Róandi og gagnleg öpp fyrir háskólanema (og fleiri)
Forest
(kostar 2.47 usd = rúmur þrjúhundruðkall)
Ertu alltaf að kíkja á símann þinn? Síminn er ótrúlegt tæki en við gleymum okkur oft og eyðum meiri tímum í honum heldur en í raunheiminum. Verkefni og slökun lúta lægra haldi fyrir skilaboðum og öðrum truflunum samfélagsmiðla. Viltu breyta því? Þá er Forest fyrir þig! Þú setur þér tímamarkmið og gróðursetur fræ. Tréð vex á meðan þú vinnur en ef þú ferð úr appinu þá deyr tréð. Fyrir hvert tré sem þú safnar færðu sýndarpening í appinu. Þegar þú ert komin með ákveðna upphæð geturðu keypt alvöru tré sem verður gróðursett í raunheiminum. Lærðu og bjargaðu heiminum, tré fyrir tré.
Headspace
(frítt)
Hugleiðsluappið sem allir eru að tala um! Appið býður upp á frítt námskeið sem kennir notendum grundvallaratriði í hugleiðsluiðkun, en eins og í flestum öðrum öppum er hægt að kaupa áskrift til þess að nálgast meira efni. Ýmsar gerðir hugleiðslu má nálgast en hægt er að leggja áherslu á kvíða, stress, hræðslu, svefn og hreyfingu. Fyrir þá sem hafa aldrei tíma til að slaka á er hægt að nálgast 2-3 mínútna hugleiðslu.
Calm
(frítt)
Calm er annað vinsælt hugleiðsluapp. Eins og nafnið gefur til kynna er appið hannað til þess að hafa róandi áhrif á notendur þess. Þar eru 3-25 mínútna langar æfingar fyrir byrjendur og lengra komna. Í appinu má finna mismunandi áherslur á borð við hamingju, þakklæti, sjálfstraust og stresslosun. Calm færir mann frá amstri dagsins inn í róandi öndunaræfingar með fallegum myndum.
Happ app
(frítt)
Happ app er íslenskt hugleiðslu app þar sem notendur geta valið úr æfingum dagsins, skrifað hjá sér þrjá góða hluti sem áttu sér stað, tekið vellíðunarpróf og fengið verkfæri til þess að vinna í sjálfum sér. Appið er minna í sniðum en Headspace og Calm en æfingarnar eru á íslensku. Appið er hugarfóstur Helgu Arnardóttur, en áhugi hennar á jákvæðri sálfræði kviknaði þegar hún vann á Kleppsspítala.
Libby
(frítt ef þú ert með bókasafnskort)
Libby appið er sniðugt fyrir alla þá sem lesa rafbækur og hlusta á hljóðbækur. Ef þú ert með bókasafnskort geturðu náð í appið, skráð þig inn á rafbókasafnið og fengið aðgang að alls kyns frábærum bókum. Bókasafnsáskrift kostar 2500 kr. á ári og veitir aðgang að öllum Borgarbókasöfnum borgarinnar og rafbókasafninu. Storytell og Audible eru einnig frábærar hljóðbókaveitur. Storytell er á 2790 kr. á mánuði og er með gott úrval af enskum og íslenskum bókum, Audible kostar um 1800 kr. á mánuði en er ekki með íslenskar bækur.
Icelandic Coupons
(frítt)
Icelandic coupons, eða „Íslenskir afsláttarmiðar“, er líklega markaðssett fyrir ferðamenn sem bregða sér til landsins en það er ekkert sem bannar öðrum að nota það. Við vitum öll að það getur verið dýrt að skella sér út að borða, versla og hittast í bjór. Flestir afslættirnir í appinu eru í kringum 20% og appið er frítt. Bon appetit kæru vinir. Svo eru líka mörg tilboð fyrir þá sem vilja skella sér í hvalaskoðun).
Þó að nútíminn sé fullur af ótrúlega flottum, sniðugum og gagnlegum öppum skulum við ekki gleyma að líta upp úr tækjunum af og til. Ég mæli með að kíkja á Sjálfsumhyggjudagatal Stúdentablaðsins. Þó svo að þú hafir ekki tíma, sért með þúsund skyldur og milljón verkefni sem bíða þín, skaltu ekki gleyma að gefa þér smá „me time“ og ekki skammast þín fyrir að hugsa um geðheilsuna.