Vill sjá hinseginfræðslu á háskólastigi
Þorbjörg Þorvaldsdóttir er nýr formaður Samtakanna 78 en hún er jafnframt doktorsnemi í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands. Þorbjörg er gift Silju Leifsdóttur og saman eiga þær þriggja ára dóttur. Þorbjörg hefur með kjöri sínu brotið blað í sögunni en hún er fyrsti tvíkynhneigði formaður Samtakanna 78. Lengst af voru Samtökin 78 félag homma og lesbía á Íslandi en þau hafa síðar stækkað og eru í dag félag hinsegin fólks á Íslandi. Hafa því bæst undir regnhlífina hópar eins og trans fólk, eikynhneigðir, intersex fólk og tvíkynhneigðir.
Samtökin 78 - félag hinsegin fólks á Íslandi
Samtökin 78 eru málsvari hinsegin fólks á Íslandi og standa þau í ströngu þessa dagana í baráttunni fyrir lagalegum réttindum hinsegin fólks. Fyrir Alþingi liggja nú tvö frumvörp sem snerta á réttindum hinsegin fólks. Annars vegar stendur til að stórauka réttindi hinsegin fólks, helst trans og intersex fólks, með frumvarpi um kynrænt sjálfræði. Hins vegar liggur fyrir Alþingi frumvarp þar sem þrengd er skilgreining á hatursorðræðu. Þorbjörg segir að það sé hlutverk formanns Samtakanna 78 að vera talsmaður hinsegin fólks á Íslandi, beint og óbeint.
„Það skiptir ótrúlega miklu máli að reyna að vera fulltrúi allra, þó ég hafi að sjálfsögðu betri innsýn í líf sumra hópa en annarra. Við erum ótrúlega mörg og fjölbreytt. Mér finnst saga samtakanna sýna að við erum sterkust þegar við erum sameinuð. Við eigum að vinna saman að sameiginlegu markmiði um að skapa fordómalaust samfélag.“
Þorbjörg segir að fólk geri sér oft og tíðum ekki grein fyrir því hve viðamikil starfsemi Samtakanna 78 er. „Við erum samtök hinsegin fólks, við sinnum fræðslu, ráðgjöf, hagsmunabaráttu, við erum með félagsmiðstöð fyrir hinsegin ungmenni, við erum félagsheimili fyrir hinsegin fólk, við hjálpum þegar hinsegin flóttafólk kemur til landsins og veitum þeim stuðning, svo er skrifstofa opin á daginn í húsnæðinu. Það er í raun algjörlega magnað hve mikið er gert.“
Þjónusta við hinsegin fólk án fordóma
„Varlega áætlað fóru fram 500 ráðgjafarviðtöl á síðasta ári,“ segir Þorbjörg, og útskýrir síðan betur hvað felist í ráðgjöfinni. „Það fer eftir einstaklingnum hvað fer fram í viðtölunum. Sumt fólk þarf stuðning þegar það er að koma út úr skápnum. Sumt fólk er að glíma við vandamál sem tengjast því ékki beint að vera hinsegin. Ráðgjöfin er gjaldfrjáls en það er tryggt í gegnum samstarfssamninga við hið opinbera, ríki og sveitarfélög.
Við fáum fjárframlag og skuldbindum okkur á móti, með glöðu geði, til að veita fólki gjaldfrjálsa ráðgjöf frá ráðgjöfum sem hafa mjög góða þekkingu á hinsegin málefnum. Hinsegin fólk getur ekki gengið að því að vísu að vera mætt af fordómaleysi þegar þau þurfa að leita til fagstétta. Þetta er því öruggt rými fyrir fólk að leita sér aðstoðar. Það þarf alls ekki að vera að fólk innan hinna ýmsu fagstétta sé meðvitað um hinsegin málefni. Þess vegna er mikilvægt að hinseginfræðsla sé hluti af háskólanámi í hinum ýmsu deildum.“
Þorbjörg útskýrir betur af hverju þörf sé á því að hinseginfræðsla sé hluti af námi ýmissa stétta. „Það skiptir svo miklu máli að kerfið muni taka á móti okkur eins og við erum, og með virðingu. Að það sé ekki þannig að hinseginleikinn sé gerður að grunni allra vandamála. Það á ekki að vera háð hverjum maður lendir á hvort maður mætir fordómalausu viðhorfi eða ekki.“
„Mér finnst mikilvægt að hinsegin málefni rati inn í allar deildir. Það að þekkja fjölbreytileika mannlífsins er bara hluti af því að vera manneskja og hlýtur að eiga að vera hluti af háskólanámi. Þú getur verið opnasta manneskja í heiminum en samt fáfróð og borið með þér ómeðvitaða fordóma. Þessi fræðsla mun líka gera fagfólki kleift að vera öruggara í starfinu sínu. Síðan um leið og það er meiri þekking á hinsegin málefnum mun hinsegin fólk verða fyrir minna öráreiti í sínu daglega lífi.
