Kennslustofan sem öruggt rými fyrir alla

Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Silja Bára Ómarsdóttir, dósent við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, hlaut viðurkenningu Háskóla Íslands fyrir lofsvert framlag til kennslu árið 2019. Blaðamaður Stúdentablaðsins hitti Silju nú á dögunum þar sem kennslumál, kennsluhættir og femínismi voru meðal annars til umræðu.

Þegar kviknar á ljósaperunni

Silja Bára byrjaði kennsluferil sinn sem aðstoðarkennari þegar hún var í meistaranámi árið 1995. Hún hóf síðan kennslu á meistarastigi í stjórnmálafræði árið 2005 og ári seinna byrjaði hún að kenna einnig á grunnstigi í sama fagi.

Hún segir að sér finnist eiginlega allt skemmtilegt við kennslu en að það standi helst upp úr að fá að leiðbeina. „Þessi einstaklingsbundnu samskipti þar sem maður sér nemendur taka stór stökk í akademískum þroska og sér vinnubrögðin mótast og skila sér. Líka almennt þegar maður sér kvikna á ljósaperunni. Að sjá nemendur tengja við efnið og skilja það og vilja beita þeim hugmyndum sem þeir hafa lært í að skoða eitthvað ákveðið mál er rosalega gaman,“ segir Silja.

Aðspurð hvað hún telji vera það sem geri hana að góðum kennara segir Silja að það sé líklega fyrst og fremst að hún hafi bæði áhuga á efninu sem hún er að kenna sem og fólkinu sem hún kennir. „Mér finnst mjög gaman að kynna fólk fyrir hugmyndum sem mér finnst spennandi og sjá þau takast á við námsefnið. Ég kenni alþjóðastjórnmál þannig ég er að sjá þau takast á við heiminn til dæmis. Hvernig fólk fer að lesa fréttagreinar öðruvísi, fer að horfa á eigið umhverfi á gagnrýnni hátt, hluti sem bæði Ísland og stórveldi eru að gera. Hvers vegna við heyrum um einhver stríð en ekki önnur, afhverju við lítum á sumt fólk sem hryðjuverkamenn en aðra sem baráttumenn fyrir góðan málstað. Hvaða gildi eru innbyggð í þær upplýsingar sem við fáum og þess háttar. Ég held að þetta séu hlutir sem kveikja áhuga hjá fólki. Alþjóðastjórnmál eru að vísu skylduáfangi hjá þeim sem eru að læra stjórnmálafræði og þar af leiðandi eru ekki allir sem eru bilaðslega spenntir fyrir þessu. En engu að síður sjá flestir einhverja tengingu við sinn hversdagslega veruleika sem er held ég það sem hjálpar fólki að finnast þetta skemmtilegt,“ segir hún.

„Ég held að maður læri betur ef manni þykir gaman“

Silja Bára notar mismunandi kennsluhætti og segir hún að það fari eftir því hvaða námskeið hún sé að kenna. Hún segist vera meira og meira að notast við vendikennslu.

„Þá tek ég upp stutta fyrirlestra fyrir hvern tíma. Þá er hægt að taka upp það þurra og fræðilega í stað þess að eyða miklum tíma í það í skólastofunni. Þá geta nemendur hlustað á það fyrir og farið yfir það aftur seinna. Þau hafa aðgang að því fyrir próf og verkefnavinnu. Þetta gerir mér einnig kleift að koma íslenskum hugtökum fyrir þar sem flestir textarnir sem nemendur lesa eru á ensku. Með þessu fyrirkomulagi nýtist tíminn í kennslu meira í verkefnavinnu og geta nemendur komist í betri snertingu við efnið, fremur en að vera í tímaþröng að reyna að fara yfir allt efnið í tímanum. Það getur orðið mjög þreytandi fyrir alla,“ segir Silja. Hún tekur dæmi og segir þetta henta einkum vel í námskeiði um bandarísk stjórnmál. „Með þessum hætti geta þau komið með innlegg í tíma og geta sagt frá því hvernig það tengist til að mynda mikilvægi bandarísku stjórnarskrárinnar í bandarískum stjórnmálum eða hlutverki þingsins. Þá fá nemendur heilsteyptari æfingu og ég stend ekki fremst og er að þusa yfir þeim, sem engum finnst skemmtilegt,“ bætir hún við.

