Við óskum þér góðra jóla… og til hamingju með afmælið?
Þýðing: Karitas M. Bjarkadóttir
Hin árlega jólamanía er ekki allra. Jólaskrautið og jólatónlistin sem fylgir hverju fótmáli á þessum árstíma getur fyrir yfirþyrmandi, jafnvel fyrir þann sem kann ágætlega við hátíðarhöldin. Í allri hreinskilni sagt geta jólin verið frekar pirrandi ef þú ert ekki týpan sem dýrkar ljótar jólapeysur og væmið jólaskraut. En ímyndaðu þér nú eitthvað enn verra. Ímyndaðu þér, að þú eigir afmæli á jólunum. Undirrituð, sem unir sátt við sitt vorafmæli, gerir sér í hugarlund að það sé frekar pirrandi þegar fólk ruglar alltaf saman stóra deginum þínum við það að halda upp á jólin. Stúdentablaðið tók viðtal við Elísabetu Brynjarsdóttur, framúrskarandi ungan Íslending 2020, verkefnastýru Frú Ragnheiðar og fyrrum nemenda við Háskóla Íslands. Elísabet á afmæli 26. desember og fellur þar af leiðandi í þennan leiðinda-afmælisflokk sem blandast saman við jólin ár hvert. Viðtalið sem fer hér á eftir gefur okkur hinum innsýn inn í það hvernig hægt er að halda upp á jólaafmælin á betri máta, jafnvel þótt jólalögin ómi í bakgrunni.
Á hvaða hátt er mest pirrandi að eiga afmæli á jólunum?
Það pirraði mig meira þegar ég var yngri. Það gat enginn komið í afmælisveisluna mína. Ég man sérstaklega eftir einni veislu, það komu mjög fáir, að mig minnir bara fjölskyldan mín, og ég fílaði það ekki. Ég á ekki bara afmæli á jólunum, þegar enginn hefur tíma til að pæla í þér (já, dramatískt, en raunsætt), ég er líka miðjubarn. Ég held að þetta tvennt hafi haft mikil áhrif á það hver ég er í dag, manneskja sem þarf að vera í kastljósinu. En ég reyni að gera það á jákvæðan hátt!
Hvað er jákvætt við jólaafmælið þitt?
Foreldrar mínir voru ötul við það að reyna að láta mér líða sem allra einstakastri þegar ég var yngri, og ég þakka þeim fyrir það. Þau gerðu sitt allra besta, og það er þeim að þakka að jólaminningarnar mínar eru langflestar mjög jákvæðar. Afmælið hefur líka gert það að verkum að ég er mjög þakklát fyrir þennan árstíma, jólin eru jákvæðari á heildina litið. Það hefur hjálpað mér að átta mig á mikilvægi þess að eiga góðar stundir með fjölskyldunni. Ég gerði mér hins vegar grein fyrir því eftir því sem ég eltist að flestir gleyma afmælinu mínu, svo núna tek ég málin alltaf í mínar hendur. Ég þaul skipuleggja daginn, held fjölskyldubröns um morguninn og svo þemapartý um kvöldið. Fólk hefur kunnað að meta þau í gegnum árin, þau gefa þeim afsökun til að flýja erilsama jóladagskrána og djamma með mér. Algjört dæmi um beggja hag, fyrir athyglissjúku mig og stressuðu hina!
Hver er skoðun þín á jólatengdum afmælisgjöfum?
Það gerði mig algjörlega brjálaða þegar ég var yngri. Mér fannst ósanngjarnt að systkini mín fengju tvö sett af gjöfum á ári, á afmælinu þeirra og á jólunum, en ég bara eitt. Í dag gæti mér hins vegar ekki verið meira sama.
Hvernig myndir þú vilja að fólk veitti afmælinu þínu athygli? Hvað á og hvað á ekki að gera?
Ég er svona eiginlega komin yfir það tímabil að þurfa gjörsamlega alla athyglina og verða svo fyrir vonbrigðum þegar fólk gleymir tilvist minni á jólunum. Ég hef gert mér grein fyrir því að lífið snýst víst ekki allt um mig. Þannig að fyrir mig er það einfalt: haldið upp á þetta með mér á hvern þann hátt sem ykkur þykir passlegur og ég mun kunna að meta það! Það veitir mér ekkert meiri gleði en að finna fyrir allri góðu orkunni frá fólki og vita að það er að hugsa til mín. Það er allt sem þarf.
Er eitthvað annað sem þú vilt koma á framfæri?
Ég held ég hafi nú komist yfir allt. En mig langar samt að segja: Það eru allir að gera sitt besta. Jólin geta verið mjög erfiður tími fyrir marga. Ég vona að þið finnið einhvern tíma til að njóta þess sem þið njótið best, hvað sem öðrum finnst. Og já, vegna þess að ég fæddist á jólunum, þá er ég nútíma-Jesús. Það er bara þannig sem það virkar, takk!
Þakka þér, Elísabet. Það er ekki miklu við þetta að bæta. Ef þið eigið vini sem eiga afmæli á jólunum, reynið að finna einhverja leið til að halda upp á það með þeim. Eins og í öllum aðstæðum eru samskipti lykillinn. Ef þú ert ekki viss um hvað þú getur gert, spurðu bara! Það eru allar líkur á því að þau muni kunna að meta samkennd þína á stöðu þeirra. Eins og þetta litla viðtal sýnir svo sannarlega er smá húmor allra meina bót. Gleðileg jólmæli!