Hvernig má kenna umhverfisvitund?
Skortur er á umhverfisfræðslu í íslenska menntakerfinu. Grunn- og framhaldsskólar fara mjög yfirborðslega í umhverfismál og lítið er um lausnir gagnvart loftslagsvánni. Umhverfismál eru mikið í umræðunni um þessar mundir. Okkur hefur verið sagt frá hættunni og þeim afleiðingum sem bíða okkar í náinni framtíð. Það er því ekki eftir neinu að bíða, börn og unglingar eiga rétt á að læra um vandamálið og leita leiða til að stöðva þróunina. Eða að minnsta kosti vera hvött til þess. Að því sögðu að menntakerfið sé ófullnægjandi á þessu sviði langar blaðamann að gefa nokkur ráð um hvernig fræða megi börn og samfélagið í heild um umhverfið okkar og hvernig megi vernda það.
Í fyrsta lagi, farðu út í náttúruna. Verið í náttúrunni og talið um hana. Ræðið um plönturnar, dýrin, fjöllin, loftslagið, umhverfið og allt sem er í kringum ykkur. Það er mikilvægt að vera meðvitaður um umhverfið sem umlykur okkur og hafa þekkingu á því. Til dæmis gætuð þið litið upp og velt fyrir ykkur hvers konar tré eru í kringum ykkur. Hvað er uppáhaldsæti dýrsins sem þið eruð að skoða? Þannig er hægt að læra „skemmtilegar staðreyndir“ um plöntu- og dýrategundir og umhverfið. Þannig myndi barnið tengja við náttúruna og verða meðvitaðra um umhverfið. Fólki er meðfætt að hugsa um og fara vel með það sem er kunnuglegt.
Í öðru lagi, leitaðu alltaf lausna með jákvæðu hugarfari. Sjálf stunda ég meistaranám í Umhverfis- og auðlindafræðum og er orðin ansi þreytt á að hlusta á niðurdrepandi staðreyndir og fréttir um loftslagsvána. Eins og staðan er í dag held ég að allir viti að jarðefnaeldsneyti og plastefni séu slæm fyrir umhverfið. Það er ekki þar með sagt að þessar upplýsingar séu ekki mikilvægar en það skiptir öllu máli að finna lausnir. Kenndu börnum að endurvinna á réttan hátt með því að þrífa umbúðirnar og flokka þær í mismunandi ruslakörfur. Kenndu þeim að bíllinn er ekki eini samgöngumátinn. Kenndu þeim að búa til eigin sápu, granóla, skraut o.s.frv. Prófaðu jafnvel að rækta þín eigin hráefni, t.d. paprikur, avókadó eða hvítlauk, það er auðveldara en þú heldur. Gerðu allt að leik!
Í þriðja lagi, minnkaðu úrgang. Lífsgæði snúast ekki um að eiga sem flesta hluti. Þau snúast um að hafa endingargóðar nauðsynjavörur í góðu ásigkomulagi og að þær séu góðar fyrir þig og jörðina. Ein leið til að kenna fólki hvernig hægt sé að minnka úrgang er að fara í gegnum sóun sína, annaðhvort í huganum eða bókstaflega. Þegar kemur að úrgangi kvenna má til dæmis nefna magn dömubinda eða bómullarpúða. Hvort tveggja er mjög auðvelt að forðast með því að skipta yfir í fjölnota vörur.
Í þessu samhengi er líka þess virði að dvelja við hugmyndina um að lagfæra, eða gera við. Eins undarlega sem það hljómar virðast lagfæringar einskorðast við saumaskap í menntakerfinu. Hann er þó ekki kenndur á fullnægjandi hátt. Það er auðvitað nauðsynlegt að allir læri að laga og gera við sín eigin föt, en það eitthvað sem allir læra í grunnskólum. Hins vegar, þegar saumuð eru ný föt úr notuðum fötum, gætu kennarar unnið með meiri sköpunargleði og sameinað mismunandi áferð og munstur. Við það myndu börn sjá að hægt er að búa til flottan og nýstárlegan fatnað út frá gömlum bútum. Dæmi um slíkt er verkefnið „Misbrigði“ sem stýrt er af Katrínu Maríu Káradóttur við LHÍ.
Að lokum er rétt að árétta að það langmikilvægasta er að vera ávallt meðvitaður um áhrif gjörða þinna. Lærðu og kenndu áfram hvernig hægt er að líta á allt með innsæi og umhverfisvitund. Það er vel hægt án þess að fyllast samviskubiti eða depurð. Leyfðu börnunum að njóta lífsins og finna fyrir sterkri tengingu við jörðina, aðrar tegundir og vistkerfið í heild.