Máltaka barna í stafrænum heimi

Stúdentablaðið/Unsplash

Stúdentablaðið/Unsplash

Þessi pistill er hluti af pistlaröð um framtíð íslenskunnar.

Pistill: Hólmfríður María Bjarnardóttir, hmb11@hi.is

Fyrir nokkrum árum voru símar einungis tæki til þess að hafa samband við annað fólk. Nú er síminn líka tæki til þess að forðast bein samskipti við annað fólk. Fólk grípur í símann við öll tækifæri, þegar það bíður í röð, í hléi í leikhúsi, í matarboðum, á stefnumótum og til þess að börnum þess leiðist ekki. Foreldrar sem nota tæki á borð við síma og iPad sem dægradvöl fyrir  börnin sín eru oft taldir slæmir foreldrar fyrir að eyða ekki meiri tíma með börnunum og nota tæki sem friðþægingu. Það reynist oft auðveldara að rétta börnum síma eða iPad til þess að kaupa sér smá tíma í „fullorðinssamræðum“ eða til þess að ná að sinna húsverkum. Börn eru orðin vön því að stilla sér upp fyrir myndir og biðja oft um að fá að taka mynd eða leika sér í síma eða iPad. Ég fer ekki úr húsi án þess að hafa símann í vasanum og mikið óðagot kemur á mig ef hann er ekki á vísum stað. Það er ekkert skrítið að yngri kynslóðin sé upptekin af tækni ef að fullorðið fólk nær ekki að slíta sig frá símanum og veita þeim athygli. Notkun snjalltækja gerir okkur kleift að hafa samband við fólk sem er langt í burtu, nálgast alls kyns efni og afla upplýsinga hvenær og hvar sem er, en við gleymum stundum að leggja símann niður og tala við fólkið við hliðina á okkur.

Hætta er á að snjalltækjavæðingin dragi úr mállegum samskiptum milli barna og fullorðinna en slík samskipti eru, ásamt myndun félagslegra tengsla, nauðsynleg forsenda máltöku. Til þess að börn tileinki sér mál þurfa þau að eiga í samskiptum við aðra í samtölum og mynda félagsleg tengsl sem ekki er hægt að ná með snjalltækjum.[1] Snjalltækjavæðingin er góð að mörgu leyti en hefur einnig fengið slæmt orð á sig þar sem að hún hefur í för með sér hættu fyrir íslenska tungu. Umræðan um íslensku sem deyjandi tungumál kemur reglulega upp á yfirborðið. Í greininni „Íslenskan er að deyja og samfélagið með“ sem birtist í Fréttatímanum í mars 2015 segir Gunnar Smári Egilsson að „augljóst sé að íslenskan muni deyja út á næstu 50 til 70 árum“. Eiríkur Rögnvaldsson fjallar um það í greininni „Er hrakspá Rasks að rætast?“, þar sem hann bendir á að Rasmus Kristján Rask hafi líka haldið því fram árið 1813 að íslenskan væri að deyja og myndi deyja út innan 100–200 ára.[2] Þrátt fyrir það er ég hérna árið 2019 að skrifa þennan pistil um íslensku á íslensku. Íslenska lifir enn og mun lifa ef við varðveitum hana og hlúum að henni.

„Þó svo að bækur séu ekki eins vinsælar og áður þýðir það ekki að enginn lestur eigi sér stað, hann hefur bara færst af blaði til snjalltækja“

Í grein sinni bendir Eiríkur einnig á að bóklestur unglinga hafi minnkað verulega á undanförnum árum. Þess í stað eru unglingar meira á netinu og nálgast meira af erlendu efni, þar af mest á ensku, tungumálinu sem ógnar íslensku hvað mest. Stór hluti af afþreyingarefni Íslendinga er á erlendum vefsíðum og efnisveitum en því fylgir aukin enskunotkun og slettur. Aukin enskunotkun í íslensku samfélagi hefur líklega mest áhrif á málnotkun yngstu málnotendanna því að þeir eru móttækilegastir fyrir máli.[3] Með snjalltækjunum eykst enskan í umhverfi barnanna á sama tíma og íslenskan minnkar. Í því samhengi er mikilvægt að fylgjast með snjalltækjanotkun yngstu kynslóðarinnar sem hefur nánast alist upp á netinu.

