Skammtafræði tónlistarinnar - Tangerine Dream
Elektróníska hljómsveitin Tangerine Dream kom nýlega í sína fyrstu heimsókn til Íslands og hélt tónleika fyrir fullu húsi í Gamla bíói. Tónleikarnir voru aðalviðburður tónlistarhátíðarinnar Extreme Chill Festival og fóru fram þann 14. september síðastliðinn. Hljómsveitin var stofnuð í Þýskalandi árið 1967 og er talin til helstu frumkvöðla raftónlistarinnar. Á þessum rúmu 50 árum hefur hún verið mjög afkastamikil, gefið út yfir 150 frumsamdar plötur, samið tónlist fyrir fjölda kvikmynda og sjö sinnum verið tilnefnd til Grammy-verðlaunanna.
Hugsjónamaðurinn Edgar Froese
Hljómsveitin var stofnuð af hinum þýska Edgar Froese, en hefur í gegnum árin oft skipt um meðlimi. Edgar mótaði stefnu sveitarinnar og var helsti lagasmiður hennar, allt þar til hann lést árið 2015. Núverandi meðlimir hljómsveitarinnar, þau Thorsten Quaeschning, Ulrich Schnauss og japanski fiðluleikarinn Hoshiko Yamane, hafa fylgt tónlistarsýn Edgar eftir og nýtur hljómsveitin enn geysimikilla vinsælda um allan heim. Í gegnum árin hefur hljómsveitin verið ólíku tónlistarfólki innblástur, þar á meðal Rammstein, David Bowie og Björk Guðmundsdóttur.
Myndlistarmaðurinn Bianca Froese-Acquaye, ekkja Edgar Froese, er umboðsmaður hljómsveitarinnar. Blaðamaður Stúdentablaðsins ræddi við hana á síðasta degi hennar í Reykjavík.
Persónulegt ferðalag hlustandans
,,Tónlist Tangerine Dream skapar sérstakt andrúmsloft sem framkallar myndir í huga áheyrenda,“ segir Bianca. ,,Hún skilur eftir svo mikið pláss fyrir þínar eigin hugmyndir, hugsanir og drauma. Þetta er mjög sérstök tónlist, af því að hún er ekki ýtin, heldur kveikir á þínu eigin persónulega myndræna ferðalagi.“
Bianca segir þessa skoðun algenga meðal aðdáenda Tangerine Dream og að tónleikum þeirra sé gjarnan lýst sem eins konar hugleiðslu. Í Gamla bíói voru tónleikagestir leiddir inn í annan heim með hjálp stafrænnar hreyfimyndará skjá fyrir ofan sviðið. Tónlistin er einstaklega myndræn, sem er ástæða þess hve oft hún hefur verið notuð í kvikmyndir.
„Á tónleikunum var ekkert hlé og lítil sem engin þögn gerð á milli laga, heldur flæddu þau hvert inn í annað. Hugmyndin er sú að hlustendur geti notið hugleiðslunnar án truflunar, til að þeir komist í flæði og fái heildstæða upplifun af tónleikunum,“ segir Bianca.
Egóið þurrkað út
Stofnandinn Edgar Froese lagði ríka áherslu á að fylgja sinni eigin persónulegu heimspeki. Hann taldi meðal annars að tónlist Tangerine Dream ætti að vera hafin yfir flytjendur hennar. Sú áhersla lifir greinilega enn þar sem flytjendurnir ávörpuðu salinn ekki fyrr en undir lokin og þá einungis til að þakka stuttlega fyrir sig. Á fyrri tónleikum hljómsveitarinnar hefur þessi hugmynd gengið svo langt að flytjendur sneru beinlínis baki í áhorfendur.
Bianca telur velgengni hljómsveitarinnar vera sterkri heimspekisýn Edgar að þakka. „Hann stofnaði hljómsveitina og fylgdi alltaf sinni sérstöku sýn. Hann var ekki síður heimspekingur en tónlistarmaður og íhugaði allt á djúpan hátt. Hann leit á sig sem miðil sem fengi hugmyndir og umbreytti þeim í tónlist. Hann hafði mikinn áhuga á ólíkum trúarbrögðum, sen-hugmyndafræði, dulspeki og andlegum málum. Ég held að þessi dýpt lifi áfram í tónlistinni,“ segir Bianca.
