Tengsl milli heilsu og náttúru

Grafík/Elín Edda Þorsteinsdóttir

Grafík/Elín Edda Þorsteinsdóttir

Oft er því haldið fram að það mikilvægasta fyrir okkur sé heilsan. Hvað eigum við að borða? Hversu oft eigum við að hreyfa okkur? Og svo framvegis. En hvað um umhverfið, í hvernig umhverfi eigum við að vera? Skiptir það ekki máli? Rannsóknir hafa sýnt að okkur líður betur ef við erum í náttúrulegu umhverfi, svo hvers vegna ekki að stækka þetta umhverfi? Hvers vegna erum við ekki að bæta við fleiri grænum svæðum í borgum? Þetta eru margar spurningar og fá svör en samt sem áður er umræðan mikilvæg. 

 

Náttúra og heilsa, heilsa og náttúra. Við höfum oft heyrt og lesið um hvernig náttúran hefur jákvæð áhrif á andlegu og líkamlegu heilsu okkar. Til dæmis upplifir fólk hamingjutilfinningu þegar það horfir út á sjóinn, finnur ilm villtra blóma, hlustar á fuglasöng eða drekkur vatn úr rennandi læk. Náttúran getur líka dregið úr einkennum „Attention Deficit Hyperactivity Disorder“ (ADHD) sem róandi þáttur. Þá hafa rannsóknir sýnt fram á að sjúklingar sem horfa á náttúrulegt landslag út herbergisgluggann eru líklegri til að læknast fyrr en aðrir. Þetta er ekki kraftaverk fyrir lækningu sjúkdóma en er þó mikilvægur liður í að líða betur, vera hamingjusamari og heilbrigðari í skemmri tíma.

 

En hvað er átt við þegar talað er um náttúru? Eru hugtökin náttúra og villt tengd? Í rannsóknum er jafnvel fjallað um hversdagslega náttúru. Hvað er það? Er það tré sem plantað er við götuna? Eru það blómin sem seld eru í blómabúð? Hér að ofan er fjallað um „villt blóm“ vegna þess að fyrir sumum getur aðeins „alvöru náttúra“ haft þessi jákvæðu áhrif á einstaklinginn, þ.e. náttúra sem er ekki manngerð. Á Íslandi er skilgreiningin á villtri náttúru svæði sem er fimm kílómetrum frá hinu manngerða, til dæmis rafmagnslínum og vegum. Þannig að þegar talað er um að „fara út í náttúruna“ verður fyrst að spyrja sig: Hvað er náttúra og hvar er hún? Við getum auðvitað orðið fyrir jákvæðum áhrifum frá því að heimsækja lystigarð þó hann sé ekki algjörlega villt náttúra. Hamingjutilfinningin er þó ekki hin sama og ef um villt umhverfi væri að ræða. Villt svæði eru því mikilvæg en þjóðgarðar og vernduð svæði eru til dæmis góð leið til að viðhalda villtum svæðum. Þá er líka hægt að stjórna hversu margt fólk hefur aðgang að svæðinu á hverjum tíma. 

 

Út frá þessari umræðu væri hægt að spyrja hvort heilsa okkar sé nátengd heilsu jarðar. Ímyndaðu þér heim án trjáa, án fersks vatns, án hreins loft. Martröð, ekki satt? Mannkynið heggur niður þúsundir trjáa á hverri mínútu. Við erum að hækka hitastigið sem hefur þær afleiðingar að jöklar minnka. Við erum að menga loftslagið með hárri kolefnislosun sem óhreinkar loftið. Við erum að skaða heilsu jarðarinnar. Við heyrum þetta allt í fréttum, en það sem kemur ekki fram í fréttunum er hvernig við eigum að laga vandamálið.

 

Notkun jarðefnaeldsneytis er eitt stærsta vandamál loftslagsbreytinga. Þessi orka er til dæmis notuð við flutninga, bæði með bílum og flugvélum. Ein leið til að minnka kolefnisbrennslu er þar af leiðandi að borða mat  sem framleiddur er hérlendis, sé þess kostur. Önnur lausn er að fækka ferðalögum með flugvélum þar sem þær nota gífurlegt magn jarðefnaeldsneytis. 

 

Baráttan við loftslagsbreytingar þarf ekki að vera neikvæð né að valda óánægju. Hún getur þess í stað verið hvatning til að halda lífinu áfram á sjálfbæran hátt. Annað mikilvægt atriði er kjötneysla. Margir hafa sterkar skoðanir á þessu málefni og líta á það sem baráttu grænkera og kjötæta. Það ætti hins vegar ekki að líta á þetta sem togstreitu. Sjálf hef ég verið vegan í eitt ár. Áður var ég grænmetisæta í nokkur ár og þar áður borðaði ég kjöt í 18 ár. Kjötneyslahefur verið viðtekin venja í samfélaginu hingað til. Hins vegar hefur veganismi miklu minni áhrif á náttúruna en kjötneysla. Til þess að framleiða kjöt þarf tvöfalt magn af landi, annars vegar fyrir dýrin og hins vegar fyrir fæðu þeirra, til dæmis soja. Mataræði sem byggir á grænmeti stuðlar að minni landnotkun fyrir framleiðslu, færri trjám sem þarf að eyða og minnkar innviði fyrir kjötiðnað og vélar. Eins og nefnt er hér að framan hefur neysla innlendra matvæla einnig jákvæð áhrif.

 

Hráefni og matreiðsla eru mikilvægt mál þegar hugsað er um loftslagsbreytingar. Umræðan um neysluhætti okkar og hvaðan hráefni og vörur koma ætti að vera mun háværari. Að sjálfsögðu er mikilvægt að minnka notkun drykkjarröra og plastpoka, en hvaða vörur ertu með í taupokanum? Hvaða áhrif hafa þessar vörur á heilsu jarðarinnar? Er vörunum pakkað í plast? Einstaklingar geta tekið ákveðin skref í þessum málaflokki en ríkisstjórnin þarf einnig að bera ábyrgð og grípa til aðgerða. 

 

Að öllu þessu sögðu: Endilega farðu út að skemmta þér, borðaðu hollt og hreyfðu þig. En ekki gleyma að við þurfum að gæta vel að að heilsu jarðar til þess að vera hamingjusöm. Sem samfélag þurfum við að hlusta á náttúruna og hlúa að henni.