Viðbrögð við hamfarahlýnun
Viðtal við Aðalbjörgu Egilsdóttur, forseta Umhverfis- og samgöngunefndar SHÍ
Þýðing: Katrín le Roux Viðarsdóttir
Nýr áratugur er handan við hornið og hamfarahlýnun er eitt aðaláhyggjuefni okkar tíma. Á meðan vitundarvakning eykst smám saman meðal stofnanna og félaga eru einstaklingar að þrýsta á stjórnvöld að bregðast við þessu nýfundna vandamáli. Í september 2019 vöktu loftslagsverkföll á heimsvísu mikla athygli, en þau hófust með aðgerðum umhverfissinnans Gretu Thunberg. Íslendingar létu sitt ekki eftir liggja og þann 20. september síðastliðinn safnaðist fólk fyrir framan Hallgrímskirkju og gekk fylktu liði á Austurvöll. Á meðal þeirra var Aðalbjörg Egilsdóttir, forseti Umhverfis-og samgöngunefndar SHÍ. Í viðtali við hana 1. nóvember síðastliðinn sagði hún blaðamanni Stúdentablaðsins frá hlutverki sínu sem forseta nefndarinnar og útskýrði hvernig gripið er til aðgerða í átt að sjálfbærari háskóla.
Í áttina að grænni háskóla
Auk þess að vera að forseti Umhverfis- og samgöngunefndar Stúdentaráðs er Aðalbjörg einn skipuleggjenda vikulegra loftslagsverkfalla í hádeginu á föstudögum. Hún útskrifaðist í vor með BSc í líffræði og ákvað að taka sér ársfrí til að einbeita sér að hlutverki sínu í umhverfismálum áður en hún dembir sér í meistaranám. Aðalbjörg hefur verið kosin ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu Þjóðunum á sviði loftslagsmála og mun fara á loftslagsráðstefnu Sameinuðu Þjóðanna (COP25) sem haldin er um þessar mundir í Madríd.
Starf Aðalbjargar sem forseti Umhverfis- og samgöngunefndar felst meðal annars í að boða meðlimi á fundi, leggja fram tillögur og vekja umræðu um málefni á sviði umhverfismála. Þá vinnur hún náið með Þorbjörgu Söndru Bakke, verkefnastjóra sjálfbærni-og umhverfismála, en viðtal við Þorbjörgu er að finna í 2. tölublaði Stúdentablaðsins. Aðalhlutverk nefndarinnar er að leggja áherslu á að betrumbæta samgöngur og efna til framfara í umhverfismálum auk þess að koma á háskólanum á framfæri sem leiðandi afli í sjálfbærni og endurvinnslu. Stúdentablaðið spurði Aðalbjörgu hvaða aðgerða væri þörf til þess að mæta því markmiði. „Við erum eins og er að vinna með verkefnisstjóra sjálbærni- og umhverfismála háskólans í átt að vistvænn háskólasvæði til þess að fá Grænfánann. Við erum að reyna að fá þessa vottun í fyrsta skipti.“
Grænfánaverkefnið í HÍ
Grænfánaverkefnið var stofnað af Foundation of Environmental Education (FEEE) árið 1994, en um er að ræða alþjóðlega herferð sem hefur nú þegar sameinað 57,000 skóla í 67 löndum. Herferðin stefnir að því að leiðbeina kennurum og stúdentum um hvernig búa megi til sjálfbært umhverfi í skólum með því að vekja athygli og grípa til aðgerða. Á Íslandi hefur Landvernd verið bakhjarl Grænfánaverkefnisins frá árinu 2001 og það eru nú þegar meira en 230 skólar og leikskólar sem flagga fánanum. Á þessu ári vinna Umhverfis- og samgöngunefnd og Stúdentaráð með Landvernd til þess að gera HÍ þátttakanda í þessu verkefni. Umhverfis- og samgöngunefnd hefur ákveðið að einbeita sér aðallega að hamfarahlýnun og vekja athygli á fjórum málefnum: Menntun, samgöngum, mat og viðburðum.
„Það er í kortunum af halda nokkra fræðsluviðburði til þess að nemendur og starfsmenn geti gert sér betur grein fyrir málefnum okkar. Ég held að flestir viti af vandamálinu en skilji það kannski ekki til fulls“ segir Aðalbjörg. Eins gengur og gerist með alþjóðleg málefni verður umfjöllun um hamfarahlýnun svolítið óskýr. Þess vegna er Umhverfis- og samgöngunefnd að vinna að því að gera upplýsingar aðgengilegri á þessu ári, bæði á íslensku og ensku. Þá hyggst nefndin einnig að reyna að fá fleiri starfsmenn til þess að ganga til liðs við sig. Núna er Þorbjörg Sandra Bakke sú eina sem hefur ákvörðunarvöld þegar kemur að umhverfismálum háskólans, en nefndin vill þrýsta á stjórn HÍ að stuðla að vistvænni stofnun.
