„Bestu teymin eru fjölbreytt teymi“
Ada, hagsmunafélag kvenna í upplýsingatækni við Háskóla Íslands, var stofnað á dögunum, en þann 11. september var stofnfundur og þar með kosið í fyrstu stjórnina. Stjórnin er fremur stór, en hún samanstendur af 11 konum sem allar eiga það sameiginlegt að vera nemar í tölvunarfræði eða hugbúnaðarverkfræði við Háskóla Íslands. Þær Sara Björk Másdóttir, formaður Ada, og Kristjana Björk Barðdal, varaformaður, hittu meðlim ritstjórnar Stúdentablaðsins og ræddu um tilgang og starfsemi félagsins, ásamt stöðu kvenna í upplýsingatækni almennt.
Ada er fyrir öll þau sem stunda nám innan verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands en þó er félagið helst hugsað sem stuðningsnet fyrir konur í tölvunarfræði og hugbúnaðarverkfræði. Konum í deildinni hefur farið fækkandi á milli ára, árið 2018 voru konur aðeins 25% nýnema í tölvunar- og hugbúnaðarverkfræði en 28% árið á undan. „Stelpur eru mikið að detta úr náminu. Við erum að reyna að finna út úr því afhverju það gerist, og hvert þær fara í staðinn. Til að sporna við brottfallinu er mikilvægt að það sé stuðningsnet til staðar og vettvangur til að kynnast öðrum í sömu sporum.“
Sara og Kristjana segja því mikilvægt að halda í þær konur sem hefja nám við þessi upplýsingatæknitengdu fög og það að vera með góðan hóp sé undirstöðuatriði til að komast í gegnum námið. Þess vegna varð Ada til, til að styðja við konur sem eru að læra upplýsingatæknitengd fög innan Háskóla Íslands.
Félagið er stofnað í kjölfar hvatningar frá félögunum VERTOnet, hagsmunasamtökum kvenna í upplýsingatækni í atvinnulífinu, og /sys/tur, hagsmunafélagi kvenna í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík. „VERTOnet hefur samband við nemendafélagið okkar og ýtir undir það að félagið verði eins konar systurfélag í nánum tengslum við /sys/tur,“ segir Kristjana. Félögin þrjú beita sér öll fyrir því að skapa vettvang fyrir konur í upplýsingatækni, bæði innan atvinnulífsins sem og á öllum menntastigum. Á heimasíðu /sys/tur kemur fram að hlutfall kvenna meðal nýnema í tölvunarfræði í Háskólanum í Reykjavík hafi hækkað úr 18% í tæp 30% frá því félagið var stofnað árið 2013 til ársins 2016. Því er ljóst að starfsemi félagsins er að skila góðum árangri.
KÞBAVD
Ada leggur mikið upp úr því að draga fram fyrirmyndir sem geta verið öðrum konum hvatning til að sækja um nám í upplýsingatækni og efla áhuga þeirra á upplýsingatæknitengdum fögum. Það er því eitt af markmiðum félagsins. Sara og Kristjana segja til dæmis allt of mikið um það að hátt settir aðilar innan fyrirtækja, sem oftast nær eru karlmenn, taki á móti hópum í vísindaferðum, „af hverju tölum við ekki við millistéttina í vísindaferðum? Hver er raunverulegur tilgangur vísindaferða?“ Það er mikilvægt fyrir námsmenn sem eru í þann veginn að fara út á vinnumarkaðinn að fá líka að heyra frá millistéttinni innan geirans, fólki í stöðum sem núverandi námsmenn munu starfa við á næstu árum.
