Kvenusli í Osló og gríma karlfemínistans

Brothættum menntakarlmanninum í mér krossbrá seint í sumar þegar ég las að Háskólinn í Osló ætlaði að sleppa því að syngja Gaudeamus igitur á skólasetningunni. Ég varð svo áhugasamur um þetta að ég reyndi kaffibolla eftir kaffibolla að hefja einhverja umræðu um þetta við alls konar fólk. Þessi aldagamla drykkjuvísa hafði alltaf verið sungin þarna í upphafi skólaárs í Osló en í ár átti að varpa henni fyrir róða. Af hverju? Stutta svarið er femínismi. Og af hverju er mér ekki sama, eins og næstum öllum öðrum? Af því að mér fannst illa vegið að okkur körlunum. Og þetta allt, verandi yfirlýstur femínisti.

Atburðarásin hófst eins og allar góðar sögur: einhver var hneykslaður á Facebook. Inni í einhverjum hópnum fór fólk að ræða textann í Gaudeamus igitur. Það var bent á að í einu erindinu gætti kvenfjandsamlegra viðhorfa. Það þótti ekki sæma nútímalegri menntastofnun og í ljósi þessara umræðna tóku skólayfirvöld sig til og kipptu laginu í heild sinni út úr dagskránni. Og töluðu hvorki við kóng né prest. Né prófessora. Sem urðu reiðir. Fremst meðal hinna reiðu var Vibeke Sten nokkur, latínukennari við háskólann, sem vill svo til að þýddi texta lagsins yfir á norsku. Í hönd fór snörp ritdeila sem virðist hafa tekið enda með úrskurði um að hafa lagið áfram inni í skólasetningarathöfninni. Þó með einni breytingu: þetta erindi verður ekki sungið héðan í frá.

Gaudeamus igitur

Áður en ég hjóla í umrædd kvenfjandsamleg viðhorf, vopnaður fordæmalausri réttvísi, er best að byrja á byrjuninni. Gaudeamus igitur á sögu að rekja til 13. aldar og í handriti frá þeim tíma eru varðveitt annað og þriðja erindi kvæðisins. Fyrsta erindið, sem gefur vísunni nafn sitt, skýtur ekki upp kollinum fyrr en í þýskum skjölum frá 18. öld. Hið sama gildir um fimmta erindið sem olli usla í Osló. Það þýðir að lagið og textarnir sem deilt er um voru sennilega samin af skólamönnum eitthvað á milli 1725-50. Þetta var fyrst um sinn bara hálfgerð drykkjuvísa. En eins og maðurinn á til, beisluðu óprúttnir seinni tíma skólamenn boðskap vísunnar upp á nýtt og léðu henni nýja merkingu. Tilgangurinn var annarlegur: söngurinn varð alþjóðlegur óður til menntunar.

Hann hefur verið sunginn allar götur síðan við hátíðleg tilefni í menntastofnunum víða um (hinn vestræna) heim. Þar á meðal á Íslandi. Þar á meðal þar á meðal í MR, þar sem hann gekk iðulega undir nafninu „Gádinn“. Hann fékk gælunafn; hann var einn af okkur. Þegar ég fylgdist með þessari umræðu í Osló gekk hún mér því að vonum nærri hjarta. Ég hafði vitaskuld orðið var við vissan karllægan undirtón í Gádanum en síður en svo einhverja borðleggjandi kvenfyrirlitningu. Mér hafði frekar bara þótt nokkuð skoplegt að sjá fyrir mér einhverja þýska skólapilta á 18. öld með ölkrúsir, að lofsyngja drengilega lærdómshætti. En barnsleg trú mín um ágæti söngsins stafaði af því að á Íslandi er aðeins fyrsta erindið sungið, af heilum tíu. Ég hafði því aðeins séð glitta í tindinn á ísjakanum en ekki barið augum það skrímsli, sem leyndist undir yfirborðinu.

Er kostur á að kætast við eins svínslegan söng?

Vísan skiptist í tíu jafnlöng erindi. Fyrsta erindið á sér íslenska þýðingu sem er vel þekkt: „Kætumst meðan kostur er...“ Meira er ekki til í íslenskri þýðingu, eftir því sem ég kemst næst. Annað erindi er áfram brýning um að njóta lífsins, því það sé svo stutt. Svipaður tónn er í þriðja erindinu og hið fjórða fer í að dásama akademíuna, kennarana og nemendurna. Það er í fimmta erindi sem textinn afhjúpar sig, hulunni er svipt af kvenhatrinu:

4. Vivat academia!

Vivant professores!

Vivat membrum quodlibet;

Vivant membra quaelibet;

Semper sint in flore.

4. Lifi akademían

Lifi prófessorar

Lifi sérhver nemandi

Lifi allir nemendurnir

Ævinlega blómstri (þessir aðilar)

5. Vivant omnes virgines

Faciles, formosae.

Vivant et mulieres

Tenerae amabiles

Bonae laboriosae.

5. Lifi allar meyjarnar,

indælar, fagrar.

