Það sem Ísland hefur ekki lært af COVID-19

Þýðing: Eva Margit Wang Atladóttir

 

COVID-19 faraldurinn hefur verið í vexti um allan heim síðan í byrjun mars og viðist ekki vera á förum. Til að bregðast við þeirri alvarlegu stöðu sem upp var komin í samfélaginu lokaði Ísland, sem hluti af Schengen-samstarfinu, landamærum sínum fyrir öllum ferðamönnum frá löndum utan Evrópusambandssins og Schengen svæðisins. Á Íslandi áttu sér stað ein árangursríkustu viðbrögð heims við COVID-19 faraldrinum og í kjölfarið slapp landið sem betur fer við neyðarlokun, lögreglueftirlit að nóttu til og tíðar fregnir af andlátum ástvina. Eftir álagið sem fylgdi þessum dögum þar sem landamæri Íslands voru að hluta til lokuð, og þann árangur sem náðist við að fletja kúrvuna, var Ísland orðið að eins konar fjarstæðukenndum raunveruleika. Landi þar sem COVID-19 sást í sjónvarpinu en var ekki stór hluti af hversdagsleikanum, fyrir utan áminningar um fjarlægðartakmörk og einstaka sprittbrúsa hér og þar. 

En fyrir utan Ísland höfðu neyðarlokanir og meðfylgjandi takmarkanir á ferðafrelsi einkennt fyrri hluta árs og var þar talað um „stríðið gegn COVID-19“. Á meðan þessu stóð tilkynntu fréttamiðlar á borð við CNN að á Íslandi hefði faraldurinn aldrei náð almennilegri fótfestu. Nú eru Íslendingar hins vegar að kljást við þriðju bylgju heimsfaraldursins líkt og í þeim löndum þar sem losað var um hömlur fyrr í sumar. Hvað fór úrskeiðis? Hvað var það sem við lærðum ekki af fyrstu bylgju? 

 

1. Landamærin eru ekki eina hættan

 Lega landsins er náttúruleg hindrun sem hefur haldið Íslandi frá ýmsum hættum af meginlandi Evrópu ... en ekki COVID-19. Upphaf þriðju bylgju COVID-19 faraldursins á Íslandi sýnir okkur að, líkt og öðrum löndum, mistókst okkur að halda veirunni almennilega í skefjum. Íslendingar slökuðu örlítið á COVID-kvíðanum í sumar og urðu einnota hanskar sjaldséðari í verslunum og öll minning um fjarlægðartakmarkanir hvarf. Það var ekki fyrr en nýlega sem fólk fór að bera grímur fyrir vitum á götum og í almenningsrýmum en grímur hafa mikið verið notaðar erlendis í stríðinu gegn veirunni. 

Engir túristar virtust jafngilda engri smithættu í augum Íslendinga. En upp úr miðjum september varð mikil aukning á einstaklingum sem greindust með COVID-19, en ólíkt því sem átti sér stað í fyrstu bylgju faraldursins var stór hluti hinna smituðu ekki í sóttkví. Stærstur hluti nýrra smita frá og með 1. október var greindur í fólki á aldrinum 18-29 ára. 

 

2. „Þetta kemur ekki fyrir mig“ 

 Það var ekki að sjá á börum Reykjavíkur í sumar að COVID-19 hefði átt sér stað. Ólíkt öðrum þjóðum fengu Íslendingar nánast ótakmarkað ferðafrelsi og var sumarið draumi líkast samanborið við samkomubann vorsins. Engar fréttir bárust af greindum smitum í maí, júní og júlí sem fyllti Íslendinga af von fyrir haustið.

Allri varkárni varðandi nándartakmörk var kastað fyrir bý á börum og skemmtistöðum borgarinnar. Stemningin var líkt og ferðast hafi verið aftur til sumarsins 2019, snertingar og nánd í hverju horni. COVID-19 virtist ekki vera neitt annað en tölfræði í huga Íslendinga í sumar, smit voru fá og hugarfarið: „Þetta kemur ekki fyrir mig“ var einkennandi. 

 

3. Þetta reddast

 Tala látinna sökum COVID-19 á Íslandi er sem betur fer lægri en sést hefur annars staðar. Lág dánartíðni greindra smita hefur aftur á móti þau áhrif að upp til hópa virðist fólk hafa meiri áhyggjur af tekjumissi en því að sýkjast af veirunni. Vandamálin sem fylgja faraldrinum eru þó töluvert fleiri. Þar með talið er álag á heilbrigðiskerfið, þar sem þriðja bylgjan tekur sinn toll og jafnvel meiri en sú fyrsta sem við upplifðum í byrjun marsmánaðar. 

Hagmunaaðillar hafa beitt stjórnvöld þrýstingi að virkja hagkerfið jafnvel þótt það þýði að slaka þurfi á reglugerðum við landamærin... hugarfarið „þetta reddast allt saman” hefur verið ríkjandi. En fá andlát sökum fyrstu bylgju COVID-19 þýða ekki að við séum betur í stakk búin til að takast á við næstu bylgjur. Það þýðir bara að við höfum ekki enn misst tökin þegar kemur að baráttunni við faraldurinn. Alþingi mun taka umræður um fjárlagafrumvörp á næsta leiti og það verður áhugavert að sjá hvort hagkerfið verði talið mikilvægara en heilbrigðiskerfið.

Önnur vandamál hafa einnig dúkkað upp. Einstaklingar hafa átt í erfiðleikum með að halda utan um vinnu, foreldrahlutverk, nám og sambúð. Álag innan veggja heimilisins hefur haft í för með sér mikil áhrif og hafa tilkynningar um heimilisofbeldi færst í aukana ásamt því að fleiri leiti eftir sálfræðiþjónustu. Þótt að dánartíðnin sé lág er margt sem má betur fara í samlífi okkar með COVID-19.

4. Framtíðin

Svo virðist sem Íslendingar haldi að ríkisstjórnin sé ávallt fimm skrefum á undan þjóðinni, en er samfélagið að bregðast við og aðlagast á sama hraða? Ísland stóð sig vel í fyrstu umferð  langrar baráttu. Eftir að bakslag varð í þróun bóluefnis við Oxford háskóla er óvíst hvort að heimurinn verði laus undan faraldrinum á næsta ári; en margir virðast tengja vandamálið við árið 2020. Svo virðist sem allir séu að telja niður í 1. Janúar 2021, líkt og þá muni öllum þessum hörmungum ljúka. En er íslenska þjóðin tilbúin til að takast á við árið 2021 ef það verður ekki eins og við vonumst eftir?

covid.png
Annars eðlisDylan Herrera