sem aukagrein frá Háskóla Íslands. Í BA verkefni sínu bar Karítas saman íslenska og japanska málfræði og skoðaði hvaða kennsluaðferðir eru notaðar til þess að kenna þessi tvö tungumál sem annað mál. Það reyndist henni síðan góður grunnur þegar hún fór út í að skrifa bókina. „Ég var eitt ár í Waseda háskóla í Tókýó að læra japönsku og það var þar sem hugmyndin að bókinni kviknaði út frá reynslu minni af tungumálanámi.“ Karítas hefur einnig búið í Danmörku, Minnesota í Bandaríkjunum, Japan og er nýkomin heim frá á Spáni. „Ég kom að íslenskukennslu í Waseda háskóla þegar ég var þar og svo aftur við Háskóla Íslands seinna.“ Í bókinni leynast einmitt sögur sem byggja á reynslu Karítasar í Japan. Tvær þeirra eru beintengdar íslenskukennslunni og koma inn á það hvað vekur áhuga japanskra háskólanema á tungumálinu. Waseda háskóli er einn af hundrað háskólum á heimsvísu sem kenna íslensku en þar er hvort tveggja hægt að taka grunn- og framhaldsnámskeið í íslensku.

 

Að njóta þess að lesa

Í bókinni leynast stuttar og hnitmiðaðar örsögur, 101 talsins. Karítas segir að það hafi reynst henni vel að lesa sögur á einföldu máli í sínu tungumálanámi og að henni hafi fundist vanta fleiri slíkar sögur á íslensku. „Þannig að ég ákvað að skrifa þessar sögur sérstaklega með fullorðna lesendur í huga,“ segir Karítas. „Mig langaði líka að sögurnar væru svolítið menningarlegar, að þær gætu kynnt lesendur fyrir menningu, hefðum og gildum á Íslandi,“ bætir hún við en aftast í bókinni má finna fróðleik og skýringar, til dæmis á því fyrir hvað ákveðnir Íslendingar, sem minnst er á í sögunum, eru frægir. „Lesendur ættu að geta lært sitthvað af lestri sagnanna en ég vona fyrst og fremst að þeir hafi gaman af lestrinum og njóti vel,“ segir Karítas að lokum.

Karítas fannst vanta fleiri sögur á einföldu máli á íslensku. Ljósmynd/Aðsend

Karítas fannst vanta fleiri sögur á einföldu máli á íslensku. Ljósmynd/Aðsend

Tvær örsögur úr bókinni:

Maj

Það er eitt ár síðan ég kom til Kaupmannahafnar. Ég er að læra verkfræði í háskólanum. Núna sit ég fyrir utan skólastofuna og bíð. Við hliðina á mér situr Maj. Hún er dönsk og heitir eins og mánuðurinn maí. Við erum að fara í munnlegt próf. Maj er næst í röðinni. Svo er komið að mér. Ég er stressuð. Prófið er á dönsku. Ég fer yfir glósurnar mínar og reyni að muna allt sem ég þarf að muna.

Dyrnar opnast. Kennarinn kemur fram á gang.

„Hver er næstur?“

Det er Maj – Það er Maj,“ segi ég.

Er det dig? – Ert það þú?“ spyr kennarinn.

Nej, det er Maj –Nei, það er Maj,“ segi ég.

Kennarinn skilur mig ekki. Maj stendur upp.

Ja, det er mig –Já, það er ég,“ segir hún.

Maj fer inn í prófið. Ég sit ein eftir. Það hljómar eins þegar ég segi Maj og mig – Maj og ég. Ég set hendurnar fyrir andlitið. Úff, þetta verður erfitt.

Á móti straumnum

Ég var mjög lengi að ákveða í hvaða menntaskóla ég vildi fara. Að lokum sótti ég um í Kvennaskólanum í Reykjavík og komst inn. Þegar ég sagði fólki að ég væri byrjuð í Kvennó var eins og það kæmi því ekkert á óvart.

„Þú ert svo mikil Kvennó-týpa,“ sagði það.

Ég vissi aldrei hvað það þýddi. Hefði ég ekki verið MR-týpa ef ég hefði farið í MR?

Þegar ég komst inn í doktorsnám var eins og fólk hefði líka séð það fyrir.

„Þetta kemur mér ekki á óvart,“ sagði frænka mín.

„Þetta vissi ég,“ sagði samstarfsmaður minn. „Þér eru ætlaðir stórir hlutir.“

En mér fannst ekkert sjálfsagt við þetta. Ég var sú fyrsta í stórfjölskyldunni til að fara í doktorsnám og það voru ekki einu sinni liðin hundrað ár frá því fyrsta íslenska konan lauk doktorsprófi. Ég er auðvitað að tala um Björgu C. Þorláksson sem lærði við Sorbonne-háskóla í París og útskrifaðist þaðan úr heimspeki árið 1926.

Ég get rétt ímyndað mér hvernig Björg ögraði þeim fyrirframgefnu hugmyndum sem fólk hafði um hana. Björg synti á móti straumnum. Hún var fræðikona á tímum þar sem eingöngu karlar störfuðu sem háskólakennarar. Hún barðist við krabbamein og seinna geðræn vandamál á tímum þar sem hvers konar veikindi voru tabú. Afrek Bjargar gleymdust. Kannski af því fólk hafði fordóma gagnvart geðsjúkdómum. Eða af því hún var kona.

Ég hef komist að niðurstöðu: Fólk sér bara það sem það vill sjá. En ég vil að það sjái mig. Ekki eins og það vill að ég sé. Heldur eins og ég er. Ég vil ekki vera einhver ákveðin týpa. Ég vil bara vera ég.