Tími troðfullu verslunarmiðstöðvanna

Þýðing: Hólmfríður María Bjarnardóttir

Mynd / Sædís Harpa Stefánsdóttir

Mynd / Sædís Harpa Stefánsdóttir

Jólin eru tími troðfullra verslunarmiðstöðva. En þau eru líka tími ljóss, unaðslegra lykta og tíminn til þess að tækla listann yfir þær gjafir sem þarf að kaupa í fyrrnefndum verslunarmiðstöðvum. En í ár þurfum við líka að taka COVID með í reikninginn, hvernig verða jólainnkaupin? Allir verða með grímur, það segir sig sjálft. En þrátt fyrir fjöldatakmarkanir og ógeðslegt, klístrað handspritt í sjálfvirkum skömmturum við inngang allra verslana, finnst fólki þessi innkaup enn óumflýjanleg. Þetta ár verður ekkert frábrugðið öðrum, að minnsta kosti held ég að fólk átti sig ekki á því hve mikilvægt það er að breyta neysluhegðun okkar til þess að hefta útbreiðslu veirunnar. Hvernig getum við spáð því hvernig jólin verða? Að fara í Kringluna til þess að kaupa sæta skyrtu eða jafnvel bara að fara í Bónus til þess að kaupa haframjólk verður innilokunarkennd martröð. Ég stefni að því að forðast þau óþægindi, en þá hef ég tvo möguleika. Möguleiki 1, versla á netinu - eini gallinn við það er póstþjónustan. Möguleiki 2 - sem er mun skárri - ekki versla neitt.

Ef þú þarfnast sannfæringar er nóg að horfa á heimildamyndina Minimalism: A Documentary About the Important Things, sem finna má á Netflix. Í henni kynnumst við hópi fólks sem hefur ákveðið að einfalda líf sitt og kunna að meta lífið án veraldlegra eigna. Ef þú beitir þessum hugsunarhætti á jólin lofa ég því að lífið verður ekki eins kvíðavaldandi (í það minnsta aðeins minna). Hvernig væri það ef við veldum upplifanir fram yfir gjafir? Leyfðu mér að útskýra. Það er öllum hollt að spyrja sig hvort við þurfum í alvöru það sem við erum að fara að kaupa. Spurningar á borð við „Hvernig gagnast þetta mér?“ geta hjálpað okkur að setja hlutina í samhengi. Hef ég sannfært þig? Sjáum hvað nútímalist hefur um málið að segja.

Song Dong. Waste Not, 2009. Innsetning í New York MOMA. Af Wikipedia

Song Dong. Waste Not, 2009. Innsetning í New York MOMA. Af Wikipedia

Song Dong er samtímalistamaður sem stendur á bak við verkið, Waste Not (2005) sem hér má sjá mynd af. Hann safnaði saman og sýnir nú á listasöfnum allar eigur sem móðir hans sankaði að sér. Song Dong spyr hversu stór okkar hrúga væri ef við þyrftum að geyma allt sem við höfum átt. Hversu langan tíma tæki að setja upp og taka niður innstillingu af okkar eigum? Svipaða hugmynd má finna í þáttunum The Big Bang Theory en í þætti 19 í seríu 9 komast áhorfendur að leyndarmáli Sheldons, einnar aðalpersónunnar. Hann leigir út geymslu þar sem hann geymir allt sem hann hefur nokkurn tímann átt. Þessi tregi okkar við að henda hlutum er einkenni þess brenglaða sambands sem samfélagið á við veraldlegar eigur og neysluhyggju.

Hvernig væri að gefa jólunum göfugri tilgang? Eitthvað sem er betra en gjafir? Að beita minimalísma gagnvart jólunum þýðir ekki að þú þurfir að hætta að kaupa gjafir. Lykillinn er að gera færri hlutum meira vægi. Kannski er kominn tími til þess að spyrja þig hvort þú gerir þér grein fyrir kolefnisfótsporinu þínu. Og kannski er þetta akkúrat besti tíminn til þess, nú á tíma troðfullra verslunarmiðstöðva.

Vandinn liggur í þessari blöndu: Desember, jólunum, kórónuveirunni og gjöfum. Að frátöldum matarinnkaupum sem ég tel ekki með þar sem sá troðningur er daglegt brauð en við honum er auðveld lausn: farðu snemma í búðina, dö! En svona í alvöru, gæti verið kominn tími til að endurhugsa lifnaðarhætti okkar? Það er enginn hrifinn af troðningi, svo gerðu mér greiða. Geymdu það aðeins að versla, hugsaðu málið og skipuleggðu frekar upplifanir. Nýttu þann pappír sem þú átt til heima, búðu til kistulista (e. Bucket list), kveiktu á Netflix, skoðaðu list. Nú eru jólin. Besta gjöfin er að njóta augnabliksins.