Þrengd skilgreining á hatursorðræðu
Þorbjörg hefur undanfarið, bæði á samfélagsmiðlum og í viðtölum, talað harðlega á móti frumvarpi fyrrverandi dómsmálaráðherra, Sigríðar Andersen, þar sem skilgreining á hatursorðræðu er þrengd. „Ég er rosalega óánægð með þetta frumvarp vegna þess að það minnkar refsivernd minnihlutahópa gagnvart hatursorðræðu. Þetta þýðir í rauninni að fólk kemst upp með að segja meira án þess að vera refsað fyrir.
Ég er hrædd um að þetta sendi skilaboð til ákveðins hóps að nú megi þau segja það sem þau vilja. Það er sérstaklega vegna þess að í greinargerð frumvarpsins er sérstaklega tekið fram að tveir dómar sem féllu í Hæstarétti og vörðuðu hatursorðræðu gegn hinsegin fólki hefðu ekki fallið undir lögum sem lögð eru fram. Þetta finnst mér skrítið, hálfgert kjaftshögg.
Það er ástæða fyrir því að hatursorðræða er bönnuð víðast hvar. Við höfum séð áhrifin sem þetta getur haft þegar ákveðnir hópar eru hægt og bítandi afmennskaðir með svona orðfæri. Í öðrum ummælunum sem dæmt var fyrir var hinseginfræðslu líkt við barnaníð. Það skiptir máli að það sé til staðar einhver lína sem er ekki farið yfir. Að stjórnvöld segi: „Nei, veistu hvað, það er bara ákveðið langt sem þú mátt ganga áður en þú ert farinn að skerða frelsi fólks til að vera það sjálft.“ Það á enginn þurfa að þola svona svívirðingar á almannafæri.“
Raunverulegt fólk á bak við öll ummæli
„Mér finnst það gagnrýnisvert að svona frumvarp sé lagt fram án nokkurs samráðs við þá minnihlutahópa sem ákvæðið verndar. Það er ekkert tillit tekið til þeirra áhrifa sem hatursorðræða hefur á einstaklinga og hópa.
Ég var síðast í gær að lesa fræðilega grein þar sem sýnt var fram á tengsl milli sjálfsvíga innan viðkvæmra hópa og magns hatursorðræðu. Ég man sjálf eftir að hafa verið 19 ára, lesið blogg eftir Jón Val Jensson og liðið ömurlega á eftir. Ég hafði engar forsendur til að meta það að þetta væri maður sem talaði fyrir jaðarskoðun í íslensku samfélagi.
Ég held að allt hinsegin fólk tengi við að það er mjög sárt að lesa skoðanir fólks sem er hreinlega á móti tilveru manns. Á bak við alla þessa prófíla, hvort sem þeir eru gervi eða raunverulegir, er alvöru fólk. Maður veit ekki hvar þetta fólk starfar, hvenær maður mætir þeim úti á götu, hvenær ég er í sundi með fjölskyldunni minni og næsta manneskja í heita pottinum er þessi manneskja. Allt veldur þetta óöryggi.“
„Þetta veldur því að maður, óvart, í hinum ýmsu aðstæðum dregur sig í hlé, stígur eitt skref til baka inn í skápinn til að verja sig. Það er auðveldara en að hætta á að fá leiðinlegt komment eða skrítið augnaráð. Á sama tíma er það sárt að geta ekki komið fullkomlega hreinn og beinn til dyra í öllum aðstæðum.“
Aukin lagaleg réttindi með kynrænu sjálfræði
Frumvarp um kynrænt sjálfræði er nú í meðförum Alþingis en ef það hlýtur samþykki þingsins munu lagaleg réttindi hinsegin fólks á Íslandi vera stóraukin. Í dag situr Ísland í 18. sæti á árlegum lista ILGA, alþjóðasamtaka hinsegin fólks, yfir lagaleg réttindi hinsegin fólks í Evrópuríkjum. Ísland hefur þar dregist stöðugt aftur úr öðrum ríkjum en frumvarp um kynrænt sjálfræði gæti breytt þessari stöðu og fært Ísland nær nágrannaríkjum sínum.
