„Alþingi getur alltaf tekið ný framfaraskref fyrir stúdenta“
Viðtal við Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, nýskipaðan dómsmálaráðherra
Hvernig á ungt fólk að koma málefnum sínum á framfæri?
„Ungt fólk þarf fyrst og fremst að þora að hafa skoðun, setja þá skoðun fram, vera tilbúið að fá á hana gagnrýni og þannig taka um hana umræðu. Það eru margar leiðir til að koma þeim á framfæri. Nýir miðlar gera okkur auðveldara fyrir að segja skoðanir okkar og koma málefnum á framfæri. Við erum mjög dugleg að nota þá miðla. Ég reyni að tala við mjög breiðan hóp af fólki og nota því marga miðla, s.s. samfélagsmiðla, vefsíður, blöð og annað. Það fer vissulega eftir því við hvern maður er að tala hverju sinni. En fyrst og fremst þarf að hafa vel ígrundaða skoðun sem maður er tilbúinn til þess að koma á framfæri og standa með.“
Hvernig telur þú Alþingi geta bætt hagsmuni stúdenta?
„Það er hægt á marga vegu og samhliða er alltaf verið að að bæta lífskjör ungs fólks. Ég hef til dæmi talað lengi fyrir því að það þurfi ný lög um LÍN. Ég var stuðningsmaður þess LÍN-frumvarps sem kom hér fyrir nokkrum árum síðan. Þó að einhverjir sjái á því vankanta, þá hefði kerfið verið mun betra ef það hefði verið samþykkt. Það fól í sér styrkjakerfi eins og við sjáum á Norðurlöndunum. Það er eitt af þeim málum sem við verðum að klára og er að koma aftur frá menntamálaráðherra, með aðeins breyttu sniði en svipaðri hugsun að mörgu leyti. Síðan eru auðvitað mörg atriði sem snerta almennt ungt fólk sem við þurfum sífellt að huga að á Alþingi. Við erum að reyna að aðstoða fólk við að eiga möguleika á að kaupa sína eigin íbúð, höfum innleitt notkun á séreignasparnaði og fleira, en allt eykur þetta fjárhagslegt sjálfstæði ungs fólks. Svo eru mörg mál sem snúa að ungu fólki jafnt þeim sem eldri eru, bara með því að gera líf almennings betra. Ungt fólk gerir miklar kröfur og á að halda áfram að gera miklar kröfur og Alþingi getur alltaf tekið ný framfaraskref fyrir stúdenta.“
Finnst þér almennt ríkja mikið traust gagnvart ungu fólki í stjórnunarstöðum, t.d. þegar kemur að mikilvægum ákvarðanatökum?
„Ég hef notið mikils trausts í öllum þeim verkefnum sem ég hef sinnt og er ótrúlega þakklát fyrir það. Ég sæti ekki hér nema af því að mér er treyst af eldra fólki fyrir stórum verkefnum. Það er ekki sjálfsagt en Bjarni Benediktsson, formaður flokksins míns, gerir það og hefur sýnt það í verki með því að skipa bæði Þórdísi Kolbrúnu og mig sem ráðherra. Við erum yngstu konurnar sem hafa verið ráðherrar í sögu Íslands. Almennt finnst mér ég fá mikla virðingu fyrir minni stöðu, alveg frá því ég var fyrst kjörin á Alþingi, bæði frá samstarfsfólki og í þessu starfsumhverfi. Það er meira um það að fólk úti í þjóðfélaginu reyni einhvern veginn að draga úr manni með þeim rökum að maður sé ungur. En ef það er eina gagnrýnin sem fólk hefur, þá þarf ég ekki að hafa miklar áhyggjur.
Þegar ég bauð mig fram sem ritari Sjálfstæðisflokksins 2015, hugsaði ég að ég gæti ekki kvartað yfir því að meðalaldur þingflokksins væri eitthvað hærri en meðal aldur þjóðarinnar ef við unga fólkið værum ekki sjálf að gefa kost á okkur í stöður. Við yrðum að bjóða okkur fram sjálf svo að á þessu yrði breyting. Ég tel að það hafi margt breyst á síðustu árum í þá átt að treysta ungu fólki betur fyrir ábyrgð og stórum hlutverkum.“
Finnurðu fyrir meiri pressu til að sanna þig sem ung kona í pólitík, meiri en karlkyns jafnaldrar þínir?
