Breytt landslag tónlistar

Það er óþarfi að nefna áhrif COVID-19 á heimsbyggðina. Við upplifum það á eigin skinni alla daga. Samfélagsvenjur hafa breyst á róttækan máta, á skömmum tíma og á ófyrirséðan hátt. Fréttir um vaxandi atvinnuleysi og upphrópanir um aðgerðarleysi stjórnvalda gagnvart einstökum atvinnugreinum hafa verið áberandi í deiglunni. Menningargeirinn er einn þeirra sem hefur hlotið afhroð í faraldrinum. Menningarstofnanir keppast nú við að gera starfsemi sína aðgengilega og fjarvæna, á meðan enga gesti er hægt að fá í hús. Tónlistarfólk hefur verið duglegt við að benda á aðgerðarleysi stjórnvalda í málaflokknum. Til að mynda var stofnað hagsmunafélag sjálfstæðs tónlistarfólks sem viðbragð við ástandinu: Félag sjálfstætt starfandi tónlistarmanna (FSST). Stofnendur FSST eru margir landsþekkt tónlistarfólk, t.a.m. Bubbi Morthens, Selma Björnsdóttir og GDRN. Það er mikilvægt að fólk í svo viðkvæmri atvinnugrein hafi hátt um kjör sín.

Hins vegar er vert að staldra við og skoða hverjir það eru innan geirans sem berjast fyrir bættu ástandi. Margt fólk skapar og flytur tónlist án þess að reiða sig á það sem aðaltekjulind. Áhrif faraldursins á fólk í þeirri stöðu eru aðallega missir á tækifærum til þess að koma sér á framfæri, sem í kjölfarið kemur í veg fyrir að ungt tónlistarfólk geti seinna meir reitt sig á tónlist til viðurværis. Með því markmiði að skoða þetta sjónarhorn ræddi ég við tónlistarkonurnar í Gróu, Kristínu Sesselju og gugusar. Við töluðum um hvernig ástandið hefur áhrif á starf þeirra, mikilvægi tónleika og sýnileika tónlistarfólks í þessu ástandi.  


Aðsend

Aðsend

Tónlistarkonurnar eru allar á sama máli hvað tónleika varðar. Þeir eru bæði mikilvægasta tekjulindin og helsta leiðin til þess að koma sér á framfæri. „Að spila á tónleikum hefur alltaf verið mjög stór partur af okkar hljómsveit og algjörlega okkar leið til að koma okkur á framfæri. Þannig getum við algerlega ráðið á hvaða máta og hvernig við viljum að upplifunin af tónlistinni okkar sé,“ fékk ég í svari frá hljómsveitinni Gróu. Gróa hefur vakið mikla athygli fyrir tónlist sína og almenna spilagleði. Spurðar út í hvernig þeim litist á framtíð án tónleikahalds svara þær „Það gæti alveg verið áhugavert en það myndi sökka svo mikið! Því það er svo gaman að fara á tónleika. Það er best að fara á góða live-tónleika og dansa af sér rassinn. Og að spila fyrir fólk að dansa er líka best í heiminum. Það er svo allt öðruvísi að spila tónleika á netinu til dæmis, vegna þess að þeir tónleikar eru oft aðgengilegir að eilífu sem er skrítið að hugsa um, og það hamlar tilraunamennsku að einhverju leiti.“



Aðsend

Aðsend

Ástandið stöðvar auðvitað ekki bara tækifæri heima fyrir heldur líka erlendis. Kristín Sesselja gaf út sína fyrstu stuttskífu aðeins 17 ára gömul og er nú komin á samning við dreifingarfyrirtækið AWAL sem staðsett er í Svíþjóð. Áform um að koma fram á Norðurlöndunum og að taka upp tónlistarmyndband í Svíþjóð þutu því út um gluggann. Kristín segir að þetta geri henni hins vegar kleift að einbeita sér frekar að íslenskum markaði. Viðbrögð Kristínar og samstarfsmanns hennar, Baldvins Snæs, við þessum takmörkunum eru af stóísku meiði „Allt þetta hvetur okkur að horfa inn á við og hægja á okkur.“ Kristín segir þau Baldvin nota tímann til þess að læra og þróa verkefnið áfram.  





Aðsend/Gunnlöð Jóna

Aðsend/Gunnlöð Jóna

Vinsældir Guðlaugar Sóleyjar, sem er betur þekkt sem gugusar, hafa vaxið hratt á síðastliðnum vikum. Fyrir ári síðan var hún að spila á félagsmiðstöðvarböllum en kom fram fyrir nokkru í Vikunni með Gísla Marteini. Stutt er síðan Guðlaug byrjaði að afla tekna fyrir tónlist sína en hún leggur mikið vægi í tónleika, líkt og framangreindar tónlistarkonur. Hún hefur þurft að fresta útgáfutónleikum sínum tvisvar auk þess að missa af tækifærum sem felast í því að koma fram á tónleikahátíðunum Innipúkanum og Airwaves. Hún segist nýta tímann í stúdíóinu sínu í að semja á meðan ekki er hægt að gera neitt annað. „Ég hef einbeitt mér meira að nota samfélagsmiðla, reyni að vera virk á þeim og reyni að fá fólk til þess að ekki gleyma mér,“ segir hún. En það er örugglega áskorun sem tónlistarmenn glíma margir við: að gleymast ekki í flæmi og fjölbreytileika tónlistaratriða.




Tónlistarkonurnar eiga það allar sameiginlegt að vera í erfiðri stöðu. Þær eru allar komnar á veg með ferilinn sinn. Hins vegar eru þær í því ástandi að hafa ekki notið tækifæranna sem gerir þeim kleift að lifa á listinni. Á meðan óvíst er hvenær faraldrinum ljúki kviknar upp spurningin hvort að samfélagsmiðlar og stöðug viðvera tónlistarfólks á netinu sé það sem koma skal. Það er erfitt að ímynda sér heim án tónleika. Hins vegar hefur stofutónleikar fjölgað, bæði hér og erlendis. Augljóst er að það eru fleiri aðilar í tónlistariðnaðinum sem hafa hagsmuna að gæta í faraldrinum heldur en þeir sem framfleyta sér á tónlistinni einni saman. Það er mikilvægt að þessar raddir heyrist, samhliða háværari röddunum, til þess að hægt sé að mynda stefnumótun sem hagnast öllu tónlistarfólki. Ekki bara því frægasta.