Skjáheimurinn gefur og skjáheimurinn tekur

Stúdentablaðið/Unsplash

Stúdentablaðið/Unsplash

Þessi pistill er hluti af pistlaröð um framtíð íslenskunnar.  

Pistill: Jón Magnús Arnarsson, jma7@hi.is.

Nútíminn er trunta. Í stafrænum alþjóðavæddum gerviheimi alast börn upp án umsjár, eftirlits og aðhalds. Alast þar upp við annað tungumál sem öllu tröllríður. Enskunni. Þó hún geti vissulega státað sig af því að hafa mestan fjölda orða allra þekktra tungumála og beri með sér vissan alþjóðakeim vörumerkis - eins og Kóka kóla lógóið eða jólasveinninn - þá er enskan einmitt aðeins það; eitt tungumál. Über Alles. Að minnsta kosti innan hins stafræna skjáheims. Og við skulum ekkert vera fara sem köttur kringum heitan graut. Það er, þessi skjáheimur, sem nú til dags elur að stórum hluta upp börnin okkar. Hver er með au-pair eða eitthvað þvíumlíkt?

Samkvæmt SAFT könnun á netnotkun barna og unglinga frá árinu 2013 byrjuðu 62% íslenskra barna að nota netið á aldrinum fimm til átta ára, tæp 12% á aldrinum þriggja til fjögurra ára og 2% þegar þau voru yngri en þriggja ára. Og samkvæmt sömu rannsókn færast aldursmörkin sífellt neðar þegar netnotkun hefst (Sigríður Sigurjónsdóttir 2016). Nýjustu rannsóknir sýna svo að prósentutala þeirra barna sem byrja að nota netið undir tveggja ára aldri hefur aukist gríðarlega; í dag eru það allt að sextíu prósent (Kristín Sigurðdardóttir 2019). Er það svo slæmt? Það fer alveg eftir forgangsröðun foreldra. Hingað til hafa tvítyngd börn venjulega alist upp á heimili þar sem töluð eru tvö tungumál. En með tilkomu internetsins hefur það breyst og væri hægt að segja að börn nútímans, sum hver, falli undir skilgreiningu tvítyngis á sínu heimili þar sem báðir foreldrar tala þó sama móðurmál. Börn á Íslandi nota öll bæði íslensku og ensku við mismunandi aðstæður og virðist það sjálflært af börnum gegnum leiki og sjónvarp. Þó skal tekið fram að rannsóknir sýna neikvæða fylgni milli áhorfs, þar sem ung börn eru óvirkir þáttakendur, og tileinkunar orðaforða (Íris Edda Nowenstein 2018). Samtímis eru þó rannsóknir litlar og langt á eftir rauntíma í þessum efnum. Með tímanum er viðbúið að íslenskan taki miklum breytingum við áframhaldandi samruna þessara tveggja tungumála þar sem annað hefur yfirburðastöðu í skjáheiminum og því meiri tíma sem foreldrar sjálfir eyða þar í stað þess að tala saman eða beint við sitt barn svo það megi læra móðurmálið, af vörum fram ef svo mætti segja, því meir mun halla á íslenskuna.

„Þær kynslóðir sem nú eru á barneignarskeiði tengja hugsanlega betur við Kardashians en Kalman“

Eins og áður segir veltur það alveg á foreldrunum og afstöðu þeirra til talfrelsis. Öðrum orðum notkunarmöguleika. Og hvað vilja foreldrar? Þær kynslóðir sem nú eru á barneignarskeiði tengja hugsanlega betur við Kardashians en Kalman, meira við bandarísk stjórnmál en íslensk, sækjast fremur í sterkar norskar krónur en flöktandi íslenskar. Alþjóðavæðingin hefur haft mikil og varanleg áhrif á Íslandi og er þar margt mjög til góðs. En staðreyndin er sú að við erum stödd á afskekktri eyju sem elur af sér fámenni. Og hér er rokrassgat. Eftir að sæstrengur, gervihnettir og þriðji orkupakkinn, ruddu sér rúms, horfir hinn almenni eyjaskeggi meiri löngunaraugum út í heim en áður. Við fylgjumst með sólarlífum og glansglamúr á IG, fáum til okkar stórsveitir á Secret Solstice og hámglápum á þætti á Netflix. Allt er þetta á ensku. Svo eignumst við börn. Og stöndum einn daginn með þeim í fjörunni og bendum yfir óendanlegt hafið. Segjum á ástkæra ylhýra „þarna hinum megin er Brave New World”. Þau munu spyrja hvað það þýði. Við gúgglum það. Réttum þeim símann. Og þar lesa þau “Brave New World is a dystopian novel written in 1931 by English author Aldous Huxley and published in 1932. Largely set in a futuristic World State of genetically modified citizens and an intelligence based social hierarchy, the novel anticipates huge scientific developments in reproductive technology, sleep-learning, psychological and classical conditioning that are combined to make a utopian society that goes challenged only by a single outsider.”

Skjáheimurinn gefur og skjáheimurinn tekur.

Heimildir

Sigríður Sigurjónsdóttir. 2016. Snjalltækjavæðingin og máltaka íslenskra barna. Hugrit. Sótt 12. mars af http://hugras.is/2016/08/snjalltaekjavaedingin-og-maltaka-islenskra-barna/

Kristín Sigurðardóttir. 2019. 58% byrja að nota netið fyrir 2ja ára aldur. Sótt 21. mars af http://www.ruv.is/frett/58-byrja-ad-nota-netid-fyrir-2ja-ara-aldur

 

Íris Edda Nowenstein. 2018. Að tileinka sér móðurmál í tæknivæddum heimi. Sótt 21. mars af https://moodle.hi.is/pluginfile.php/354199/mod_label/intro/Iris%20Edda%20Nowenstein%20o.fl.%202018.%20A%C3%B0%20tileinka%20s%C3%A9r%20m%C3%B3%C3%B0urm%C3%A1l%20%C3%AD%20t%C3%A6kniv%C3%A6ddum%20heimi.pdf

 

SjónarmiðRitstjórn