Lifi líka konurnar,

blíðar, elskulegar,

góðar, iðjusamar. (Mín þýðing)

Það hljómar eins og grín að þetta sé kvenfyrirlitning. Ekki er annað að sjá en að konur séu lofaðar hérna í hástert. Það er því freistandi að blása á feminískar upphrópanir. En það væri misskilningur af ásettu ráði. Gætum að samhenginu. Ef við lítum svo á að hvert erindi sé afmörkuð eining sem tjái einhver heildræn skilaboð, þá fattar maður ögn betur hvað gerist á skilum þess fjórða og þess fimmta: konur eru teknar út fyrir sviga. Í fjórða erindi eru nemendur og akademían lofsungin og í því fimmta eru konur svo lofsungnar. Þær þurfa að dúsa í sérstöku erindi en ekki uppi á skólabekk með körlunum. Það er að segja: eitt er akademían, annað er konur.

Önnur rök gegn flutningi Gádans í Osló var tiltekið lýsingarorð í annarri línu umdeilds erindis: þær eru kallaðar „faciles“. Kommon, þýsku háskólastrákar, hugsaði ég, stundum að vera allavega pínu sub rosa. Allir sem hafa lært það latneska tungumál spænsku, þó ekki hafi verið nema í menntaskóla undir leiðsögn einhverrar nikótíntyggjómaddömunnar, vita að á spænsku merkir ‚fácil‘ létt(ur). Þá er kona sem er ‚facilona‘ lauslætisdrós, á spænsku fyrir lengra komna. En hér er sú túlkun falskur vinur: það ætti alls ekki að leggja þennan skilning í orðið „faciles“ í þessu kvæði. Þetta þýðir þarna einfaldlega að vera ljúfur eða indæll. Ég bendi á orðsifjarnar með orðunum: indæll og „facilis“ eru af sama indóevrópska orðstofni. Þetta er germanska hljóðfærslan að vefjast fyrir okkur. Dæll, „facilis“, verður eindæll, verður indæll. Þessi einfalda athugun mín sýknar kvæðið ekki af öllum ákæruliðum en ætti þó að sýna að ekki er allt sem sýnist. Það er ekki verið að kalla þessar meyjar lauslátar.

Gríma sem fellur. Og er sett aftur upp

Þegar ég lagði upp með að skrifa stuttan pistil um þetta mál, vildi ég fyrst tjá hneykslun mína. Hvað er fólk að röfla núna, hugsaði ég, getur það ekki látið rótgrónar hefðir grafkyrrar liggja og helst safna miklu ryki! Svo lagðist ég aðeins yfir þetta, las það sem fólk hafði skrifað um þetta, fór að punkta sjálfur niður hjá mér sitthvað um þetta og viti menn (og konur og, ja, bara flestar lífverur)! Það fóru að renna á mig tvær grímur (og hvað fer karlmanni betur en glæný femínistagríma?). Var kannski bara í himnalagi eftir allt að kippa stöku skrýtnu erindi út úr einhverjum söng frá 18. öld? Þetta sem mér fannst svona mikil vanhelgun á evrópskum menningararfi, var það bara eðlilegt skref í að útrýma óþarfa karlahefðum í háskólum, þar sem konur eru víðast hvar orðnar meirihluti nemenda?

Ég hallast að því. Ég vil allavega frekar fullyrða það en að vera enn annar meðalgreindur bjáni sem kemur ríðandi á hvítum hesti og útskýrir fyrir konum af hverju það er alls ekki verið að útiloka þær með þessu sem þær segja allar að verið sé að útiloka þær með. Það fyndna við hneykslunargirnina, sem mörgum er tíðrætt um, er að enginn er eins hneykslaður og sá sem er að hneykslast á hneykslun annarra. Ég lenti svolítið í því þegar ég hóf að skrifa þennan pistil: mig langaði að sýna hvað það væri gríðarleg aðför að evrópskum akademískum hefðum að skera erindi úr laginu. Svo rann hitt upp fyrir mér: það skiptir bara nákvæmlega engu máli. Ef konur nenna ekki að hafa sérstakt erindi um hvað þær eru blíðar og dælar í skólasöng, hver segir þá að það eigi ekki bara að taka það út? Fara Þjóðverjarnir frá 18. öld að skæla?

Á endanum er menningin mannanna verk. Við ráðum hvaða lög við syngjum rétt eins og hvaða lög við setjum, í hvaða hefðir við höldum og auðvitað hvernig við túlkum hefðirnar okkar. Hér má segja að togist á hugmyndafræði og fagurfræði; hið rétta og hið fagra. Þarna á milli liggur villugjörn slóð. Og Oslóarmenn reyndust að sinni ratvísir um þá refilstigu, með því að halda í hið forna en má út það sem mátti vel missa sín. Við hérlendis þurfum ekki að örvænta um hið sama enda notum við bara fyrsta erindið í þessu lagi. Það er hvort eð er hlægilegt að ímynda sér hinn sjálfsmyndarlausa Háskóla Íslands að syngja skólasöng. En í svona málum er ekkert eitt rétt og eitt rangt. Þetta er eilíf umræða, þessi um kynin. Og ég femínistinn iða í skinninu, ég er svo spenntur fyrir næstu lotu.

SjónarmiðSnorri Másson