Hollráð fyrir fátæka námsmenn : 10 ráð til að geta lagt fyrir
Það eru nýrri hlutir undir sólinni en vandamálið að koma sér í gegnum mánuðinn á námslánum og með himinháa leigu. Þar fyrir utan þarf maður að hafa efni á Októberfest og blessuðum jólagjöfunum. Sterkasti leikurinn, sem margir eru að spila núna, er einfaldlega að búa á Hótel mömmu. Ef það gengur ekki upp lengur má samt alltaf bjóða sér í mat heim. Og til ömmu og afa. Og tengdó. Og til bróður bestu vinkonu hunds nágrannans. Svo er víst ótrúlega sniðugt að hjóla í skólann. Þá þarft ekki að borga strætókort, bifreiðagjöld né bensín. Og ef þú býrð nógu langt í burtu, sparar þú þér líka peninginn sem annars færi í ræktarkort.
Listin að lifa ódýrt er krefjandi og er sjaldnast meðfædd, þó að nokkrir hafi einstakt nef fyrir ódýrum lausnum. Til dæmis er algjörlega nauðsynlegt að kaupa notaðar bækur. Svo eru óskilamunir í geymslum víða um bæ sem tilvalið er að róta í gegnum og vera svo rosa fegin þegar maður finnur eitthvað fallegt eins og að maður hafi saknað þess í ár og öld. Það lærist líka með tímanum að tepokinn nýtist tvisvar og að það sé ódýrara að nota eldhússkærin á hárið en að fara á stofu.
Mörgum getur reynst erfitt að gera sér grein fyrir því hvert peningarnir fjúka. Það getur hjálpað að skammta sér pening til neyslu fyrir mánuðinn eða vikuna. Einnig er gott að borga með reiðufé, þá fær maður betri tilfinningu fyrir því hvað hlutirnir kosta.
Hér koma 10 ráð til þess að gera þér kannski kleift að leggja smá fyrir í hverjum mánuði svo að þú komist einhvern tímann út af leigumarkaðnum.
Elda mikinn mat í einu, frysta afganginn og borða í næstu viku eða taka með í nesti daginn eftir. Svo getur líka verið sniðugt að skiptast á að elda fyrir vinahópinn.
Vera skipu- lagður/lögð/lagt þegar kemur að matarinnkaupum, gera innkaupalista og fara eftir honum. Færri búðarferðir þýða minna keypt af óþarfa.
Vera með „borðaðu mig fyrst“ hirslu í ísskápnum og hafa „taka til í kælinum“ rétt reglulega. Að henda mat er að henda peningum, og það er bara fáránlegt!
Kaupa heilan kjúkling í staðinn fyrir bringur eða lundir og taka kasjúhneturnar í bökunardeildinni í staðin fyrir heilsudeildinni.
Nota hluti (föt, skó, húsgögn o.fl.) lengur og kaupa sjaldnar nýja. Svo að ég vitni í Borgardætur (guilty pleasure):
„Kanna hvað þeir kosta [skórnir], og kannski þá hugsa eitt...
lífið það er ágætt þó að ég kaupi ekki neitt“
Klára snyrtivörur áður en þú kaupir nýjar. Ekki eiga 6 handáburði sem klárast aldrei og taka bara pláss af þínum dýrmætu 37 fm.
Losa sig við líkamsræktarkortið. Þótt að útsýnið sé stundum gott í WorldClass, er það líka mjög fallegt á Esjutoppi.
Muna eftir tímaleysinu, sem við kvörtum svo oft yfir, þegar kemur að því að endurnýja áskrift að sjónvarpsstöðvum sem kosta.
Drekka meira vatn og minna af drykkjum sem þarf að borga fyrir. Vatn kostar ekkert á sama tíma og ein gosflaska á dag kostar ca. 250 kr. (sem gera 91.250 kr. á ári).
Punkturinn sem fylgir með í öllum svona upptalningum: minnka áfengis- og tóbaksnotkun! Gott fyrir budduna, og heilsuna. Fjórir bar bjórar á viku kosta 4000 kr. sem gera 208.000 kr. á ári. Svo ég telji nú ekki upp meðfylgjandi kostnað, eins og leigubílaferðir, skyndibitamat og verkjalyf. Í fyrsta lagi væri betra að kaupa bjórinn í ÁTVR (ca 300 kr/stk) og í öðru lagi, að drekka einfaldlega minna áfengi, læra að skemmta sér edrú.