Vernd fyrir intersex börn
Samtökin 78 hafa lagt mikla áherslu á að frumvarpið verði samþykkt til að tryggja í sessi lagaleg réttindi hinsegin fólks á Íslandi. Formaðurinn hefur frá kjöri sínu lagt áherslu á það í fjölmiðlum að við frumvarpið bætist vernd fyrir intersex börn, að ekki megi gera á þeim aðgerðir án samþykkis þeirra. Intersex fólk er hinsegin að því leyti að það hefur kyneinkenni sem falla að einhverju leyti frá norminu. Dæmi um kyneinkenni eru einkenni sem við tengjum annaðhvort við karlkyn eða kvenkyn, svo sem eistu, eggjastokkar, skeggvöxtur eða brjóst.
„Það hefur verið mikil umfjöllun undanfarið í kjölfar þess að það kom út skýrsla á vegum Amnesty International um stöðuna hér á landi en niðurstöður hennar benda til þess að hér séu gerðar aðgerðir á intersex börnum þar sem kynfærum þeirra er breytt til að þau samsvari annaðhvort karlkyni eða kvenkyni. Það er litið svo á að þetta sé fæðingargalli sem verði að laga, að fæðast með ódæmigerð kyneinkenni. Þetta er skaðlegt sérstaklega í ljósi þess að þetta eru óafturkræfar aðgerðir og ef til vill ekki eitthvað sem þessi börn hefðu valið seinna á lífsleiðinni, þegar þau eru sjálf komin með einhverjar forsendur til að geta tekið þessa ákvörðun sjálf,“ segir Þorbjörg og bætir við:
„Þetta ákvæði var inni í upphaflegum drögum frumvarpsins en er dottið út þegar frumvarpið er birt og opnað er fyrir athugasemdir almennings. Breytingin er eitthvað sem gerist inni í ráðuneytinu. Þetta er líklega vegna þess að líkur eru á að þetta ákvæði yrði ansi umdeilt. Það er þess vegna sem ég hef verið að segja að stjórnvöld hafi einfaldlega hafi ekki kjarkinn til að takast á við þetta, en þau segjast núna vilja setja á fót nefnd til að skoða málið betur og gera tillögur til stjórnvalda.“
Þorbjörg segir að frumvarpið sé þó kærkomið. „Þetta frumvarp um kynrænt sjálfræði er annars algjörlega frábært frumvarp sem tryggir kynrænt sjálfræði fullorðinna einstaklinga og barna til að geta fengið í gegn hluti eins og nafnabreytingar og að þurfa ekki að fá geðsjúkdómsgreiningu til að mega hefja kynleiðréttingarferli. En þarna vantar inn vernd fyrir intersex smábörn. Við höfum verið að berjast fyrir að fá það inn en mér sýnist á öllu að það muni ekki takast.“
Er fyrst formanna tvíkynhneigð
Að lokum spyr blaðamaður Þorbjörgu hvernig það sé að vera fyrsti tvíkynhneigði formaður Samtakanna 78. „Mér finnst mikilvægt að segja frá því upp á sýnileika tvíkynhneigðs fólks. Okkur er alltaf ýtt úr í horn. Það sem tví- og pankynhneigt fólk vill er að okkur sé ekki ýtt til hliðar. Að það sé til dæmis talað um samkynja hjónabönd, ekki hjónabönd samkynhneigðra.“
„Það eru ýmsar ranghugmyndir uppi um að ef maður er tví- eða pankynhneigður sé allt svo auðvelt, maður geti bara ráðið því sjálfur hvort maður ætli að taka þátt í hinsegin samfélaginu eða gagnkynhneigða samfélaginu. Í raun og veru er maður samt alltaf hinsegin. Það er algengt að fólk taki því þannig ef maður fer í gagnkynja samband að þá hafi hafi hinsegin hluti manns allt í einu horfið, að maður sé allt í einu ekki hinsegin lengur. Auðvitað er fólk ennþá hinsegin þó það sé í gagnkynja sambandi,“ segir Þorbjörg, og varpar þannig ljósi á fordóma sem pan- og tvíkynhneigt fólk getur mætt.
„Það er pirrandi að vera alltaf settur í annað hvort boxið. Ég kom út sem tvíkynhneigð en nokkrum mánuðum seinna kynntist ég konunni minni. Svo líður tíminn og ég er talin lesbía bara af því að ég er með konu.“