Gömul og góð íslensk orðtök
Ef til vill hafa einhver ykkar upplifað það að hlusta á hljómsveitina Sálina hans Jóns míns eða Stuðmenn og fundist þið hverfa inn í textann og tónlistina. Farið svo að raula lagið í tíma og ótíma. Skyndilega verður ykkur ljóst að ákveðið orðtak kemur fyrir í textanum sem hefur merkingu sem liggur ekki endilega í augum uppi við fyrstu sýn. Þannig syngur Stefán Hilmarsson „ég veit ei lengur hvað má stóla á, ég treysti þér sem nýju neti…“ eða þegar Stuðmenn syngja „stöndum þétt saman, snúum bökum saman…“
Hér má finna orðtök í textanum en íslenska tungan býr yfir mikið af skemmtilegum orðtökum sem auðga málið. Orðtök þessi voru eitt sinn algeng í talmáli en hafa hopað fyrir litlausara máli eða erlendum slettum.
Hér verða kynnt nokkur orðtök, þýðing þeirra og uppruni. Ég hvet ykkur til að nota einhver þeirra til gamans og til að auðga fallega málið okkar.
Taka á beinið
Að vera skammaður
Í Menntaskólanum á Akureyri var það venja, um 1930, að skólameistarinn kallaði til sín á skrifstofuna nemendur sem höfðu ekki hagað sér sem skildi. Allir vissu að nú myndu þeir fá tiltal. Inni á skrifstofu skólameistarans var hvalbein (hryggjarliður úr steypireyði) sem var notað sem sæti fyrir þann nemanda sem ræða átti við. Þetta varð til þess að farið var að tala um „að vera tekin á beinið“ þegar skólameistari ávítaði einhvern. Hefur þetta orðtak haldist í málinu.
„Ég var tekinn á beinið fyrir að hafa mætt of seint í vinnuna.“
Vilja upp á dekk
Skipta sér af, koma sínu á framfæri
Dekk (einnig þekkt sem þilfar) er gólf sem liggur yfir skipsskrokknum, að hluta til eða öllum, og á að verja áhöfn og farm fyrir veðri og vindum. Dekkið er einnig aðalvinnusvæði skipsins. Sá sem er upp á dekki er að vinna hörðum höndum og þeir sem eru að þvælast á dekkinu eru einfaldlega fyrir og ættu því ekki að vera þarna.
„Hvað ert þú að vilja upp á dekk?! Það er ég sem er að keyra bílinn.“
Treysta (trúa) einhverju sem nýju neti
Treysta einhverjum eða einhverju fullkomlega
Í dag nota sjómenn aðkeypt nælonnet en áður fyrr þurftu sjómenn að riða (þ.e. búa til) net sín sjálfir heima hjá sér og voru þessi net oft ekki úr góðu efni og slitnuðu því fljótt. Nýjustu netin voru þau sem sjómennirnir gátu stólað mest á.
„Ég treysti því sem nýju neti að þú myndir mæta tímanlega, og síðan kemurðu klukkutíma of seint!“
Hafa asklok fyrir himinn
Vera þröngsýnn, vera hugsjónasnauður
Askur er kringlótt matarílát úr tré sem er með lok. Askurinn fór að tíðkast á Íslandi eftir miðaldir og var venjan sú að hver einstaklingur á heimilinu ætti sinn eigin ask. Mat var síðan skammtað í askinn hvert kvöld.
„Agnes neitar að íhuga annað sjónarhorn en hennar eigið, sú hefur asklok fyrir himinn.“
Fara á fjörurnar við einhvern
Reyna við einhvern, daðra
Hið mikla haf á það til að skola allskonar hlutum upp á land, og fóru því menn á fjörur til að gá hvort sjórinn hafi skolað einhverju heppilegu upp á land.
„Róbert fór á fjörurnar við Rósu þrátt fyrir að kærastinn hennar sæti hinum megin í herberginu.“
Þreyja þorrann og góuna
Að bíða lengi
Í norræna tímatalinu var árinu skipt í sex sumarmánuði og sex vetrarmánuði. Þorrinn hefst á 13. viku vetrar, eða um miðjan janúar og góu lýkur á mánudegi í 22. viku vetrar, eða um miðjan mars. Eins og við ættum flest að vita er á þessum tíma árs oftar en ekki vonskuveður, kalt og dimmt. Fólk beið þá jafnt sem nú eftir betri og bjartari dögum vorsins.
„Ég er hrædd um að við þurfum að þreyja þorrann og góuna eftir næsta partýi út af þessu COVID ástandi.“
Setja einhverjum brodd á barka
Neyða einhvern til að þegja
Orðtak þetta á sér uppruna í bardögum, þar sem mönnum er hótað lífláti ef þeir tala. Orðið broddur í þessu samhengi merkir oddur á eggvopni (t.d. á spjóti eða sverði).
„Með einu augnaráði setti hún brodd á barka eiginmanns síns.“
Kasta hnútum í einhvern
Svívirða einhvern
Veislur til forna enduðu stundum með svokölluðu hnútukasti, þar sem gestirnir köstuðu beinum í hvorn annan, en hnúta er annað orð fyrir bein. Vægast sagt hefur það ekki verið þægilegt.
„Hún var mjög reið út í manninn og kastaði hnútum í hann við hvert tækifæri sem hún fékk.“
Hafa ekki roð við einhverjum
Jafnast engan veginn á við einhvern
Hundar fengu oft roð til að bítast á um og sterkari hundurinn náði þá roðinu, því hinn hafði ekki roð við honum.
„Jónas er ágætis málari en hann hefur ekki roð við Botticelli.“
Standa ekki úr hnefa
Það að vera smávaxinn
Um eitthvað sem er ekki stærra en lófabreidd er sagt að það standi ekki úr hnefa þegar gripið er um það. Þetta orðtak er notað um börn eða smávaxna menn. Í því felast ýkjur.
„Ég er bara 1.55 cm á hæð og stend því ekki úr hnefa miðað við hina í fjölskyldunni.“
Hvar keypti Davíð ölið
Láta einhvern kenna á því
Ekki er vitað nákvæmlega hver upptök orðtaksins eru. Þó er vitað að Íslendingar tóku þetta orðtak frá Dönum og það kemur upprunalega frá Þýskalandi. Hægt er að nota frasann á þrjár vegu: með sögnunum sýna, vita og komast að.
„Ég læt þig vita hvar Davíð keypti ölið ef þú svíkur mig í þetta skipti.“
Ríða á vaðið
Eiga frumkvæðið að einhverju, vera fyrstur til einhvers
Komið frá því að besti reiðmaðurinn fór fyrst yfir ána til að athuga hvort það væri öruggt.
„Ég ætla að ríða á vaðið og tala við manninn.“
[Stuðst var við bókina Íslensk Orðtök eftir Sölva Sveinsson við gerð þessarar greinar. Fyrir orðtakið „taka á beinið“ var stuðst við upplýsingar frá bókasafnsverðinum Brynhildi í Menntaskólanum á Akureyri. Fyrir orðtakið „hvar keypti Davíð ölið“ var stuðst við grein Guðrúnar Kvaran á vísindavefnum.]