Mögulega er gamaldags að einblína á bóklestur sem svar við „ensku ógninni“. Það er ekki hægt að troða bókum upp á þá sem vilja ekki lesa þær. Þó svo að bækur séu ekki eins vinsælar og áður þýðir það ekki að enginn lestur eigi sér stað, hann hefur bara færst af blaði til snjalltækja. Fyrst voru smáforrit nánast einungis á ensku en með frekari vinsældum snjalltækja hefur þörfin á íslenskum smáforritum aukist, sérstaklega fyrir yngstu kynslóðina. Þeirri eftirspurn var svarað í kringum 2015 þegar komu á markað mörg íslensk smáforrit á borð við Innipúkinn í umferðinni, sem kennir börnum íslenskar umferðarreglur, Tákn með tali, sem er uppflettiforrit sem kennir táknmál, Tölurnar okkar, sem kennir börnum að telja og þekkja tölustafina og Stafirnir okkar, sem kennir börnum að læra að þekkja íslensku bókstafina og hljóðin þeirra.[4]

Með hverri kynslóð kemur hæfari tæknikynslóð, einfaldlega vegna þess að börn dagsins í dag alast upp í kringum þessa tækni og fyrir þeim er hún eðlilegur hluti lífsins. Frá unga aldri eru börn vön gagnvirku umhverfi snjalltækja og ýmislegt bendir til þess að notkun þeirra ýti undir ímyndunarafl og sköpunargáfu þeirra.[5] Í dag er í boði að „fara í iPad“ í vali í mörgum grunnskólum á Íslandi. Í Hafnarfirði fór af stað þróunarverkefni 2013 þar sem spjaldtölvur voru prófaðar í sérkennslu í leik- og grunnskólum. Þar þóttu spjaldtölvur góð viðbót við kennslu og þóttu virka hvetjandi á börn í meðal annars málörvun, vinnu með fínhreyfingar, athygli, einbeitingu og úthaldi.[6] Í Kópavogi hafa allir nemendur á miðstigi og unglingastigi fengið spjaldtölvur til eigin nota og nemendur á yngsta stigi hafa aðgang af þeim í skólanum en fyrstu tækin voru afhent í byrjun skólaárs 2015-16. Þetta er gert til þess að færa námið nær daglegu lífi nemenda sem verða ábyrgir notendur tækninnar í leik og starfi.[7] Margir aðrir skólar hafa tekið snjalltæki inn í kennslu og reynast þau almennt vel, sérstaklega þar sem nám er einstaklingsmiðaðra, eins og Ómar Örn Magnússon bendir á í greinagerð sinni um spjaldtölvur í skólastarfi fyrir nemendur 21.aldarinnar.[8]

Íslendingar eru mjög meðvitaðir um þær ógnir sem steðja að íslensku og að tungumálið þurfi að vera í stöðugri þróun til þess að víkja ekki fyrir ensku. Snjalltækjavæðing er ekki jafngild dauða íslenskunnar. Ef við nýtum okkur hana rétt þá gæti hún stutt íslenskuna og haldið henni lifandi um aldir alda.

[1] Sigríður Sigurjónsdóttir. 2016 „Snjalltækjavæðingin og máltaka íslenskra barna“. Hugrás.

http://hugras.is/2016/08/snjalltaekjavaedingin-og-maltaka-islenskra-barna/ sótt 09.02.’19

[2] Eiríkur Rögnvaldsson. 2015. „Er hrakspá Raks að rætast?“. Hugrás.

http://hugras.is/2015/11/er-hrakspa-rasks-ad-raetast sótt 09.02.’19

[3] Sigríður Sigurjónsdóttir. 2016 „Snjalltækjavæðingin og máltaka íslenskra barna“. Hugrás.

http://hugras.is/2016/08/snjalltaekjavaedingin-og-maltaka-islenskra-barna/

[4] Guðný Þorsteinsdóttir. Mímisbrunnur.

http://mimisbrunnur.is/index.php/category/smaforrit/islensk-smaforrit/ sótt 09.02.’19

[5] Sigríður Sigurjónsdóttir. 2016. „Snjalltækjavæðingin og máltaka íslenskra barna“. Hugrás.

http://hugras.is/2016/08/snjalltaekjavaedingin-og-maltaka-islenskra-barna/ sótt 09.02.’19

[6] Björk Alfreðsdóttir og Helgi Gíslason. „Spjaldtölvur í sérkennslu í leik- og grunnskólum Hafnarfjarðar. Skýrsla þróunarverkefnis á vorönn 2013.“ Skólaskrifstofa Hafnarfjarðar. Sótt 07.03.’19 http://ibuagatt.hafnarfjordur.is/meetingsearch/displaydocument.aspx?itemid=27635079275644674524&meetingid=11635091276429765299&filename=Spjaldtolvuskyrsla260613_oll_LOK.pdf&cc=Document

[7]„Spjaldtölvur í Grunnskólum.“ 2019. Kópavogsbær. Sótt 07.03.’19
https://www.kopavogur.is/is/ibuar/daggaesla-og-skolar/spjaldtolvur-i-grunnskolum-1

[8] Ómar Örn Magnússon. 2013. „Spjaldtölvur í skólastarfi.“ Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar. Sótt 07.03.’19 https://reykjavik.is/sites/default/files/ymis_skjol/skjol_utgefid_efni/Spjaldtoelvur___sk_lastarfi_0.pdf

SjónarmiðRitstjórn