Yfirgnæfandi líkur á að gestir missi þvag
„Við erum í fyrsta lagi miklu heitari en allir í Mið-Ísland. Við vorum einmitt að spá, eru allir hlæjandi á Mið-Ísland uppistöndum því þeir eru svo ljótir? Eða hvað er málið? Við erum samt alvöru fyndnar en fólk býst ekki við því, kannski út af því að við erum allar með resting bitch face,“ segir Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir uppistandari. Hún treður upp á Hard Rock með uppistandshópnum „Fyndnustu mínar“ á laugardagskvöldið klukkan átta og segir að hópurinn komi með nýja orku inn í uppistandssenuna á Íslandi.
En hverjar eru þessar konur sem segjast vera kynþokkafyllri en sjálft Mið-Ísland? „Þrjár lillur sem kynntust í Listaháskóla Íslands og hafa síðastliðið ár komið eins og ferskur andblær inn í senu sem vantar sárlega gellur eða bara manneskjur yfirhöfuð sem mæta ekki á alla Vals-leiki og drekka Tuborg classic. Þetta er í fyrsta sinn sem við komum fram undir nafninu Fyndnustu mínar en við erum Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir, Lóa Björk Björnsdóttir og Rebecca Scott Lord.“
Lindsay Lohan hittir Dorrit sem hittir Ágústu Evu
Aðspurð segir Lóa Björk að uppistandið muni aðallega snúast um upplifanir meðlima Fyndnustu minna. „Við erum svolítið weird á því þannig vitum ekki hvort að grínið sé relatable fyrir annað fólk. Við erum eiginlega í grunninn alveg fucked gellur en vonum að fólk fíli það. Við erum svona 2006 Lindsay Lohan meets Dorrit 2017 meets Ágústa Eva þegar hún byrjaði að æfa í Mjölni.“
Í lýsingu viðburðarins segir að gestir muni að öllum líkindum pissa í sig af hlátri. Salvör staðfestir það. „Það eru yfirgnæfandi líkur á því. Við getum auðvitað ekki sagt til um hversu vel þjálfaða grindarbotnsvöðva áhorfendur eru með, en aðdáendur okkar eru að miklum hluta margra barna mæður eða fólk sem veit ekki hvað grindarbotnsvöðvi er svo það má leiða líkum að því að þetta fólk ráði ekki við sig. Og það er í góðu lagi. Við dæmum engan. Við elskum þvag.“
Óþekktir karlmenn með í för
Fyndnustu mínar verða þó ekki einar á ferð á laugardagskvöldið, tveir karlmenn fá þann heiður að troða upp með þeim, þeir Vilhelm Neto og Stefán Ingvar Vigfússon. Salvör segist ekki alveg viss um það hverjir þessir menn séu. „Við höldum að þeir hafi verið með okkur í MH, kannski í spænskutíma? Mér skilst að Villi sé portúgalskur og geri einhverskonar sketsa. Stefán er með gleraugu. Þeir grátbáðu okkur um að vera með. Við hugsuðum, já afhverju ekki? Við erum svo aumingjagóðar.“
Ellilífeyrisþegar og nemar fá afslátt á miðum á uppistandið. Ellilífeyrisþegar eru einmitt sérstakur markhópur Fyndnustu minna. „Þetta er grínsveltur hópur sem enginn er að sinna eftir að Spaugstofan hætti. Gamalt fólk elskar okkur því það elskar að umgangast fólk sem ljómar af æsku. Gamalt fólk er alltaf geymt inni í einhverjum leiðinlegum stofnunum en við viljum frekar að það komi til okkar. Svo er þessi afsláttur að stóru leyti hugsaður fyrir foreldra okkar, þau eru blönk og gömul en vilja alltaf koma á sýningarnar okkar,“ segir Lóa.
Möguleiki á að 4000 störf tapist
Fyndnustu mínar vona svo sannarlega að þær nái að fylla Hard Rock á laugardaginn. „Annars er það svolítið leiðinlegt fyrir okkur og rekstraraðilana. Allir tapa ef við fyllum ekki Hard Rock. Við erum ekki að segja að 4000 störf tapist og ferðamannaiðnaðurinn fari á hliðina ef við fyllum ekki Hard Rock en við erum bara að segja að það gæti gerst.“
Miða á uppistandið má fá á Tix.is