Njóttu þess að vera í námi
Grein eftir Kristjönu Mjöll Sigurðardóttur, náms- og starfsráðgjafa við HÍ
Það eru forréttindi að stunda háskólanám, ekki síst við jafn virtan skóla eins og Háskóla Íslands. Nemendur hafa beinan og óbeinan aðgang að bestu sérfræðingum og fræðimönnum á sínu sviði, sem margir hverjir eru fremstir meðal jafningja á heimsvísu.
Nemendur Háskóla Íslands hafa einnig góðan aðgang að ýmiss konar stoðþjónustu. Hjá Náms- og starfsráðgjöf stendur nemendum til boða margþætt þjónusta og úrræði. Við hjá NSHÍ erum til staðar fyrir nemendur og erum reiðubúin að sinna stórum sem smáum erindum. Við hvetjum nemendur til að leita til NSHÍ fyrr en síðar. Ekki vera ein/n/tt með hugsunum þínum, hvað þá ef þú ert með áhyggjur. Láttu sjá þig.
Í Háskóla Íslands er einnig gott aðgengi að ýmiss konar klúbbum, nemendafélögum, íþróttaaðstöðu o.s.frv.
Það er á ábyrgð nemenda að stunda námið samviskusamlega og hafa bæði gagn og gaman af. Kröfurnar eru miklar og oft er lítill tími aflögu fyrir krefjandi verkefni. Þess vegna er mikilvægt að hafa yfirsýn yfir það sem framundan er. Tímastjórnun er sterkur liður í því að hafa yfirsýn og skipulag dregur úr kvíða og eykur vellíðan. Öllum líður betur þegar þeir vita nokkurn veginn hvaða verkefni liggja fyrir, hve langan tíma þau taka og hvenær þeim muni ljúka. Þegar nemendur skipuleggja tíma sinn á skynsaman hátt kemur oft í ljós að það er heilmikill tími aflögu bæði til að ljúka verkefnum með sómasamlegum hætti og til að sinna öðru sem ekki snertir háskólanámið.
Til að njóta þess að vera í námi þá þarf nemendum að líða vel. Nemendur geta í flestum tilfellum haft töluverð áhrif á eigin líðan og borið þannig ábyrgð á eigin vellíðan. Það eru ýmsar ódýrar og einfaldar leiðir sem hægt er að fylgja til þess að líða vel.
Á vefsíðunni heilsuvera.is segir að jákvæð hugsun og viðhorf til lífsins séu grunnurinn að vellíðan. Heilsuvera.is er vefur fyrir almenning um heilsu og áhrifaþætti hennar. Um er að ræða samstarfsverkefni Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Embættis landlæknis.
Markmið síðunnar er að koma á framfæri til almennings áreiðanlegri þekkingu um þroska, heilsu og áhrifaþætti heilbrigðis.
Þær fimm leiðir sem talað er um að færi okkur í átt að vellíðan má auðveldlega setja í víðara samhengi og nota um nemandann:
Myndaðu tengsl
Hreyfðu þig
Taktu eftir
Haltu áfram að læra
Gefðu af þér
Auk þessara fimm leiða má nefna að jákvætt viðhorf til náms og verkefna er mjög mikilvægt veganesti. Viðhorf eru okkar eigin hugarsmíð, ekki ástand sem aðrir setja okkur í. Jákvætt hugarfar er líklegra til að skila árangri þegar unnið er að krefjandi verkefnum, heldur en neikvætt. Það ganga allir einhvern tímann í gegnum erfiða tíma og krefjandi verkefni. Þau sem tileinka sér jákvætt hugarfar og viðhorf eru líklegri til að nýta sér reynslu sína á uppbyggilegan og styrkjandi hátt. Þau verða reynslunni ríkari. Finndu ánægjuna í því að sinna náminu, sem þú valdir, á jákvæðan hátt.
Góðar kveðjur frá Náms- og starfsráðgjöf HÍ.