Stúdentaráð 100 ára!
Stúdentaráð Háskóla Íslands var stofnað árið 1920 og var fyrsti formaður þess Vilhjálmur Þ. Gíslason. Fyrstu kosningar voru haldnar 11. desember sama ár og fyrsti fundur 17. desember. Stefnan sem Stúdentaráð setti sér fyrir hundrað árum var „að gæta hagsmuna stúdenta í hvívetna, og vera fulltrúi þeirra innan og utan háskólans“. Samkvæmt Lúðvíg Guðmundssyni sem skrifaði grein í Stúdentablaðið árið 1925 voru margir nemendur fremur skeptískir þegar Stúdentaráð var stofnað. Lúðvíg kallaði þá nemendur hins vegar hugsjónalausa letingja sem misskildu starf þess. Stúdentaráð á Lúðvíg mikið að þakka en hann helgaði sig margvíslegum störfum í þágu stúdenta og félagslífs þeirra. Hann var meðal þeirra sem komu að stofnun Stúdentaráðs, hann gekkst fyrir stofnun Mensa Academica, sem var mat- og samkomustaður stúdenta í mörg ár, og tók hann einnig þátt í baráttunni um Stúdentagarða. Þetta er aðeins brot af þeim hagsmunamálum námsmanna sem Lúðvíg barðist fyrir og væri það heldur langt mál ef allt væri rakið. Stúdentaráð hefur einnig áorkað gríðarlega miklu á síðustu 100 árum og tæki það heila bók að rifja upp öll afrek þess. Í staðinn verður fjallað stuttlega um nokkra áfanga, nánast valda af handahófi, úr sögu þess.
Mensa Academica
Á fyrsta fundi Stúdentaráðs var eitt mál sérstaklega til umræðu. Það var jafnrétti til náms og tillögur um fjármögnun námsins fyrir þá sem minna höfðu milli handanna. Tvö önnur mál komust einnig á dagskrá en það var stofnun kaupfélags og sjúkrasamkomulags stúdenta. En það sem Stúdentaráð barðist mest fyrir næsta árið var stofnun Mensa Academica, matstofu fyrir stúdenta, sem opnaði í byrjun nóvember 1921 á Lækjargötu 2. Markmiðið var að bjóða námsmönnum Háskóla Íslands mat á lægra verði. Að lokum varð Mensa, eins og hún var kölluð í daglegu tali, orðin að nokkurs konar félagsheimili. Í byrjun kaus Stúdentaráð þrjá meðlimi í stjórn og starfaði hún í ár. Þá tók ný stjórn við og kaus Stúdentaráð tvo menn en mötunautarnir kusu einn. Eftir tæplega átta ára starfsemi fór þó að halla undan fæti og neyddist Stúdentaráð til þess að loka staðnum í júní 1929. Meginástæðan fyrir lokuninni var minni aðsókn námsmanna ásamt skuldum þeirra við Mensa. Stúdentaráð treysti sér ekki lengur til að halda starfseminni áfram. En á móti kom að á þessum tíma var Stúdentagarðsmálið mikið í umræðu landsmanna og höfðu námsmenn trú á því að ekki myndi líða á löngu þar til að nýr samkomustaður myndi rísa. Þeim skjátlaðist reyndar hrapallega þar sem biðin stóð í rúmlega fimm ár.
Stúdentagarðar
Á vefsíðu Stúdentagarða stendur að hlutverk þeirra sé að bjóða nemendum við Háskóla Íslands hentugt og vel staðsett húsnæði til leigu á sanngjörnu verði. Meirihluti íbúðanna eru staðsettar á háskólasvæðinu ásamt íbúðum í Brautarholti, Fossvogi og við Lindargötu. En þegar Stúdentagarðsnefndin hóf baráttu sína fyrir görðunum var Skólavörðuhæðin meðal mögulegra staðsetninga, þar sem Hallgrímskirkja stendur núna. Þar átti nefnilega að rísa svokölluð háborg, sem aldrei varð neitt úr. Baráttan fyrir Stúdentagörðum var fremur löng áður en fyrsta byggingin reis að lokum. Árið 1917 gerði Guðjón Samúelsson, sem síðar varð húsameistari ríkisins, uppdrátt að háskólabyggingu og stúdentagarði en ekkert varð úr framkvæmdum. Fyrrnefndur Lúðvíg Guðmundsson hófst hins vegar handa haustið 1922 við að þoka málum áfram, en hann var þá skipaður fyrsti formaður Stúdentagarðsnefndar. Nefndin beitti ýmsum aðferðum til að afla fjár fyrir væntanlega byggingu Garðanna, þar á meðal með happdrætti og hátíðahöldum. Þá höfðu ýmis sveitarfélög gefið Stúdentagarðsnefndinni fé og fengu þá í staðinn rétt til að veita stúdent forgangsrétt að einu herbergi ásamt því að ráða nafni þess. Sömuleiðis var haldin teiknikeppni (hugmyndasamkeppni) um Garðana en fulltrúum Stúdentaráðs leist illa á allar tillögurnar og fólu Sigurði Guðmundssyni, húsameistara ríkisins, verkið. Ekkert varð af framkvæmdum í þetta skiptið en síðar var honum falið verkefnið og þá reis Gamli Garður, sem hét þó aðeins Garður í þá daga. Hann var tekinn í notkun 1. október 1934 og hýsti 37 námsmenn. Þrátt fyrir það hélt Stúdentaráð áfram baráttu sinni þar sem það stefndi að því að byggja húsnæði fyrir alla nemendur skólans, ekki bara rúm 20 prósent (árið 2018 var þessi tala um 10 prósent). Árið 1940 var Ísland hernumið af bresku hernámsliði og lagði það undir sig Gamla Garð og breytti honum í hersjúkrahús. Þetta var erfiður tími fyrir marga stúdenta sem lentu í húsnæðisvanda og neyddust um það bil 20 þeirra til að búa við slæmar aðstæður í kjallara og hluta af fyrstu hæð aðalbyggingar Háskóla Íslands. Hvað varð um restina af íbúum Gamla Garðs er erfitt að segja. Stúdentum leist illa á þetta og létu vel í sér heyra, þar á meðal með kröfugöngu að sendiráði Breta. Í kjölfarið samþykktu Bretar að aðstoða við byggingu á nýjum stúdentagarði og haustið 1943 var Nýi Garður tekinn í notkun. Aftur var það Sigurður Guðmundsson sem teiknaði bygginguna, en Eiríkur Einarsson aðstoðaði við hönnun verksins. Ekki voru fleiri garðar byggðir fyrr en á vegum Félagsstofnunar stúdenta á síðari hluta 20. aldar.
