Bjargráð fyrir nemendur á tímum samkomutakmarkana og fjarkennslu: Sjö tillögur til þess létta lífið! (Vonandi)
Þýðing: Stefán Ingvar Vigfússon
Kórónaveiran hefur breytt heiminum að nánast öllu leyti og er háskólasamfélagið og líf stúdenta engin undantekning. Jafnvel upp á sitt besta getur líf stúdenta verið erfitt, en það er sérstaklega erfitt þessa dagana. Til þess að létta ykkur lífið viljum við deila með ykkur nokkrum heilræðum sem hafa gagnast okkur og hjálpað við að takast á við þetta óvissuástand!
Gerðu stundarskrá og stattu við hana!
Vaknaðu á sama tíma á hverjum degi. Það getur verið freistandi að sofa út og vaka lengur en þú sást fyrir þér. Stilltu vekjaraklukku, vaknaðu og undirbúðu þig fyrir daginn. Að halda stundarskrá, eða bara að búa til tékklista, getur verið góður hvati!
2. Haltu heimilinu hreinu!
Hafðu snyrtilegt í kringum þig, og ef þú deilir rými með öðru fólki skuluð þið vinna saman að því að halda sameiginlegum rýmum eins og eldhúsi og stofu hreinum. Hreint skrifborð (og eldhús/stofa/svefnherbergi) stuðlar að innri frið. Þú getur líka skipt íbúðinni upp í mismunandi svæði og reynt að vera ekki í svefnherberginu allan liðlangan daginn, þótt að kennsla fari fram á netinu. Það getur brotið daginn upp að vinna í einu rými, sofa í öðru og borða í enn öðru.
3. Borðaðu máltíðir reglulega
Þegar við sitjum föst heima meirihluta dagsins getur verið freistandi að snarla og gleyma alvöru máltíðum. Stundum er „snarldagur“ akkúrat það sem þú þarft, en að skipuleggja alvöru máltíðir á matmálstímum getur hjálpað til við að koma reglu á daginn, auk þess getur verið mjög skemmtilegt að elda!
4. Klæddu þig fyrir tíma
Það getur verið freistandi að vera í náttfötum í fjarkennslu þar sem þú getur slökkt á myndavélinni þinni, en það eitt að klæða sig á morgnanna getur látið þér líða eins þú hafir afrekað meiru og það hjálpar þér af stað.
5. Ræktaðu áhugamál
Það getur verið að lýjandi að læra og því er afar mikilvægt að gera eitthvað sem þú hefur gaman af til þess að slaka á. Það er margt skemmtilegt hægt að gera heima hjá sér, til dæmis að elda, hreyfa sig, njóta góðrar listar, bókar eða tölvuleikja. Auk þess ætti allt fólk með nettengingu að geta fundið eitthvað nýtt til að prófa. Það eru ýmsir viðburðir á netinu opnir almenningi, sem oft kostar ekkert að sækja. Þá er yfirleitt hægt að finna á samfélagsmiðlum.
6. Haltu þig í tengingu
Samkomubannið er einmanalegt og fjarkennsla getur verið krefjandi, en það eru ótal leiðir til þess að halda sambandi við fólk. Þú getur haft samband í gegnum netið, ýmist með myndbandsspjalli eða símtölum. Ef þú hefur fengið nóg af myndbandsspjöllum getur verið gaman að senda póstkort eða bréf til vina sinna.
7. Sýndu þér mýkt
Það hefur enginn haldið því fram að þetta væri auðvelt og það er bæði sjálfsagt og eðlilegt að taka sér frídaga. Það sem skiptir mestu máli er að vera ekki á svipunni þegar þér finnst þú ekki afreka eins mikið og þú hefðir viljað. Ástandið er streituvaldandi og það er ósanngjörn krafa að við séum stöðugt afkastamikil. Ef þú átt erfiðan dag, eða erfiða daga, þar sem þú kemur þér illa að verki eða getur ekki verið besta útgáfan af þér skaltu reyna aftur á morgun. Þú getur alltaf talað til við einhvern og er því engin ástæða til þess að bera harm sinn í hljóði. (Við hvetjum ykkur til þess að senda tölvupóst á salfraedingar@hi.is í leit að heilræðum og aðstoð.)