Íslenska ekki ÍslEnska

Ljósmynd/Unsplash

Ljósmynd/Unsplash

Pistill: Lilja Svavarsdóttir, lis12@hi.is

Þessi pistill er hluti af pistlaröð um framtíð íslenskunnar.  

Ég ferðaðist til Rómar í síðasta mánuði og tók eftir að á Fiumicino-flugvelli í Róm eru öll upplýsingaskilti með ítölsku í forgrunni og á eftir henni fylgir sami texti á ensku. Á Keflavíkurflugvelli eru aftur á móti upplýsingaskiltin með enskuna í forgrunni. Þetta stakk mig. Ætti ekki íslenskan að vera í forgrunni á upplýsingaskiltum á íslenskum flugvelli?

Ég er ekki sú eina sem hef látið það trufla mig að íslenskan sé sett í annað sæti á Keflavíkurflugvelli. Þegar upplýsingaskiltin voru tekin í notkun árið 2016 komst það í hámæli að íslenskan væri í öðru sæti. Samkvæmt upplýsingafulltrúa Isavia er enskan í forgrunni á skiltunum því að fleiri erlendir ferðamenn fara um völlinn heldur en Íslendingar.[1] Færri en 10 milljónir ferðuðust í gegnum Keflavíkurflugvöll árið 2017. Það sama ár ferðuðust rúmlega 40 milljónir manna í gegnum Fiumicino-flugvöll, bæði heimamenn og erlendir ferðamenn. Þar hefur þó ekki verið tekin sú ákvörðun að fórna ítölskunni til að þjóna betur ferðamönnum.

Þó að fjöldi ferðamanna sem fari gegnum Keflavíkurflugvöll aukist ár frá ári þá ætti velgengni hans ekki að koma niður á íslenskunni. Eins og Guðrún Kvaran, formaður Íslenskrar málnefndar, hefur bent á þá getur framferði sem þetta grafið undan tungumálinu okkar. Að endingu gæti það þótt sjálfsagt að hafa ensku sem víðast og íslenskunni þar með ýtt út í horn.[2] Ef við horfum í kringum okkur í miðbæ Reykjavíkur sjáum við að þessi þróun er nú þegar hafin; enska er farin að taka yfir miðbæinn. Hinir ýmsu veitingastaðir og verslanir eru einungis með merkingar á ensku, engar á íslensku. Skiljanlegt er að staðir sem vilja höfða til ferðamanna hafi merkingar á ensku en það þyrftu einnig að vera merkingar á íslensku og eins og áður sagði ætti íslenskan að vera í forgrunni.

Við viljum fá ferðamenn til landsins og einnig að þeim líði vel hérlendis en við verðum að passa að það bitni ekki á okkur sjálfum. Mikilvægt er fyrir okkur að varðveita menninguna og tungumálið fyrir komandi kynslóðir en ekki fórna íslenskunni fyrir ferðamennina með aðgerðum sem má spyrja hvort séu ekki misráðnar. Þegar við förum til útlanda ætlumst við ekki til þess að enskan sé í forgrunni alls staðar og það sama á við um þá ferðamenn sem hingað koma. Við verðum að passa að helstu viðkomustaðir ferðamanna breytist ekki í ferðamannaland þar sem ekki er töluð íslenska. Ferðamenn vilja hitta heimamenn og upplifa landið eins og það er í raun og veru. Ég tel að við ættum að gefa þeim þá upplifun og í leiðinni varðveita sérstöðu okkar, tungumálið og menninguna. Þannig verður landið áfram spennandi heim að sækja og íslenskan helst áfram sterk, komandi kynslóðum til góða.

[1] Sunna Kristín Hilmarsdóttir„Enskan í forgrunni á nýjum upplýsingaskiltum á Keflavíkurflugvelli“ á Vísir.is (birt 13. febrúar 2016).

[2] Ibid.

SjónarmiðRitstjórn