Að sögn formanna Ada hallar einnig talsvert á konur í atvinnulífinu í upplýsingatækni. „Maður heyrir oft að konur sæki bara ekki um starfið, þær þurfi bara að vera duglegri að sækja um. En það er svo margt sem hægt er að gera til að uppræta þetta. Það þarf aðallega að gera konur sýnilegri.“ Þær segja þessa stöðu þó vera í sífelldri þróun og að hún sé að breytast. „Það er enginn að reyna að bola konum út úr geiranum, en það er þessi samfélagslega ímynd sem þarf að takast á við, brjóta niður stereótýpuna og sýna fram á að þetta er vinna fyrir hvern sem er.“
Umfjöllun í fjölmiðlum og á opinberum vettvangi hallar einnig iðulega á konur og því skortir yngri konur fyrirmyndir á þessu sviði. Sara og Kristjana telja því mjög mikilvægt að gera konur sýnilegri, bæði innan menntakerfisins sem og á vinnumarkaðnum, „bestu teymin eru fjölbreytt teymi, þau þurfa að endurspegla alla.“
Nafn félagsins er fengið frá stærðfræðingnum Ada Lovelace, en hún er jafnframt sögulega séð talin vera fyrsti forritarinn. „Talandi um fyrirmyndirnar. Hún er í raun fyrst til að sjá möguleikana í forritun, en hún skrifaði flókið stærðfræðiforrit til að reikna út talnarunur,“ segir Sara.
Lærdómskvöld, fyrirtækjaheimsóknir, fræðsluviðburðir
Sara og Kristjana segja ýmislegt vera á döfinni hjá félaginu. Félagið stendur meðal annars fyrir föstum liðum. „Það verða lærdómskvöld einu sinni í viku þar sem félagskonur koma saman og læra, en þetta er líka spurning um að spjalla og hafa gaman. Þá reynir einhver úr stjórninni að mæta, félagskonur geta hjálpast að með lærdóminn og kynnst samnemendum sínum.“
Sara og Kristjana segja aðalmálið vera að hittast í öruggu umhverfi. Þetta er dæmi um innri viðburð sem félagið stendur fyrir, en fleiri slíkir eru til dæmis fyrirtækjaheimsóknir, sem eru eins og vísindaferðir nema kynningin á fyrirtækinu er aðeins persónulegri. „Við leitum eftir reynslusögum frá fólki úr öllum stigum fyrirtækjanna til þess að sjá vinnuumhverfið, hvað fólk í faginu er að gera núna og hvaða möguleikar eru fyrir hendi fyrir okkur að gera eftir nokkur ár.“
Einnig stendur félagið fyrir ytri viðburðum, en þeir eru auglýstir á Facebook-síðu félagsins. Markmið þeirra er að fræða fólk um stöðu kvenna innan upplýsingatæknigeirans og verða þeir viðburðir opnir öllum. Félagið stefnir til að mynda að því að hafa pallborðsumræður eftir áramót, þar sem fólk úr atvinnulífinu er fengið til að tala um þessi mál.
Upplýsingar um ytri viðburði má finna á Facebook-síðu félagsins, Ada - Hagsmunafélag kvenna í upplýsingatækni við HÍ, en þar má einnig finna myndir og upplýsingar um starfsemi félagsins. Efst á síðunni er svo tengill inn í lokaðan Facebook hóp, en þar er innra starfið kynnt fyrir félagskonur. Svo er alltaf hægt að hafa samband í gegnum tölvupóst, ada.felag@gmail.com.
Vonast til að félagið verði síðar lagt niður
Félagið er hugsað sem hvatning fyrir konur til að sækja um upplýsingatæknitengd fög og efla áhuga þeirra á tæknitengdum fögum. „Núna erum við í rauninni að byggja starfið upp, reyna að finna hvað félagskonur okkar vilja gera og hvernig félagið getur gagnast þeim sem best.“ Sara og Kristjana segja jafnframt að til þess að stækka starfið sé stefnan að fá styrki og byggja upp frekara samstarf með fyrirtækjum, en félagið er nú þegar komið í samstarf með öðrum félögum. „Við viljum vera sýnilegar á viðburðum tengdum háskólanum, fá tengingu inn í önnur félög og viðburði þeirra.“
„Það er mikilvægt að öll kyn taki þátt í þróuninni innan upplýsingatækninnar því auðvitað mun framtíðartækni hafa djúpstæð áhrif á samfélagið.“ Að lokum segja þær langtímamarkmið félagsins vera að geta lagt það niður síðar meir, von þeirra sé að tilvera þess verði óþörf því konur verði jafn mikils metnar og karlar innan upplýsingatækninnar.