„Að mörgu leyti ekki, en auðvitað er umræðan mögulega öðruvísi. Fólk nýtir sér það í umræðunni gegn manni að uppnefna mann með ýmiss konar orðum og sér í lagi að það sé slæmt að vera bæði ung og kona. Það segir sig sjálft að sú gagnrýni er ómálefnaleg og hefur ekki komið niður á því sem ég er að gera. Auðvitað er það samt þannig að við eigum ýmislegt eftir ógert og mér er mikils virði að vera partur af því að breyta staðalímyndum um ráðherra og hvert hlutverk kynjanna er.“
Hvað málefni munt þú koma til með að leggja mesta áherslu á sem ráðherra?
„Nú er ég í nýkomin inn í ráðuneytið og það hefur vægast sagt verið nóg um að vera í þeim verkefnum sem biðu mín hér fyrstu dagana og vikurnar. Ég fer þó inn í þetta verkefni þannig að ég stend fyrir ákveðin gildi. Ég vil með öllu því sem ég geri hér ná fram mínum gildum sem snúast um meira frelsi, einfaldara líf fólks og öryggi almennings í víðu samhengi. Hvað sem ég geri innan ráðuneytisins þá verður það í þessum anda. Það eru auðvitað fjölmörg, flókin og skemmtileg úrlausnarefni í þessu ráðuneyti, en ég ætla að nálgast þau svona og setja þannig mark mitt á ráðuneytið.”
Hver er þín afstaða í innflytjendamálum?
„Innflytjendur hafa sjaldan verið jafn stór hluti af íslensku þjóðfélagi. Þeir eru mikilvægur hópur í samfélaginu í mörgu tilliti, hvort sem það er efnahagslegt eða menningarlegt. Ég tel að við séum að gera marga góða hluti. Rannsóknir sýna að þeim líður mjög vel á Íslandi, sjá ýmis tækifæri og telja sig vera velkomin í okkar samfélag. Það eru þó ýmsir hlutir sem við getum gert betur og það verður að vinna að því að bæta úr því sem fer á mis í kerfinu svo þeim líði jafn vel og öðrum sem hér búa. Stutta svarið við þessari spurningu eru að við eigum að taka vel á móti þeim sem hingað vilja koma með löglegum hætti til að lifa og starfa en við gerum okkur á sama tíma grein fyrir því að við getum ekki bjargað öllum. Lögin þurfa að vera skýr og ekki síður skilvirk og ég mun leggja mig fram við að tryggja það.“
Hver er þín skoðun á tanngreiningum innan háskólans?
„Aldursgreining fer ekki fram nema með upplýstu samþykki í hvert sinn. Það er mikil áhersla lögð á að þessi læknisskoðun fari fram í fullu samráði við einstaklinginn og sé honum ekki íþyngjandi. Það á að vera þannig að kerfið geti lagt heildstætt mat á aldur einstaklings, frásögn um ævi hans, aðstæðum og gögnum sem eru til. Líkamlegt mat er einn liður í þessu mati. Tanngreiningar eru ekki alltaf notaðar en eru stundum hluti af þessu heildstæða mati, þegar þess er þörf. Tanngreiningar hafa ekki verið taldar brjóta gegn barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna. Landlæknir hefur skilað inn umsögn þar sem hann tekur fram að slíkar rannsóknir eru gerðar í fullu samráði við einstaklinga. Niðurstaða úr slíkri rannsókn skal ávallt metin í samhengi við önnur atriði málsins og vafi er metinn umsækjanda í hag í útlendingalögunum.
Á meðan þetta er hluti af heildstæðu mati og brýtur ekki gegn einstaklingnum tel ég að þetta sé í lagi. Mín bíða fjölmörg verkefni hér í ráðuneytinu til að skoða og þetta er eitt af þeim.“
En finnst þér að háskólinn sem menntastofnun sé rétti staðurinn til að slíkar rannsóknir séu framkvæmdar?
„Það er fyrst og fremst mikilvægt að sá aðili sem framkvæmir aldursgreiningu uppfylli allar kröfur sem gerðar eru og að borin sé virðing fyrir réttindum þess sem undirgengst rannsóknina.
