Ég fann frænda handan hafsins

Ljósmynd/Natalía Lind Jóhannsdóttir

Ljósmynd/Natalía Lind Jóhannsdóttir

Í gegnum tíðina hef ég oft velt fyrir mér hvort ég hafi átt einhverja ættingja sem fluttu vestur til Kanada og Bandaríkjanna á síðari hluta 19. aldar og byrjun 20. aldar. Ég stóð í þeirri trú að svo væri ekki þangað til ég komst að því fyrir tilviljun, fyrr á þessu ári, að hálfsystir langalangömmu minnar flutti til Blaine í Washington árið 1903. Heppnin var með mér, því það stóð til að Snorra West verkefnið, sem gengur út á að styrkja tengslin á milli Íslendinga og Vestur-Íslendinga, myndi eiga sér stað á vesturströnd Norður-Ameríku þetta árið. Einn af áfangastöðunum yrði, nánara tiltekið, Blaine í Washington.

        Eftir að hafa verið valin til þátttöku í Snorra-verkefninu fékk ég aðgang að gagnagrunninum Icelandic Roots sem er eins og Íslendingabók fyrir Vestur-Íslendinga. Þar gat ég flett upp upplýsingum um Jónínu, langalangömmusystur mína. Ég las að hún hefði eignast sjö börn og varð yfir mig spennt þegar ég sá að yngsti sonur hennar, Peter Hallson, var sagður vera enn á lífi, 83 ára að aldri. Ég vonaði að upplýsingarnar í gagnagrunninum væru réttar og að ég gæti með einhverju móti komist í samband við þennan náfrænda minn. Með hjálp sjálfboðaliða Snorra-verkefnisins var það mögulegt. Það tók bara nokkrar tilraunir að ná tali af honum. Það var vegna þess að hann var staddur í átta daga langri hjólaferð uppi í fjöllunum.

Mér leið strax prýðilega í Blaine og gat vel skilið að Jónína hafi kunnað vel við sig þar. Staðurinn minnti mig að sumu leyti á Ísland: Hversu fersk hafgolan var og sumarkvöldin björt, hversu lítið var um moskítóflugur og hvernig ég þurfti að klæða mig svo mér yrði ekki kalt. Gestgjafi minn í Blaine var kona af íslenskum ættum að nafni Jana Peterson-Dunn. Það kom mér skemmtilega á óvart að hún hafði þekkt Jónínu frænku mína persónulega. Jónína hafði verið henni sem amma. Hún hafði meðal annars kennt henni að baka vínartertu, „þjóðarrétt“ Vestur-Íslendinga.

Ljósmynd/Karítas Hrundar Pálsdóttir

Ljósmynd/Karítas Hrundar Pálsdóttir

Í Blaine heimsótti ég íslenska hjúkrunarheimilið, Stafholt, en þar hafði frænka mín unnið og síðan búið undir lokin. Í kirkjugarðinum fann ég leiði hennar við hlið eiginmanns hennar og sonar. Meðlimur í Íslendingafélagi staðarins hafði tekið með sér íslenska fána og ég fékk að merkja leiði þeirra með þeim. Mér fannst það mögnuð stund.

Hápunktur ferðarinnar var þó án efa að verja tíma með Peter frænda. Hann gerði sér ferð til Blaine til að hitta mig. Við skiptumst á sögum og höfðum um margt að spjalla. Hann mætti með ýmis skjöl og mér fannst sérstaklega merkilegt að sjá ljósrit af vegabréfi Jónínu og stimplunum sem hún hafði fengið, í þetta eina skipti sem hún heimsótti Ísland á fullorðins aldri. Ég veit nú að Jónína hitti systur sína, langalangömmu mína, í þeirri ferð en því miður misstu þær tengslin aftur. Þegar Peter heimsótti Ísland með systrum sínum um 1980 tókst þeim ekki að hafa upp á neinum ættingjum. Það er því mjög dýrmætt að hafa endurnýjað kynnin og styrkt með því fjölskylduböndin.

Ljósmynd/Natalía Lind Jóhannsdóttir

Ljósmynd/Natalía Lind Jóhannsdóttir