Prófatíð
Grein eftir Kristjönu Mjöll Sigurðardóttur, náms-og starfsráðgjafa við HÍ
Jæja, nú eru prófin framundan ekki satt? Hvernig hefur þú það kæri nemandi á þessari stundu? Viltu fá nokkur ráð frá okkur hjá Náms- og starfsráðgjöf (NSHÍ) til að takast á við komandi tímabil á skynsaman hátt? Ef svo er lestu endilega áfram.
Framundan er krefjandi tímabil svo grundvallaratriði fyrir þig, nemandi góður, er að hafa stjórn á aðstæðum í lífi þínu og láta ekki óvænt atriði eða verkefni slá þig út af laginu. Góð leið til þess er að forgangsraða fyrirliggjandi verkefnum, vera með gott skipulag á hlutunum og hafa yfirsýn yfir lestur, næringu, svefn, hreyfingu og annað sem skiptir máli í prófatörninni. Hefur þú rifjað námsefnið upp reglulega í vetur? Ef ekki þá skaltu muna að gera það á næsta misseri. Upprifjun hjálpar til við að festa námsefnið í minni og eykur skilning á efninu. Vonandi ertu með hæfniviðmið og markmið námskeiðsins á tæru, það hjálpar þér í próflestrinum. Á hvað hefur verið lögð áhersla? Um hvað myndir þú spyrja ef þú værir kennarinn? Hvaða atriði kanntu og hvaða þætti þarftu að tileinka þér betur? Dýpkaðu hugmyndir þínar og dragðu ályktun af því sem þú lest á gagnrýnin hátt, sú vinna skilar sér.
Það er svo mikilvægt að dagsformið þitt sé í toppstandi á prófdegi. Toppástand hjálpar þér til þess að kalla fram þekkingu þína og koma henni í orð á mikilvægu augnabliki. Þú áttar þig betur á því um hvað er spurt, kemur auga á það sem skiptir máli og nýtir þér adrenalínið (álagið) í próftökunni betur þegar þér líður vel. Hafðu trú á raunverulegri getu þinni, því sú trú dregur úr streitu og óþarfa spennu. Stressaður, illa sofinn, vannærður og jafnvel utangátta nemandi skilar að öllum líkindum slakari prófaniðurstöðum en nemandi sem er í góðu jafnvægi. Ekki lifa á orkudrykkjum og treysta því að sú einfalda orka komi þér í gegnum prófatímabilið. Er ekki bara betra að fá sér heitt súkkulaði með rjóma og jafnvel piparkökum líka, allavega stöku sinnum? Það er nú einu sinni desember og jólin á næta leyti.
Eyddu allri óvissu sem gæti verið að trufla þig svo þú getir einbeitt þér að lestrinum. Þú þarft t.d. að vita í hvaða byggingu Háskólans og í hvaða stofu prófin þín fara fram. Einnig er mikilvægt að vita hvort þú ert að fara í krossapróf eða ritgerðarpróf og gott er að vita hvort dregið sé frá (refsað) fyrir rangt svar. Það er frábært að skoða gömul próf og spreyta sig við þau, með það í huga að átta sig á því sem koma skal, en ekki læra gömul próf utan að og stóla á að það sé nægur undirbúningur fyrir prófin. Ef þú átt að svara einhverri spurningu í stuttu máli þá er um að gera að fara eftir því, ekki teygja lopann. Sem sagt lesa fyrirmælin. Einnig er nauðsynlegt fyrir nemendur að fylgjast með tímanum til þess að lenda ekki í tímapressu. Gott er að skoða hlutfallslegt vægi hverrar spurningar og reyna að eyða ekki of miklum tíma í spurningar sem hafa lítið vægi.
Próf eru ein algengasta aðferðin við námsmat og þess vegna er sá möguleiki fyrir hendi að prófin nái valdi yfir nemendum, að þeir fari að líta á einkunnir sem algildan mælikvarða á sig og meti sig og jafnvel aðra út frá þeim. Kæri nemandi, ekki falla í þá gryfju, einkunnir eru ekki mælikvarði á gáfur heldur mælikvarði á frammistöðu í tilteknu prófi á ákveðnum tíma. Gerðu þitt besta í prófunum, vertu í góðu dagsformi og kallaðu fram þekkingu þína. Besta niðurstaðan er auðvitað sú að þú náir að uppskera eins og þú sáðir. Njóttu svo hátíðisdaganna sem fylgja í kjölfar prófanna.
Þú ert alltaf velkomin/n/ð í viðtal til náms- og starfsráðgafa NSHÍ. Láttu sjá þig.