Félagsstofnun stúdenta
Félagsstofnun stúdenta (FS) var stofnuð árið 1968, hálfri öld eftir að Ísland fékk fullveldi. Háskólinn fékk forstjóra Félagsstofnunar stúdenta við Oslóar-háskóla og forstjóra háskólaforlagsins í Osló á fund með Háskólaráði og Stúdentaráði tveimur árum áður til að kynna skipulag og starf stofnunar sinnar. Á sá fundur að hafa verið sérlega gagnlegur og í framhaldi af honum var samið frumvarp til laga um FS. Gamli Garður, Nýi Garður, Kaffistofa stúdenta í Aðalbyggingunni, Bóksala stúdenta, barnaheimilið Efri-Hlíðar og Ferðaþjónusta stúdenta var nú allt komið í umsjá FS. En í dag hefur skipulagið breyst örlítið þar sem sumar stofnanir hafa fengið nýtt hlutverk og aðrar verið lagðar niður eða endurreistar frá grunni. Til dæmis má nefna Stúdentakjallarann og Hámu. Þegar FS tók til starfa var stjórnin skipuð þremur aðilum, Stúdentaráð tilnefndi einn, Háskólaráð einn og menntamálaráðherra einn. Í dag eru þrír fulltrúar tilnefndir af SHÍ, einn af HÍ og einn af menntamálaráðuneytinu.
Eftir að FS var stofnað var strax hafist handa og svokallað stúdentaheimili opnaði við Hringbraut árið 1971. Á næstu árum var alls kyns verkefnum komið af stað en fyrstu stúdentagarðarnir sem risu á vegum FS voru Hjónagarðar árið 1976. Hjónagarðar eiga sér þó einstaka sögu en þeir voru byggðir fyrir gjafafé sem safnaðist í minningu Bjarna Benediktssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, Sigríðar Björnsdóttur, eiginkonu hans og Benedikts Vilmundarsonar, barnabarni þeirra, sem fórust í eldsvoða á Þingvöllum árið 1970. Foreldrar Benedikts, Valgerður Bjarnadóttir og Vilmundur Gylfason, urðu síðar bæði alþingismenn. Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, var einnig sonur þeirra Bjarna og Sigríðar en hann var einmitt einn af upphafsmönnum FS og lagastúdent á þeim tíma. Árið 2007 flutti FS alla starfsemi sína á Háskólatorg þar sem það opnaði sömuleiðis Hámu ásamt Bóksölu stúdenta, en Óttarr Proppé, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra er verslunarstjóri hennar í dag. Guðrún Björnsdóttir, framkvæmdastjóri FS, sagði á 50 ára afmæli FS að eitt mikilvægasta markmið þess væri meðal annars að stuðla að því að efla lífskjör stúdenta og passa upp á að þeim líði vel á meðan náminu stendur. Í dag er FS enn í fullu fjöri, en þar starfa um 170 manns. Stækkun Gamla Garðs er í framkvæmd og Mýrargarður var tekinn í notkun fyrr á árinu.
Að lokum
Víst er að störf SHÍ hafi haft mikil áhrif á þróun háskólans og lífskjör stúdenta. Það má svo sannarlega segja að Stúdentaráð hafi staðið undir merkjum og náð þeim árangri sem það setti sér fyrir hundrað árum. SHÍ stendur vörð um hagsmuni stúdenta og gætir þess að jafnrétti ríki innan sem og utan veggja háskólans. Næsta tölublað Stúdentablaðsins verður tileinkað jafnréttismálum og þar verður stiklað á ýmsu sem SHÍ hefur barist fyrir, eins og lánasjóðsmálum stúdenta. Hamingjuóskir með hundrað ára afmælisárið SHÍ – megi starfsemin dafna um ókomin ár!