Unnið með menningararfinn: Frá Dante til James Joyce
Edgar var trúr sinni persónulegu sýn alla ævi og lagði áherslu á dýpri merkingu á bak við tónlistina. ,,Ef þú skoðar lagatitlana eru margir þeirra hlaðnir dýpri merkingu. Plöturnar taka líka margar á ákveðnu viðfangsefni. Til dæmis hefur Edgar unnið með Kastalann eftir Kafka, Finnegans Wakeeftir James Joyce, verk Gustav Meyrink, Edgar Allan Poe og Guðdómlega Gleðileikinn eftirDante. Í Dante-þríleiknum unnum við saman, hann samdi tónlistina og ég málaði 16 málverk sem voru meðal annars notuð á plötuumslögin. Við héldum Dante-tónleika í leikhúsi í Þýskalandi og þá voru málverkin til sýnis í forsalnum. Þetta var mjög skemmtileg samvinna.“
Það kann að koma einhverjum á óvart, en tónlist Tangerine Dream sækir einnig innblástur í heim klassískrar tónlistar. Meðal þeirra tónskálda sem sett hafa mark sitt á hljómsveitina má nefna György Ligeti, Johann Sebastian Bach, Maurice Ravel og Arcangelo Corelli.
Skammtafræðin túlkuð í tónum
Tangerine Dream hefur á löngum ferli gengið í gegnum ólík tímabil. Á síðustu æviárum Edgars átti skammtafræði þó hug hans allan. Bianca segir hann hafa heillast af þeirri hugmynd að túlka vísindi skammtafræðinnar með tónlist.
„Sú vísindalega þekking sem við höfum á skammtafræði í dag er stórbrotin. Ef þú virkjar einn orkuskammt hér, getur það haft áhrif á annan orkuskammt í hundrað þúsund ljósára fjarlægð, svo að það er tenging á milli þessara tveggja orkuskammta. Einstein vissi strax á sjötta áratugnum að skammtafræði væri einhvers konar galdur. Og nú hafa vísindamenn sannað að það er satt! Edgar varð svo heillaður þegar hann heyrði þetta og hugsaði: „Ég verð að gera tónlist úr þessu.“ Og þannig fékk hann hugmyndina að nýju tímabili í sögu Tangerine Dream, hinum svokölluðu skammtafræðiárum, sem hófust 2014.“
Hljómræn þáttaskil
„Upp frá því vildi Edgar ekki lengur semja fyrir hefðbundin hljóðfæri heldur átti öll tónlistin að verða stafræn,“ segir Bianca. ,„Áður vorum við með gítarleikara, slagverksleikara og saxófónleikara, en nú vildi hann endurvekja hljóðgervla áttunda áratugarins því honum fannst sá hljómur eiga best við nýja tímabilið.“
Afrakstur skammtafræðitímabilsins er platan Quantum Gate sem kom út árið 2017, tveimur árum eftir andlát Edgars. „Við erum enn á skammtafræðiárunum,“ segir Bianca. ,,Við vitum ekki hvaða tímabil mun þróast eftir það.“
Íslendingar með góðan tónlistarsmekk
„Ég var mjög forvitin að sjá hvernig tónleikunum yrði tekið hér, af því að ég vissi að Íslendingar væru mjög músíkalskir,“ segir Bianca. „Það eru svo margar góðar og framsæknar hljómsveitir frá Íslandi. Viðbrögðin fóru fram úr vonum mínum, þau voru frábær. Það er greinilegt að þið kunnið að meta góða tónlist.“
Bianca segist vera mjög opin fyrir því að koma aftur til Íslands og telur tónleika í Hörpu spennandi næsta skref.
Tónleikaferð um Evrópu
Það er nóg um að vera hjá Tangerine Dream á næstunni. „Við leggjum í stóra tónleikaferð í október, byrjum í Prag og förum þaðan til Berlínar, Varsjár, Hollands, Litháens, Lettlands, Stokkhólms, Oslóar, Valencia, Madríd og Helsinki. Allt er þetta á tveimur vikum, svo það er nóg fram undan. Í janúar á næsta ári opnar svo sýning um Tangerine Dream í Barbican Centre í London.“
Dæmi um kvikmyndir, þætti og tölvuleiki sem nota tónlist Tangerine Dream. Listinn er langt frá því að vera tæmandi:
Sorcerer (1977)
Thief (1981)
The Keep (1983)
Risky Business (1983)
Firestarter (1984)
Legend (1985)
Miracle Mile (1988)
Grand Theft Auto V (2013)
Stranger Things (2016-2017)
Black Mirror: Bandersnatch (2018)