Konur í leikstjórn og fataneysla Íslendinga: verkefni á vegum nýsköpunarsjóðs

Fjöldi styrkja voru veittir á vegum nýsköpunarsjóðs til háskólanema í sumar, þar sem lögð var sérstök áhersla á skapa fleiri störf fyrir nemendur. Unnið var að fjölbreyttum jafnt sem áhugaverðum verkefnum og rannsóknum. Til umfjöllunar verða tvö spennandi verkefni, annað þeirra varpar ljósi á stöðu kvenna í kvikmyndaiðnaðinum og hitt á fataneyslu og endurvinnslu.

Kynbundin orðræðugreining á íslenskum kvikmyndum - Jóna Gréta Hilmarsdóttir

Jóna Gréta Hilmarsdóttir er 21 árs gamall nemi við Háskóla Íslands sem klárar nú BA nám í kvikmyndafræði með kynjafræði sem aukagrein. Leiðbeinandi hennar í rannsókninni var Björn Þór Vilhjálmsson, kennari og greinarformaður kvikmyndafræðinnar. Rannsókn Jónu Grétu varpar ljósi á hvernig umfjöllun fjölmiðla um kvikmyndir virðist mismunandi eftir kyni leikstjóra. „Það vantar mjög mikið af rannsóknum tengdum íslenskri kvikmyndagerð, og það hefur aldrei verið rannsakað viðtökusögu fjölmiðla í tengslum við tilteknar kvikmyndir eða leikstjóra. Það vantar tölfræðilegar upplýsingar hvað varðar íslenska kvikmyndamenningu og einnig þegar kemur að hlut kvenna. Þetta er stórt skref í sjálfri kvikmyndafræðigreininni hérlendis.“ Hún greinir umfjöllun átta kvikmynda frá fjórum áratugum. Hún tekur dæmi um myndir eftir kvenkyns og karlkyns leikstjóra með sambærilegar aðsóknartölur frá árunum 1989, 1992, 2001 og 2017 og ber myndirnar saman fyrir hvert ár. 

IMG_2248 (1).JPG

„Það gefur allt til kynna að konur eigi erfitt uppdráttar hérlendis, þrátt fyrir Me Too, þrátt fyrir allt.“

Karllægur iðnaður

Kvikmyndaiðnaðurinn hefur löngum verið karllægur. Jóna Gréta segir það alltaf hafa verið erfitt fyrir konur að komast áfram í kvikmyndaiðnaðinum „það gefur allt til kynna að konur eigi erfitt uppdráttar hérlendis, þrátt fyrir Me Too, þrátt fyrir allt.“ Samkvæmt skýrslu sem Hagstofan gaf út árið 2018 hafa karlmenn leikstýrt 90% allra íslenskra frásagnarmynda, sem er afgerandi hlutfall. Ljóst er að hindranir eru á vegi kvenna í kvikmyndaiðnaðinum, sér í lagi hvað varðar að fá styrki fyrir verk sín. Jóna Gréta skoðar þá hvort að orðræðan í fjölmiðlum geri kvenkyns leikstjórum enn erfiðara fyrir í samanburði við karlkyns leikstjóra. 

Niðurstöður - „Ísland er bara ein stór fjölskylda“

Rannsóknin sýndi ekki afgerandi mun á fjölda umfjallana eftir kyni, þar sem að 57% umfjöllunar voru um karlkyns leikstjóra og 43% umfjöllunar voru um kvikmyndir kvenkyns leikstjóra sem bendir til þess að karlar fái aðeins meira rými. Það eru fleiri karlar sem skrifa kvikmyndaumfjallanir, og karlkyns höfundar skrifuðu frekar um karla og konur skrifuðu frekar um konur. Það sem kom í ljós í rannsókninni á þessum átta íslensku kvikmyndum er að konur eru mun líklegri til þess að missa eignarrétt sinn yfir kvikmyndum, þar sem öðrum en kvenkyns leikstjóranum er eignuð vinnan eða myndin. Umfjöllun um einkalíf leikstjóra var meiri hjá kvenkyns leikstjórum, þar sem spurt var út í barneignir, hjúskaparstöðu eða annað sem tengist ekki kvikmyndinni sjálfri. Við því segir Jóna Gréta að það geti ekki verið að konur séu einungis að eignast börn og eiga merkilega maka.

Hún gagnrýnir hve umfjöllun um íslenskar kvikmyndir sé yfirgnæfandi jákvæð og  segir Ísland vera eina stóra fjölskyldu, þar sem neikvæð gagnrýni er litin hornauga. Margir hafa haldið því fram að það sé ekki rétt, en rannsókn Jónu Grétu bendir til annars. Af öllum þeim 124 umfjöllunum sem tóku afgerandi afstöðu til kvikmyndanna voru 94% jákvæðar, 3% óljósar og 3% neikvæðar. Aðeins voru 4 umsagnir neikvæðar. Þær fáu sem smeygðu sér í gegn og fengu neikvæða umfjöllun voru greinar skrifaðar af karlmönnum um konur. Að lokum segir Jóna Gréta að það væri áhugavert að gera stærri rannsókn á öllum íslenskum kvikmyndum í náinni framtíð.

