Huggulegri stúdentaíbúð í samkomubanni: kósý og praktísk ráð

Teikningar: Auður Helgadóttir

Það er vandasamt að koma sér fyrir í litlu rými, eins og t.d. í stúdíóíbúðum Stúdentagarða. Nú eru skrítnir tímar og samfélagslegar aðstæður gera það að verkum að við eyðum mun meiri tíma heima hjá okkur en vanalega. Þá getur verið gott fyrir fólk sem býr í lítilli íbúð að vera útsjónasamt og nýta rýmið sem best. Hvað er hægt að gera við þetta litla útskot? Af hverju er geymslan svona óþarflega stór og hvernig get ég nýtt hana? Hvernig er best að nýta íbúðina í að að sofa, elda, læra, horfa á þætti, prjóna og gera heimaæfingar, allt á sama stað? Hvernig er hægt að gera íbúðina notalegri? Lausnin þarf ekki endilega að vera dýr og óþarfi er að rjúka í IKEA til að kaupa allt sem vantar. Það er frábært að kíkja í Góða hirðinn eða aðra markaði sem selja notaða hluti og kaupa ódýra og nytsamlega hluti fyrir íbúðina - svo þarf líka oft ekki að kaupa neitt, bara að breyta til og lagfæra! Hér koma góð ráð og hugmyndir um hvernig þú getur gert lítið rými að betri íverustað. 


Kósý ráð fyrir skammdegið

  • Plöntur - Kannski ertu með græna fingur og nærð af einhverri ástæðu að halda plöntum á lífi, skoðar vel hvernig eigi að hugsa um hverja plöntutegund fyrir sig eða kannski drepurðu allar plöntur sem þú snertir. Sama hvað, það sakar ekki að kaupa sér eina eða tvær plöntur. Það bætir bæði súrefnisflæðið og svo er notalegt að hafa sætar plöntur inni hjá sér.

  • Kerti Þegar svart skammdegið tekur yfir og það kólnar í veðri gefa kertaljós sérstaklega góða stemningu. Þess vegna getur verið gott að eiga kertastjaka sem hægt er að draga fram og kveikja á nokkrum kertum. Ilmkerti eru líka næs og geta verið falleg ásýndar sem skraut uppi á hillu.

  • Ljósaseríur - Hvað er betra en kertaljós í skammdeginu? Seríur með hvítum ljósum lýsa upp rýmið með annarri birtu en loftljósin og gera rýmið huggulegra. Að setja seríu út í gluggakistu, á hilluna, við rúmstokkinn eða á listana sem notaðir eru til að hengja upp myndir gefur aðra og notalegri birtu.

  • Lampar - Þeir taka ekki mikið pláss, en gefa oft frá sér þægilegri birtu en loftljósin. Þið eruð kannski farin að sjá mynstur í þessari grein, þar sem ekki er talað um neitt annað en þægilegt birtustig og kósýheit. Kannski eruð þið meira fyrir kaldari birtu, og það er líka í lagi. Þið gerið það sem viljið, það sem ykkur finnst best!

  • Vekjaraklukka með ljósi - Það er erfitt að vakna á morgnanna þegar skammdegi vetrarins gerir vart við sig. Klukka sem lýsir upp íbúðina smátt og smátt hjálpar manni að aðlagast birtunni, og fyrir vikið verður bærilegra að vakna snemma.  

  • Mottur - Þegar þú vaknar á köldum vetrarmorgni og þarft að stíga fram úr rúminu er gott að vera með mjúka mottu sem tekur á móti þér. Mottur eru ekki bara góðar fyrir fæturna í kuldanum heldur geta þær hjálpað við að afmarka rými, t.d. með því að hafa mottu undir sófanum, við eldhúsið og rúmið.


Praktísk og góð ráð fyrir íbúðina þína

Það getur verið hvimleitt að búa á Stúdentagörðum, þar sem takmarkað má gera við rýmið sem maður hefur. Fáir hlutir komast fyrir, það getur verið erfitt að hengja upp myndir (það má þó nota listana), og ekki má mála eða stílfæra rýmið að vild. Stúdentagarðar eru oftast ekki langtíma kostur, en í þann tíma sem fólk er þar er gott að koma sér ágætlega fyrir. Hér verða talin upp nokkur praktísk ráð sem gera íbúðina auðveldari í notkun.

  • Fiskikrókar og þunnt snæri - Þið hugsið kannski: hvað á ég að gera með fiskikróka og fiskisnæri í íbúðinni? Krókana og snærið má nefnilega nota til þess að hengja upp myndir. Ekki má negla í veggina, svo þá þarf að grípa til annarra ráða. Fiskikróka þarf að kaupa í veiðibúð, en snærið má kaupa í næstu byggingarvöruverslun. Þú festir snærið við myndina og fiskikrókinn, svo kemur þú króknum fyrir á listanum. Þannig er hægt að leika sér að því að skreyta íbúðina með fallegum myndum.

  • Stækkanlegt borð - Það er hentugt að eiga borð sem hægt er að stækka. Borðið tekur lítið pláss þegar þú situr og drekkur morgunkaffið og borðar hafragrautinn. Á tímum sem þessum er ekki ráðlegt að halda stór matarboð, þó svo að það komi að því einhvern tímann. En kannski viltu meira borðpláss til þess að baka brauðbollur, eða súrdeigsbrauð og þá er gott að geta dregið borðið í sundur og sett það saman, og voilà! Stærra borð í hvelli, þegar þú þarft á því að halda.

  • Speglar stækka rými - Fallegir speglar í allskonar lögun eru góðir til þess að stækka lítil rými.

  • Rúmfatahirslur - Sniðugt er að nýta plássið sem er undir rúminu. Þar má t.d. geyma sængur, lök og kodda. Til þess að sængurfötin fyllist ekki af ryki og skít sem safnast gjarnan fljótt undir rúmi, er sniðugt að setja þau í rúmfatahirslur og skella þeim svo undir rúmið.

  • Snagar á hurð - Sniðugt ráð við því að koma fyrir snögum, án þess að bora í veggi eða negla niður, eru snagar sem má setja efst á hurðir. Snagana má alltaf færa til á milli hurða og breyta ef fólk vill.