Blaðamaður Stúdentablaðsins spyr Silju í kjölfarið hvort hún telji að það felist meiri aukavinna í slíkri kennslu fremur en hefðbundnari kennsluháttum. Silja segir að svo sé ekki og að þetta henti vel innan sinnar deildar. „Fyrir fram heldur maður kannski að það verði aukavinna en á móti kemur þá erum við oft að notast við sömu námsbókina í 2 eða 3 ár, allavega í félagsvísindum. Þar með dreifist undirbúningurinn og tímarnir eru einfaldlega skemmtilegri, bæði fyrir mig og nemendur. Ég held líka að maður læri betur ef manni þykir gaman,“ segir hún.

Silja segir að ein af ástæðunum fyrir því að hún hafi rekist út í slíka kennsluhætti hafi verið krafan um upptökur í tímum. 

„Ég vil hafa rýmið lifandi og að fólki finnist það öruggt í skólastofunni. Skólastofan er þá lifandi og umræðan á sér aðeins stað þar. Svo tekur fólk hluti með sér úr henni án þess að það sé möguleiki á að hlutir séu teknir úr samhengi,“ segir Silja.

Blaðamaður Stúdentablaðsins spyr Silju í kjölfarið hvort hún sjái mun á þátttöku eða mætingu í tíma eftir að hún byrjaði á vendikennslu. Silja segist hafa upplifað að þegar hún byrjaði á þessu fyrst í grunnnámskeiði hafi mætingin minnkað. Á móti kom að nemendur sem mættu voru mjög áhugasamir og vel undirbúnir. Silja segir þá að hún sé farin að færa námsmatið frekar inn í kennslustofuna. „Þá er fólk að fá tækifæri til þess að kynna til dæmis ritgerð sem það er að vinna, kemur með efni sem tengist fyrirlestrunum sem eru á netinu. Við erum að vinna verkefni í tíma til þess að hjálpa nemendum að ná betri tökum á því efni sem búið er að setja fram,“ segir Silja. 

Hún bætir því við að krafan til upptöku í tímum sé mun meiri en í öðrum háskólum og að kollegar hennar erlendis telji þetta furðulega áherslu. Þá segir Silja að það sé mikilvægt að nemendur séu að fá menntun en ekki einungis gráður og að það sé hugarfarið sem við þurfum að hafa í fyrirrúmi.

Nemendur hluti af rannsóknarsamfélagi

Þegar Silja Bára er spurð hvort hún telji að einhverju sé ábótavant í kennslumálum innan háskólans segir hún að það megi alltaf bæta, en að það sé fullt af fólki innan skólans sem hafi mikinn áhuga á kennslumálum og vinni að þeim af miklum metnaði. „Svo er líka fólk sem telur sínum hagsmunum og tíma betur varið í að sinna rannsóknum og aðskilur þessa þætti. Það sem mér hefur fundist jákvætt við stefnumótun og sjálfsmat og þá vinnu sem hefur verið í gangi síðustu árin er hvernig við tengjum saman þessa tvo þætti, að hjálpa nemendum að skilja að þeir eru strax komnir inn í rannsóknarsamfélag og það er hluti af kennslunni okkar að tengja þau inn í þær hugmyndir,“ segir Silja. 

Jafnræði er lykilatriði

Silja Bára hefur ýmislegt á sinni könnu í fjölbreyttum verkefnum utan háskólans. Hún heldur utan um hina ýmsu femínísku viðburði og fór meðal annars til Suðurskautslandsins í jólafríinu. Aðspurð hvernig henni finnist að finna jafnvægi milli kennslunnar og annars konar verkefna segir hún að mikilvægt sé að passa sig á því að taka sér frí inn á milli og reynir hún jafnframt að ferðast þegar hún á frí. 

Silja er femínískur alþjóðastjórnmálafræðingur og beinast nánast allar rannsóknir hennar að femínisma. „Femínisimi snýr náttúrulega að því að jafna tækifæri og samkeppnisaðstæður svo eitthvað sé nefnt. Þá þykir mér mikilvægt að hver og einn nemandi hafi jöfn tækifæri innan kennslustofunnar og það sé ekki einhver ákveðinn hópur sem hafi forskot vegna aðstöðumunar, uppruna, kyns eða einhvers annars. Maður reynir að finna leiðir til þess að skapa jafnræði. Það er algjört lykilatriði,“ segir Silja.