Meðbyr covid í frekara nám

Stúdentablaðið/Sædís Harpa Stefánsdóttir

Stúdentablaðið/Sædís Harpa Stefánsdóttir

Fyrir marga getur verið erfitt að stíga sín fyrstu skref í átt að námi. Skortur á sjálfstrausti, námsörðugleikar, heimilisaðstæður og svo mætti lengi telja. Hjá mér var það sjálfstraustið, ég trúði því lengi að ég væri slakur námsmaður. List- og verkgreinar voru mitt uppáhald en stærðfræðin var minn Akkilesarhæll. Þegar ég byrjaði í listnámi í menntaskóla fann ég fyrir félagslegu óöryggi og flosnaði fljótt upp úr námi. Eftir að hafa eignast frumburðinn minn árið 2012 fékk ég drifkraftinn og áhugann til þess að klára menntaskóla og útskrifaðist vorið 2017 af Textílbraut. Háskólanám hræddi mig og mér fannst áfangalýsingarnar rosalegar, ég hafði líka heyrt af fólki sem sat yfir námsbókunum nótt og dag til þess að komast yfir efnið. Ég beið því með að fara í frekara nám.

Það má segja að ég hafi upplifað tilvistarkreppu og vissi ekki hvert ég vildi stefna eftir útskrift, ég byrjaði að vinna í fataverslun því þar var tenging við textílnámið. Ég eignast tvíburana mína árið 2018 og fann þá fyrir sterkri löngun til þess að mennta mig og finna framtíðarstarf. Þar sem ég var komin með stóra fjölskyldu og meiri fjárhagslega ábyrgð vildi ég finna styttri leið út á vinnumarkaðinn og því urðu námskeið sem ég gat klárað í fæðingarorlofinu fyrir valinu. Til dæmis er ég með diplómu í förðun sem ég gerði reyndar ekkert við, því það er ákveðið hark að komast inn í bransann og ég hafði enn ekki byggt upp nægilegt sjálfstraust til að fara þá leiðina.

Eftir fæðingarorlofið braust svo út heimsfaraldur og fór ég aftur að skoða nám til að styrkja stöðu mína fyrir yfirvofandi flæði af atvinnuleitendum sem yrðu að berjast um störfin sem í boði yrðu. Það var nú eða aldrei, ég hafði unnið í sjálfstraustinu með hugrænni atferlismeðferð ásamt því að fullorðnast og læra betur á lífið. Ég hafði þó efasemdir um að fara í háskólanám þar sem mér fannst ég vera orðin svo gömul og komin með stóra fjölskyldu sem treysti á mig. Peningaáhyggjur og framtíðarsýnin um að komast ekki út á vinnumarkaðinn fyrr en korter í fertugt hræddu mig. Það sem var samt meira ógnvekjandi var að festast í einhverju leiðinlegu láglaunastarfi til frambúðar. Með stuðningi mannsins míns ákvað ég því að sækja um í Listaháskólanum í fatahönnun. Meðfram námi hafði ég unnið mikið í frístund og sá þann kost að geta bætt við mig kennsluréttindunum en eftir BA próf gæti ég tekið tvö ár í master og sameinað þar áhugamál og starfsvettvang sem ég kunni vel við. Mér var boðið í viðtal, fór á biðlista en komst svo ekki í gegn. Ég var búin að sjá fyrir mér haustið á skólabekk svo ég lét ekki deigan síga og tók skyndiákvörðun sem ég sé ekki eftir og sótti um Grunnskólakennarann með áherslu á list- og verkgreinar við HÍ.

Í haust var metaðsókn í háskólanám og töldu margir að Covid væri sökudólgurinn. Þegar ég ræddi við samnemendur mína komu misjafnar ástæður í ljós fyrir veru þeirra í kennaranáminu; sumir voru að breyta um námsleið, aðrir að koma beint úr framhaldsskóla, einhverjir að byrja aftur eftir pásu og nokkrir eins og ég að nýta sér þessa stöðnun á vinnumarkaði vegna Covid og bæta við sig þekkingu. Ég hélt að hlutfallið væri hærra en samkvæmt könnun sem ég gerði á nýnemasíðu háskólans og nýnemasíðu kennaradeildarinnar voru einungis 46 af 388 sem sögðu að Covid hefði eitthvað með ákvörðun þeirra að gera.

Við erum mörg, ólík og á ýmsum aldri í háskólanum með ófáar ástæður fyrir veru okkar þar. Ég vil því segja við þig lesandi góður að það er aldrei of seint að gera það sem þig langar til og hindranir eru aldrei svo stórar að ekki sé hægt að yfirstíga þær. Ef eitthvað gengur ekki upp finndu þá aðra leið að markmiði þínu. Þar sem Covid var áhrifaþáttur í minni ákvörðun langar mig að enda á þessum fleygu orðum „Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott“.