World Class opnar á háskólasvæðinu

Jóna Þórey segir komu heilsuræktar í Grósku stuðla að aukinni þjónustu fyrir stúdenta sem komi daglega á háskólasvæðið. Stúdentablaðið/Unsplash

Jóna Þórey segir komu heilsuræktar í Grósku stuðla að aukinni þjónustu fyrir stúdenta sem komi daglega á háskólasvæðið. Stúdentablaðið/Unsplash

Í októbermánuði bárust þær fréttir að World Class muni opna nýja heilsuræktarstöð á háskólasvæðinu í mars 2020. Stöðin verður staðsett í Grósku, nýbyggingu Háskóla Íslands í Vatnsmýrinni. Hún verður á jarðhæð Grósku, en samkvæmt heimasíðu World Class verður þar fullbúinn tækjasalur, hjólasalur, heitur hóptímasalur og almennur hóptímasalur. Bæði heitur og kaldur pottur verða í stöðinni auk gufu og sánu. 

Hagsmuna stúdenta verði gætt

Jóna Þórey Pétursdóttir, forseti Stúdentaráðs, fagnar komu stöðvarinnar á háskólasvæðið og leggur áherslu á að hagsmuna stúdenta verði gætt þegar kemur að verðlagningu: „Við á skrifstofu Stúdentaráðs höfum átt í samskiptum við fulltrúa Grósku í aðdraganda þessa máls. Í því ferli sáum við að af stóru líkamsræktarkeðjunum er World Class með lægsta nematilboðið en ég vil gera enn betur. Því ræddi ég við rektor um mikilvægi þess að stöðin verði sem aðgengilegust öllum, óháð aðstæðum á borð við fjárhag. Fyrstu viðbrögð frá World Class um viðræður vegna þessa hafa verið jákvæð svo ég get ekki vonað annað en að það gangi vel í framhaldinu.“

Sjálfbærara háskólasamfélag

Jóna segir komu heilsuræktar í Grósku stuðla að aukinni þjónustu fyrir stúdenta sem komi daglega á háskólasvæðið. Þá muni þörf á einkabílnum minnka í kjölfarið og umhverfi stúdentagarðanna verða meira aðlaðandi: „Ég tel þetta vera lið í að gera háskólasamfélagið sjálfbærara. Það er mikilvægt að hægt sé að sækja helstu þjónustu í nærumhverfið og þetta er einn liður í því. Það nær ekki aðeins til stúdenta heldur starfsfólks líka og því taldi ég sjálfsagt að kanna áhuga rektors á að vinna saman að því að tryggja öllum háskólaborgurum hagstæð kjör í heilsuræktina.“ 

HáskólinnRitstjórn