PISA, íslenskt menntakerfi og aðrar þjóðir

Grafík/Elín Edda Þorsteinsdóttir

Grafík/Elín Edda Þorsteinsdóttir

Niðurstöður PISA-kannana

Þegar niðurstöður íslenskra ungmenna í PISA-könnun ársins 2015 voru birtar voru þær mörgum áfall. Þá höfðu íslenskir nemendur aldrei mælst lægri á öllum þremur sviðum PISA. PISA er könnun á vegum OECD sem mælir læsi fimmtán ára unglinga á stærðfræði og náttúrufræði, sem og almennan lesskilning. Eftirminnileg er ef til vill sú staðreynd að þriðjungur drengja taldist ekki geta lesið sér til gagns.

Könnunin er lögð fyrir á þriggja ára fresti og í desember síðastliðnum voru niðurstöður PISA-könnunar ársins 2018 kynntar. Þar kom í ljós að íslenskir nemendur hefðu lækkað um 8 stig í lesskilningi. Læsi í náttúruvísindum var þó svipað (undir meðaltali OECD) en læsi á stærðfræði batnaði milli ára og teljast íslenskir nemendur nú yfir meðaltali OECD. Þó er Ísland neðst Norðurlandanna í matsflokkunum þremur.

Mynd/Menntamálastofnun

Mynd/Menntamálastofnun

Fjölmargir hafa velt því fyrir sér af hverju lakur árangur Íslands stafi. Hvers vegna standa íslenskir nemendur sig verr - íbúar lands sem telst ríkt velferðarland - en nemendur töluvert fátækari landa? Eistland er eitt landanna sem vermir efstu sætin í PISA-könnun ársins 2018 og er einnig það ríki sem er í fyrsta sæti yfir árangur nemenda í náttúruvísindum. Samt er Ísland meira en helmingi ríkara land (og þá er ekki einu sinni miðað við höfðatölu). 

Ísland fjárfestir 5.6% landsframleiðslu þjóðarinnar í menntakerfinu. Það er aðeins meira en Finnland (5.5%) og Svíþjóð (5.4%). Minna en Noregur (6.5%) og Bretland (6.2%). Þó er það töluvert meira en Eistland sem fjárfestir í menntakerfi sínu fyrir 4.3% af landsframleiðslu. Öllum þessum löndum gengur samt betur en Íslandi. Því getur það ekki verið að fjárskortur í menntakerfinu sé eini þátturinn sem valdi slæmu gengi Íslands - þótt flestir sem koma að skólastarfi séu líklega sammála um að menntakerfið þyrfti eflaust á meira fjármagni að halda en það fær. Ef til vill má samt velta því fyrir sér, þar sem Ísland hefur svo lítið hagkerfi, hvort það þyrfti að leggja hlutfallslega meira til þar sem Ísland býður upp á ríka sérhæfingu í námi og atvinnu þrátt fyrir það að vera tiltölulega lítið land. En kannski eru ástæðurnar líka aðrar og meiri.

Tími aðgerða

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur kynnt aðgerðir sem miða að því að íslenskir nemendur nái betri árangri. Meðal þeirra eru fjölgun móðurmálskennslustunda en að hluta til er talið að íslenskum nemendum gangi illa í PISA-könnunum vegna takmarkaðs orðaforða og skorts á málskilningi. Hvað það varðar hafa ensk máláhrif eflaust nokkuð um það að segja. Í því samhengi má velta því fyrir sér hvort viðhorf samfélagsins gagnvart íslensku og notagildis hennar hafi ekki líka áhrif. 

Aðrar aðgerðir mennta- og menningarmálaráðuneytisins eru t.d. að efla starfsþróun kennara, endurskoða námsefni o.s.frv. En ein aðgerðin vekur sérstaka athygli og það er skrefið: ,,Auka væntingar til nemenda.“ Ráðuneytið hlýtur því að telja svo að íslenskir nemendur geti staðið undir ríkari kröfum en gerðar eru til þeirra. Í júní síðastliðnum talaði yfirmaður menntamála hjá OECD, Andreas Schleicher, um stöðu íslenska menntakerfisins samanborið við aðrar þjóðir. Hann kom þar meðal annars inn á brottfall nemenda úr námi hér á landi en það telst hátt miðað við margar aðrar þjóðir. Schleicher taldi að þeir nemendur sem hyrfu á brott úr námi væru annars vegar nemendur er glímdu við námserfiðleika sem skólakerfið mætti ekki nægilega vel sem og framúrskarandi nemendur sem fengju ekki nægileg tækifæri til þess að þroska hæfileika sína. Geti þeir ekki gert það getur svo farið að þeim byrji að þykja námið leiðigjarnt. Af þessu má álykta að mikilvægt sé fyrir menntakerfið að huga að allri breidd nemendahópsins.

Ráðuneytið fjallar jafnframt um þann lærdóm sem má draga af öðrum löndum eins og Svíþjóð og Eistlandi. Sagt er frá því að í Eistlandi hafi átt sér stað umbótavinna og uppbygging frá árinu 1991 þar sem litið hefur verið til norrænna fyrirmynda og lögð áhersla á stafrænar lausnir.  Um gildi menntunar hefur orðið hugarfarsbreyting í eistnesku samfélagi. Eins og PISA-könnunin sýnir hefur Eistland skotist langt upp fyrir norrænu löndin sem það leit til.

Kannski þarf einnig hugarfarsbreytingu á Íslandi hvað varðar gildi menntunar. Mjög lágt hlutfall íslenskra kennara (innan við 20%) telur að starf sitt sé metið að verðleikum. Íslenskir nemendur virðast einnig virða tíma annarra minna (þá kennara og samnemenda) en nemendur á Norðurlöndunum - samanber þær tölulegu staðreyndir að 43% íslenskra kennara telja sig þurfa að bíða eftir þögn í skólastofunni en 27% kennara á Norðurlöndunum. Þá tapa 41% íslenskra kennara tíma vegna truflana og 29% á Norðurlöndunum. Schleicher talaði um að eitt af því sem þyrfti að gera væri að veita kennurum sem standa sig mjög vel í kennslu sérstaka eftirtekt og veita þeim opinbera athygli fyrir vel unnin störf. 

Það hefur sýnt sig að framtak menntamálaráðuneytis með launað starfsnám í kennaranámi hefur aukið aðsókn að náminu. Það er afar jákvæð þróun og vel er að gleðjast yfir henni. En þó skyldi ekki látið þar við sitja. Í Finnlandi er starfsstétt kennara mjög virt í samfélaginu og samkeppnin um pláss í kennaranámi þar er mjög mikil. Vonandi færist hugur íslensks samfélags enn nær í þá átt. Viðhorf samfélagsins hafa auðsjáanlega töluverð áhrif á menntamál og ástundun og gengi nemenda. Samfélag og þjóð sem leggur ríka áherslu á gildi menntunar og mikilvægi hennar (og þá er auðvitað átt við menntunar í sjálfu sér, ekki einungis menntunar sem undirbúning fyrir atvinnulífið) getur uppskorið mjög ríkulega.