Bættar almenningssamgöngur á háskólasvæðinu
„Við höfum verið að vinna með Reykjavíkurborg og Strætó til þess að auðvelda almenningssamgöngur til háskólans, sem lítur bara vel út eins og er. Þá hefur SHÍ skrifað undir samning við Donkey Republic um að bjóða upp á afslátt fyrir nemendur,” segir Aðalbjörg aðspurð um samgöngur á háskólasvæðinu. Til þess að minnka kolefnisspor háskólafólks hvetur Umhverfis- og samgöngunefnd nemendur og starfsfólk til þess að nota einkabílinn eins lítið og hægt er. Háskólasvæðið er ekki aðeins ágætlega vel þjónustað af Strætó heldur var opið hús síðasta október þar sem nemendur gátu lagt fram hugmyndir til þess að stuðla að betra leiðakerfi. Þá býður Strætó líka upp á mjög freistandi stúdentaafslætti af sex og tólf mánaða kortum. Það sem er nýjast er samstarf háskólans við deilihjólaleiguna Donkey Republic, en leigan er með þrjár stöðvar á háskólasvæðinu (fyrir framan Háskólatorg, í Stúdentagörðum og nálægt Landsbókasafni). Afsláttarkóðinn “hihjolar1” gefur þér 20% afslátt, 2.800 kr. á mánuði fyrir ótakmarkaðar stuttar ferðir. Þá er fyrsti klukkutíminn frír með hverri leigu.
Aðgerðir Hámu
„Í kjölfar baráttu Umhverfis- og samgöngunefndar og Stúdentaráðs síðustu ár höfum við fengið fleiri grænkeravalkosti í Hámu. Þá höfum við komist að því að þeim gengur mjög vel að minnka matarsóun, en Háma reynir að búa ekki til of mikinn mat og sá matur sem er við það að renna út er gefinn til samtaka á borð við Mæðravernd og Fjölskylduhjálp,“ segir Aðalbjörg. Hún segir jafnframt að Umhverfis- og samgöngunefnd hafi verið Hámu innan handar við að finna fjölbreyttar vörur fyrir grænkera með tilliti til þátta á borð við næringu. Hvað plast varðar er Umhverfis- og samgöngunefnd að berjast fyrir því að minnka það enn frekar í Hámu. Nefndin vill sérstaklega draga úr notkun einnota plasts og hvetja til aukinnar endurvinnslu. Þess má geta að einnota kaffibollarnir og salatskálarnar sem nú fást í Hámu eru úr lífrænu efni og því á að henda þeim í lífrænu ruslatunnuna.
Öll taka þátt
Stærsti viðburður ársins hjá nefndinni var Umhverfisdagur HÍ. Hann var haldinn 23. september síðastliðinn, en auk Umhverfis- og samgöngunefndar komu SHÍ og verkefnastjóri sjálfbærni- og umhverfismála að skipulagningunni. Fjöldi fólks, meðal annars rektor HÍ, Jón Atli Benediktsson, safnaðist saman í Vatnsmýrinni við Norræna Húsið til þess að tína rusl og gróðursetja tré. Þátttakendur plöntuðu samtals 55 trjám, 35 af þeim eru staðsett á litlu svæði við bílastæði Norræna Hússins og hin 20 við byggingu Odda. Tilgangur verkefnisins var ekki aðeins að hreinsa til heldur lærðu þátttakendur mikilvægi þess að varðveita votlendið sem hefur verið kennileiti svæðisins síðan á áttunda áratugnum og heimili margskonar gróðurs og dýralífs. Í lok dagsins grilluðu þátttakendur bulsur í boði Kjarnavara ehf.
„Þetta var í fyrsta skipti sem svona viðburður var haldinn í háskólanum. Tilgangur dagsins var að gera eitthvað sem hafði góð áhrif á jörðina og vekja athygli á umhverfismálum,“ segir Aðalbjörg. Hún vonar að Umhverfisdagurinn verði árlegur viðburður, en þangað til stendur Umhverfis- og samgöngunefnd að skipulagningu sambærilegra viðburða. Nefndin hefur stofnað tvo vinnuhópa þar sem nemendur geta tekið þátt í starfinu ásamt nefndinni og SHÍ. Annar hópurinn einblínir á samgöngur og hinn á fræðsluefni. Auk þess er að finna skjal á Facebook-síðu nefndarinnar þar sem allir nemendur og starfsmenn HÍ geta lagt fram tillögur og hugmyndir um hvernig megi auka sjálfbærni háskólans.
Að lokum
Viðtalinu lýkur á mikilvægum og kraftmiklum skilaboðum frá Aðalbjörgu, en hún telur okkar eigin aðgerðir mikilvægan þátt í að hafa áhrif á framtíð mannkyns og jarðarinnar. „Það sem við þurfum, ekki bara í háskólanum heldur um allan heim, er að fólk taki til aðgerða. Fólk þarf að breyta hegðun sinni og hvetja aðra til að gera slíkt hið sama. Komið á loftslagsmótmælin. Segið fjölskyldunni, yfirmanninum eða kennurum að gera hlutina betur. Af því að það versta sem við getum gert er ekkert. Við höfum ekki efni á því að gera ekkert lengur.“
Sjá nánar:
umsamshi@gmail.com – Netfang Umhverfis-og samgöngunefndar SHÍ
Verkfall fyrir loftslagið - alla föstudaga – Facebook-síða
Umhverfis- og samgöngunefnd SHÍ – Facebook-síða
Stúdentaráð Háskóla Íslands - SHÍ – Facebook-síða
Sjálfbærni- og umhverfismál í Háskóla Íslands – Facbook-síða