Hvað er málið? — Mál beggja kynja
Um aldamótin seinustu birti Kvennakirkjan á Íslandi nýstárlega þýðingu á völdum köflum úr Biblíunni þar sem karlkyn gegnir ekki lengur þeirri hlutleysisstöðu sem það hefur haft í íslensku fram að þessu. Þar er hvorugkyn fleirtölu notað í hvívetna ef um hóp er að ræða. Í þýðingunni stendur meðal annars: „Þau sem trúa á mig munu lifa, þótt þau deyi“; í stað „Sá sem trúir á mig mun lifa, þótt hann deyi“.
Skiptar skoðanir
Ýmsir málfræðingar hafa tjáð sig um afstöðu Kvennakirkjunnar og biblíuþýðingu hennar og mótmælt þessum skilningi á málfræðilegu karlkyni íslenskunnar sem þeir benda á að greini sig frá líffræðilegu karlkyni á margan hátt. Á Vísindavefnum greinir Guðrún Kvaran frá því að með málfræðilegu kyni sé átt við „það kyn sem ákveðin orð hafa í málvitund fólks en með raunkyni, sem einnig er nefnt líffræðilegt kyn, [sé] aftur á móti átt við kyn þess sem vísað er til“. Þessi kyn samræmast hins vegar ekki alltaf. Til að mynda er orðið krakki karlkynsorð þó að það sé notað um bæði stelpur og stráka og orðið skáld er hvorugkynsorð þótt það eigi við um karla og konur. Málfræðilegt karlkyn getur þannig vísað til kvenna, samanber starfsheitið hjúkrunarfræðingur og kennari, en þessi störf eru vinsælli meðal kvenna en karla. Orðið kvenmaður hefur einnig málfræðilegt karlkyn þó svo að átt er við um konu.
Auður Eir Vilhjálmsdóttir, prestur og stofnandi Kvennakirkjunnar, hefur verið ötul við að útskýra afstöðu Kvennakirkjunnar um mál beggja kynja og hefur margsinnis andmælt því að íslenskt karlkyn sé hlutlaust. Hún hefur jafnframt mótmælt því að hvorugkynið sómi sér verr en karlkynið í rituðu máli og sakað málfræðinga um að skipa mannréttindi undir íslenska málfræði með gagnrýni sinni. Auður hefur einnig ítrekað að Kvennakirkjan vilji ekki að hætt sé með öllu að nota karlkynsorð um konur í íslensku. Kvennakirkjan sé aðallega ósátt við hlutleysisstöðu karlkynsins en telji karlkynsorð eins og Íslendingar enn nothæf um bæði konur og karla.
Óheppileg breyting
Guðrún Þórhallsdóttir, dósent í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, telur breytingartillögu Kvennakirkjunnar um margt óheppilega. Í grein sinni Hvað mælir gegn „máli beggja kynja“? (sem birtist í Skími árið 2005) vekur hún athygli á aldalangri hefð þess að málfræðilegt karlkyn hafi hlutleysishlutverk í íslensku. Karlkynið hafi ævinlega verið notað þegar talað er um fólk á almennan hátt en hvorugkyn fleirtölu þegar rætt er um blandaðan hóp karla og kvenna. Útvíkkað málfræðilegt hlutverk hvorugkyns í máli beggja kynja veldur því hins vegar að karlkynið hættir að vera hlutlaust. Það kæmi sér illa í umfjöllun þar sem óvíst er um kyn einstaklinga í hópi. Sem dæmi mætti taka frétt þar sem fram kæmi að „fjögur“ væru látin af slysförum. Þar væri allur vafi tekinn af um kyn hinna látnu því að einungis gæti verið um hóp karla og kvenna að ræða.
Þá segir Guðrún stefnu Kvennakirkjunnar um breyttan orðaforða vera af allt öðrum toga. Fólk á öllum aldri geti tileinkað sér ný orð úr opnum orðflokkum (það er nafnorð, sagnorð, lýsingarorð og tíðaratviksorð). Skoðanir fólks á því hvort nota eigi orð eins og þingkona eru því í raun bara smekksatriði. Fullorðnum reynist aftur á móti nær ómögulegt að venjast kerfisbreytingum á við þrengra notkunarsvið málfræðilegs karlkyns og útvíkkað hlutverk hvorugkyns. Slíkar breytingar geta valdið misskilningi og samskiptaörðugleikum hjá málnotendum. Gæta verður samræmis í málinu svo að eldri kynslóðir Íslendinga skilji þá yngri. Auk þess er óvíst hvert breytingarnar myndu leiða og hve lengi þær væru að ganga yfir. Jafnvel þó að unnið væri kerfisbundið að því að laga íslensku að máli beggja kynja kynni íslenskan að þróast á allt annan máta en stefnt er að. Það er einfaldlega of erfitt að koma málinu í ákveðinn farveg enda málnotendur of margir og ólíkir til að hægt væri að stýra máltilfinningu hvers og eins.
Íslenska nú til dags
Þessa grein ber þó ekki að skilja sem svo að allir málfræðingar séu á einu máli um breytingar Kvennakirkjunnar. Með tilkomu kynhlutlausa persónufornafnsins hán hefur mál beggja kynja orðið enn meira áberandi en áður og jafnframt tekið á sig nýja mynd. Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, vísaði til að mynda nýverið í umræðu um hinsegin málfar og sagði að hver Íslendingur ætti rétt á að fara eftir eigin máltilfinningu og beygja í samræmi við hana. Í kjölfar þýðingaheftis Kvennakirkjunnar og deilna um mál beggja kynja kom út ný íslensk þýðing á Biblíunni árið 2007 (Biblía 21. aldar) þar sem sums staðar var reynt að mæta kröfum Kvennakirkjunnar um mál sem betur hæfir körlum og konum. Auk þess má nefna að í íslenskum fréttaflutningi er hvorugkyn fleirtölu stöku sinnum notað um hópa þó svo að óvíst sé um kyn einstaklinga innan hópsins. Þannig virðast Íslendingar að einhverju leyti hafa aðlagast breyttu málfari, en ljóst er að mál beggja (eða allra) kynja verður rökrætt um ókominn tíma.
Höfundur: Oddur Snorrason, formaður Mímis, félags stúdenta í íslenskum fræðum og almennum málvísindum við Háskóla Íslands.