Það þarf ekki allt að vera dauði og djöfull: Sjö atriði sem COVID-19 bætti!

Translation: Stefán Ingvar Vigfússon


Því verður ekki neitað að kórónaveiran sneri öllu á hvolf, hún er alvarlegt mál sem hrjáir allan heiminn. Það er samt nauðsynlegt að geta slakað á og horfa bjartsýn til framtíðar. Það eru ljóstírur hér og hvar í myrkrinu. Í þessari grein skoðum við sjö atriði sem COVID hefur bætt, þótt ótrúlegt sé.

zoommeeting.jpeg


1. Frá upphafi faraldursins hefur fólk hugað betur að sér, tekið hreinlæti fastari tökum með tíðum handþvotti og sprittnotkun. Fólk er orðið meðvitaðra um gildi þess að þrífa yfirborð eigna sinna, fötin sín og mikilvægi góðrar heilsu.


2. COVID-19 hvatti fólk einnig til þess að heyra í vinum sínum og vandamönnum. Á erfiðum tímum skiptir fólkið sem við elskum mestu máli og faraldurinn minnti okkur á að hafa samband við þau sem við höfum ekki talað lengi við. Það má segja að faraldurinn hafi hvatt okkur til þess að vera betri hvert við annað og hugsa meira um annað fólk.

 

3. Máttur internetsins. Faraldurinn leiddi í ljós hve mikið sé hægt að gera í gegnum internetið og krefst þar af leiðandi ekki að fólk mæti í eigin persónu, en það eykur aðgengi fólks að fjölda starfa. Það verður áhugavert að sjá hvort þetta fyrirkomulag haldist þegar faraldurinn er fyrir bí.

 

4. Minni mengun. Samkvæmt tímaritinu Science of the Total Environment urðu allsherjarlokanir í Kína, Ítalíu, Spáni og Bandaríkjunum til þess að mengun dróst saman um 30%. Flugferðum fækkaði einnig um 96%, sem er mesta lækkun í 75 ár. Hráolíuverð á heimsvísu lækkaði einnig vegna þess að akstur minnkaði í faraldrinum. Fólk fór að skoða landsbyggðina og náttúruna, frekar en að rúnta um bæinn endalaust. Húrra!


5. Faraldurinn neyddi fólk til þess að stoppa. Fólk hægði á sér í kjölfar skertrar vinnu, því gafst tími til að huga að tilfinningum sínum og læra að vera þakklátt fyrir litlu hlutina, eins og að rekast á fyndið kattamyndband á netinu. COVID-19 breytti áherslum okkar og fékk okkur til að hugsa betur um okkur, jafnt líkamlega sem andlega. Sjálfsást er loksins orðin nauðsynleg fyrir allt fólk.


6. Vegna faraldursins gafst loksins tími til þess að prófa þetta áhugamál sem þú hafðir aldrei tíma fyrir. Þar sem fólk var meira eða minna heima hjá sér prófaði það ný áhugamál, eða ræktaði gömul áhugamál sem þau gáfu sér aldrei tíma í. Súrdeigsbakstur varð mjög vinsæll, en fólk skrifaði færslur á Facebook um hversu stolt það var af deiginu sínu eftir að hafa látið það hefast næturlangt. 


7. Faraldurinn hvatti okkur til þess að sjá húmorinn í lífinu og undirstrikaði mikilvægi samvistar við annað fólk. Það er eitthvað einstakt við vefspjöll. Þú færð að hitta vini þína án þess að fara út úr húsi, og fara í tíma á náttfötunum! Oft eiga sér stað kostuleg mistök, fyndin gæludýr sem heimta athygli, börn á vappi eða kennarar sem reyna að reyna klóra sig út úr þessari nýju tækni. Þetta er nútímavæddur samskiptamáti sem getur oft verið stórskemmtilegur!