Tannlæknadeild Háskóla Íslands eina opinbera stofnunin hér á landi sem veitir tannlæknaþjónustu og hefur með höndum kennslu og rannsóknir í tannlæknisfræðum. Hún er því eina opinbera stofnunin sem getur annast framkvæmd aldursgreininga út frá tannþroska.“
Hvernig er starfsumhverfið á Alþingi?
„Starfsumhverfið er skemmtilegt en auðvitað er það líka mjög sérstakt. Það er allt öðruvísi að mæta á svona vinnustað þar sem vinnuumhverfið er til dæmis þingnefnd og þú ert í meirihluta þar að vinna með ákveðnu fólki en aðrir að vinna að vissu leyti gegn þér. Samskiptin og vinnan í nefndum þingsins komu mér þó skemmtilega á óvart, þar er mikið unnið saman og mörg mál afgreidd í breiðri samstöðu. Ég hef gaman af því að vinna með ólíku fólki og á auðvelt með að vera í samskiptum við fólk þótt ég sé ekki alltaf sammála því. Það er lykilatriði. Það er líka mikilvægt að takast á um pólitíkina til að ná fram sem bestum niðurstöðum og árangri fyrir samfélagið.
Vinnuumhverfið sjálft er þannig að það eru mismiklir álagspunktar. Það er mikil vinna þegar þingið er á fullu og maður er oft lengi fram eftir, síðan eru hlé sem maður nýtir til að undirbúa mál og hitta fólk til að auka þekkingu sína á ýmsum málaflokkum. Maður er sífellt í samskiptum við fólk og ég nýt þess að heyra sögur af fólki og heyra hvað við getum gert til að gera líf þeirra betra, hvort sem það er að eignast sitt eigið heimili eða halda eftir meira af peningnum sínum á launaseðlinum svo tekin séu dæmi. Hvað sem er, þá erum við að fást við líf fólks og það er afar gefandi verkefni.“
Nærðu almennt að aðskilja einkalífið frá stjórnmálunum?
„Það er vissulega ákveðinn fórnarkostnaður sem fylgir því að vera í stjórnmálum, til dæmis sá að það er stundum erfitt að aðskilja einkalífið og opinberu persónuna. Það gengur öllu jöfnu vel en ég gef mig aftur á móti alla í þetta starf. Ég er ein og barnlaus og hef möguleika á að nýta tímann minn afar vel. Auðvitað eru mörg störf þannig en starfið þitt er um leið þín persóna. Þú ert bara að reka fyrirtæki sem heitir Áslaug Arna og það fer eftir því hvernig þú stendur þig hvernig þessu fyrirtæki mun vegna.
Það er þó ekki endilega gott að vinna of mikið og þú þarft að setja þér mörk um að vera stundum bara heima og gera ekki neitt, jafnvel að kveikja á þessu sjónvarpi sem ég á en nota sjaldan. Þú verður einhvern veginn að passa upp á sjálfan þig en á sama tíma að gefa þig allan í verkefnið. Það er ákveðin kúnst. En eftir rúm þrjú ár í stjórnmálum er ég komin með ákveðið jafnvægi þar sem ég er sátt.“
Þú hlýtur að vera undir miklu álagi, hvað finnst þér best að gera til að slaka á?
„Ég passa mig á að hreyfa mig nokkrum sinnum í viku. Þú hugsar minna um vinnuna þegar þú ert að hreyfa þig og færð góða orku. Svefn er samt alltaf í forgangi. Ég hef kynnst því að ég virka ekki jafn vel þegar ég sef lítið og ég næ ekki jafn miklum árangri þegar ég sef illa. Þú getur alveg unnið yfir þig og verið þreyttur í einhverja daga eða vikur en það gengur ekki til lengdar. Svefn er algjört lykilatriði og ég hef sett hann í forgang hjá mér þó svo að það sé oft freistandi að vaka lengur eða vakna fyrr til að ná að gera aðeins meira. Þá verður maður að passa sig á því hvernig maður forgangsraðar hlutum og þú kannski nærð að gera miklu meira daginn eftir af því þú ert vel hvíldur. Síðan finnst mér best að fara upp í sumarbústað að slaka á. Þar er bara allt annað andrúmsloft heldur en heima hjá mér og í vinnunni.”