Hagnýt ráð fyrir BA-skrif

„Stúdentar ættu að líta á BA-ritgerðina sem mörg lítil skref í átt að ákveðnu markmiði frekar en eitt stórt stökk.“ Stúdentablaðið/Unsplash

„Stúdentar ættu að líta á BA-ritgerðina sem mörg lítil skref í átt að ákveðnu markmiði frekar en eitt stórt stökk.“ Stúdentablaðið/Unsplash

Þýðing: Katrín le Roux Viðarsdóttir

Ritgerðarskrif geta reynst stúdentum bæði flókin og tímafrek. Það er auðvelt að fresta skrifum en sjaldan hjálplegt. Það eitt að hugsa um BA-ritgerðarskrif getur verið ógnvekjandi og frestunaráráttan tekur oftar en ekki völdin. Í stað þess að þrífa eldhúsið klukkustundum saman, taka til í fataskápnum eða pússa alla spariskóna er nauðsynlegt að byrja skrifin tímanlega.

„Byrjaðu snemma, jafnvel þó þú sért ekki tilbúin/n/ð, og endurskoðaðu svo,“ er eitt af ráðum Jóhannesar Gísla Jónssonar, prófessors í íslenskri málfræði við HÍ og umsjónarmanns Ritvers Hugvísindasviðs (www.ritver.hi.is). Það segir sig sjálft að því fyrr sem byrjað er á ritgerðinni, þeim mun minna verður stressið og kvíðinn í kjölfarið. Nánast allir háskólanemar eru meðvitaðir um skiladag ritgerða og vita að það væri betra að byrja fyrr en síðar. Það getur hins vegar verið erfitt að komast af stað, svo hvers vegna ekki að byrja tveimur vikum fyrir skil? Eða, þegar kemur að BA-ritgerðinni, einu misseri fyrir skil?

Hvernig er best að byrja á BA-ritgerð?

BA-ritgerðir eru yfirleitt í kringum þrjátíu blaðsíður. Þess vegna er mikilvægt að velja viðfangsefni sem þér þykir áhugavert en einnig efni sem þú getur fundið nægar heimildir um. Láttu hugann reika, hugsaðu um það sem þú hefur lært í tímum og punktaðu niður þau atriði sem vöktu áhuga þinn.

Þegar þú hefur mótað þér hugmynd um viðfangsefni ritgerðarinnar er kominn tími til að hafa samband við heppilegan leiðbeinanda. Ef þú átt í erfiðleikum með að velja efni getur leiðbeinandinn þinn líka hjálpað þér að fá hugmyndir. Einfaldast er að senda póst en þú getur líka talað við kennarann þinn eftir kennslustund og athugað hvort hann/hún/hán sé laus og telji sig hafa næga þekkingu á efninu. Ef kennarinn sem þú hefur augastað á er ekki að kenna þér er yfirleitt hægt að mæta í viðtalstíma á skrifstofu viðkomandi. Sumir kennarar eru vinsælli en aðrir og því er mikilvægt að spyrja fyrr en seinna. 

Ritferlið

Viðfangsefni og leiðbeinandi - tékk! Þá er kominn tími til að ákveða reglulega fundi með leiðbeinanda og byrja á rannsóknarvinnu. Það fer eftir hefðum á þínu fræðasviði en yfirleitt er auðvelt að setja upp einfalda uppbyggingu ritgerðarinnar. Því ítarlegri sem efnisgrind ritgerðarinnar er, þeim mun auðveldari verður rannsóknarvinnan og skrifin. Samkvæmt Jóhannesi Gísla er ekki endilega skynsamlegt að lesa allt sem til er um efnið áður en hafist er handa við skrifin þar sem góðar hugmyndir gætu týnst í því ferli. Það getur verið hjálplegt að byrja bara og skrifa það sem kemur fyrst upp í hugann. Þú getur alltaf eytt því út, en þú gætir líka fengið snilldarhugmynd.

Þá segir Jóhannes Gísli að háskólanemar eigi það til að hafa of miklar áhyggjur af heimildaskráningu. Vissulega skiptir miklu máli að fara rétt með heimildir og vísa til þeirra eftir ákveðnum reglum en ekki missa þig í algjörum smáatriðum. Það er góð regla að vista allar upplýsingar um heimildir um leið og þú lest þær. Það sparar bæði tíma og er ómetanlegt fyrir skipulag og uppbyggingu.

Þá eru algeng mistök hjá stúdentum að nefna nöfn eða kenningar fræðimanna til þess eins að ganga í augun á leiðbeinandanum eða væntanlegum lesendum. Ef þú ætlar ekki að fjalla um kenningar Noams Chomsky eða hugmyndir hans um eðli mannlegs máls er líklega óþarfi að nefna hanní ritgerðinni. Það getur jafnvel komið þér í koll og látið líta út fyrir að þú hafir ekki nægan skilning á þessum hugmyndum.

Að lokum er mikilvægt að hafa í huga hver markhópurinn er. Að vera meðvitaður um væntanlega lesendur er lykilatriði í góðri BA-ritgerð. Að mati Jóhannesar Gísla ætti BA-ritgerð fyrst og fremst að vera skrifuð fyrir aðra nemendur: „Þau ættu að geta lesið og skilið ritgerðina og jafnvel lært svolítið af henni.“

Þú ert ekki ein/n/tt!

Allir geta fengið ritstíflu eða kvíða, jafnvel þaulreyndir pennar. Hugsaðu bara um alla hina sem eru að skrifa BA-ritgerð á sama tíma og þú. Þú ert ekki í þessu ein/n/tt og það er ekkert að því að gera stutt hlé á ritgerðaskrifum, að því gefnu að pásan sé ekki of löng. Nokkurra daga hlé til að íhuga viðfangsefnið getur gert þér gott. „Stúdentar ættu að líta á BA-ritgerðina sem mörg lítil skref í átt að ákveðnu markmiði frekar en eitt stórt stökk,“ segir Jóhannes Gísli. Tæknilega séð hefur þú fjóra mánuði til að skrifa, eða 120 daga, og ritgerðin er um þrjátíu blaðsíður. Þá þarftu ekki að skrifa nema eina blaðsíðu á dag á fjögurra daga fresti. Hljómar vel, ekki satt?

Ef þú kemst ómögulega úr frestunarhugarfarinu er hægt að leita annarra leiða. Oft getur hjálpað að ræða við jafningja eða fjölskyldumeðlimi en leiðbeinandinn þinn er líka örugglega meira en til í að koma þér af stað. Þú getur spurt hann/hana/hán um góð ráð og leiðbeiningar og fengið innblástur. Þá er alltaf hægt að kíkja í ritverin.

Ritver

Hvort sem þú þarft hjálp við sniðmát, heimildanotkun eða rannsóknarvinnu verður þú alltaf reynslunni ríkari við að heimsækja ritverin. Starfsfólk í ritverum Hugvísindasviðs og Menntavísindasviðs er allt af vilja gert til að aðstoða þig við alls kyns vandamál sem tengjast skrifunum. Leitaðu bara að „Ritver HÍ“ á Google og bókaðu tíma eða kíktu við á Þjóðarbókhlöðunni eða í Stakkahlíð. Það skiptir engu máli hversu langt í ritferlinu þú ert komin/n/ð. Svo er vefsíðan ritun.hi.is einstaklega gagnleg við ritgerðarskrif. Gangi þér vel!