Flokk till you drop - Berglind, Melkorka og Rebekka

IMG_2481.jpeg

„Vorum meðvitaðar um að vera ekki að skamma neinn, það er ekkert rétt eða rangt“

Þær Berglind Ósk Hlynsdóttir, Rebekka Ashley Egilsdóttir og Melkorka Magnúsdóttir stóðu fyrir verkefninu Flokk till you drop í sumar, sem var á vegum Rauða krossins, Textílmiðstöðvarinnar, Listaháskóla Íslands og Háskóla Íslands. Berglind Ósk er 25 ára og á þriðja ári í fatahönnun í Listaháskólanum, Rebekka er nýútskrifuð úr vöruhönnun frá sama skóla og Melkorka er nemandi í mannfræði við Háskóla Íslands. Þverfagleg og víð nálgun var tekin á verkefnið. Ég heyrði í þeim Berglindi og Rebekku og við spjölluðum um verkefnið þeirra.

Verkefnið gekk út á að flokka heilt tonn af fatnaði og textíl frá Rauða krossinum sem safnað var víðs vegar um landið. Niðurstöður úr flokkuninni varpa ljósi á fataneyslu Íslendinga. Til þess að verkefnið yrði aðgengilegra héldu þær úti Instagram síðu þar sem þær miðluðu upplýsingum til fólks. Þær sýndu mikið frá ferlinu og upplýstu fylgjendur um margar hliðar fataiðnaðarins. Verkefnið var ekki einungis fróðlegt og upplýsandi heldur einnig var skemmtilegt að fylgjast með hvaða flíkur urðu til úr textíl og efni sem hefði annars verið fleygt.

Hentugsemi H&M

Með verkefninu vildu þær fyrst og fremst fræða fólk, svo að það gæti tekið upplýstar ákvarðanir í tengslum við fatakaup. Þær nefndu sérstaklega að mikilvægt væri að skamma ekki fólk, þar sem ekkert væri rétt eða rangt, og reyndu að búa til góðan og öruggan vettvang til þess að miðla þekkingu. Þær segja fátt fólk vilja líta í eigin barm þegar um skömm er að ræða, þar sem það fari fljótt í vörn. Niðurstaða rannsóknarinnar sýndi fram á að fötin sem þær flokkuðu voru helst markaðsett fyrir konur, flest þeirra voru svört, flokkuðust undir hraðtískuföt og komu gjarnan frá þróunarlöndum þriðja heimsins. Þær sögðu niðurstöðurnar ekki hafa komið sér á óvart, þær væru frekar staðfesting á því sem þær héldu fyrir. Aðspurðar hvernig neysla og fatakaup hins dæmigerða Íslendings væru, segja þær það vera alls konar, en að þær taki eftir því að fólk sé að vakna til umhugsunar og sé smám saman að verða meðvitaðra. Þær segja þó að margir meðvitaðir einstaklingar freistast í hentisemina sem fylgir því að kaupa eina eða tvær flíkur í flýti í H&M. Með verkefninu vildu þær upplýsa fólk um ferlið á bak við hverja vöru, þar sem í hröðu og neyslumiklu samfélagi sjáum við oftast einungis lokaafurðina. Við hugsum ekki út í alla vinnuna sem fer í hverja vöru fyrir sig. 

IMG_3927.jpeg

 

Dúnúlpa verður að handtösku

Að flokkun lokinni og eftir greiningu tölfræðilegra upplýsinga tók við hönnunarferli. Farið var óvenjulega leið í hönnun á flíkunum, og efni og föt sem myndu teljast ónothæf var gefið nýtt líf. Þegar ég spyr þær hverjar hafi verið uppáhalds afurðir þeirra í þessu hönnunarferli segir Berglind að henni hafi þótt skemmtilegt að nota rúmteppi úr IKEA. Úr rúmteppinu gerði hún buxur, tvo toppa og eina tösku. „... þarna er stórt efni sem þú setur á rúmið þitt og svo getur þú bara verið í þessu.“ Rebekka nefnir mittistösku sem hún gerði úr hettu af regnjakka og rennilás af Nike úlpu. Einnig var gaman að sjá handtösku sem varð til úr ermum af dúnúlpu og kom áhugaverð áferð dúnsins fram í töskunni. Afurð verkefnisins var sett upp sem pop-up markaður á Garðatorgi, en þar gat fólk komið og haldið hæfilegri fjarlægð á meðan það skoðaði bæði flottar flíkur frá Rauða krossinum og fatnað sem var gefið nýtt líf af Berglindi, Rebekku og Melkorku.


MenningAuður Helgadóttir