Beðmál í breyttri borg
Þekkið þið nokkuð þessa tilfinningu að þið getið fundið fyrir því hvað þið hafið þroskast mikið á síðastliðnum árum? Hafið þið einhvern tímann séð mynd eða þætti t.d. frá því þið voruð unglingar og upplifað ákveðna tilfinningu, svo horfiði á þetta aftur og upplifið atriðin allt öðruvísi?
Þannig leið mér þegar ég horfði á Beðmál í borginni aftur nýlega.
Frá því ég var unglingur hef ég dáð þættina Beðmál í borginni (e. Sex and the City). Þetta voru þættir sem fjölluðu um fjórar einhleypar vinkonur. Þær hétu Samantha, Miranda, Charlotte og Carrie. Þessir þættir voru byltingarkenndir á sínum tíma, þættir sem voru frá sjónarhorni kvenna og fjölluðu um hversdagsvandamál þeirra.
Ég og vinkonur mínar höfum oft mátað okkur inn í þessar persónur. Ein vinkona mín er algjör Samantha, hún er mikil ofurkona með sterk gildi, sjálfsörugg og kynglöð. Svo er önnur vinkona mín sem segist vera blanda af Samönthu og Miröndu, hún hefur sterka réttlætiskennd, er kaldhæðin og umhyggjusöm en gífurlega ákveðin.
Ég tengdi mest við Charlotte þegar ég var yngri, rómantísk og bjartsýn en hef með aldrinum tengt meira við Carrie, forvitin um samfélagsleg málefni, tek rómantík með fyrirvara og með skóblæti enda vann ég í skóbúð í tvö ár.
Þættirnir kláruðust 2004 og á síðastliðnum fjórtán árum hefur samfélagið breyst mikið. Félagslegar byltingar hafa komið hver á fætur annarri og tíðarandinn er öðruvísi. Byltingar einsog #metoo, Druslugangan, FreetheNipple, #karlmennskan og margar umræður hafa verið á sveimi um viðhorf gagnvart kynhlutverkum, málefni hinsegin einstaklinga og fjármálalæsi.
Ég ákvað að setja upp gagnrýn gleraugu og horfa aftur á þessa þætti sem ég og vinkonur mínar dýrkum svo mikið og athuga hvað hefur elst vel og hvað ekki. Hér kemur listi yfir það sem hefur elst illa. Spoiler Warning!
Viðhorf til kynhneigðar
Í einum þætti er Carrie að hitta mann, þegar þau ræða um fyrri sambönd nefnir hann tvær konur og einn karlmann, hann er þar af leiðandi tvíkynhneigður. Þetta finnst Carrie óþægilegt og hún lýsir fyrir vinkonum sínum að hún trúi ekki að tvíkynhneigð sé til, Charlotte og Miranda eru sammála henni og finnst bara að fólk eigi annaðhvort að vera gagn- eða samkynhneigt. Í dag er þetta frekar óvinsæl skoðun og myndi gera Carrie erfitt í starfi þar sem hún er kynlífspistlahöfundur og mikilvægt að hún sé upplýst um ýmiskonar kynhneigðir.
Carrie og fjármálin hennar
Carrie lifir mjög dýrum lífstíl, fer í teiti hverja helgi og í nánast öllum þáttum sjáum við hana með Cosmopolitan í hendi, niðri í bæ að skemmta sér í nýjum fötum og dýrum skóm. Það kemur mér á óvart þó hvernig hún hefur efni á þessu þar sem hún skrifar einn pistil á viku í dagblað. Að sjálfsögðu er í lagi að skemmta sér og kaupa sér fallega hluti ef mann langar í, en þegar eyðslan er komin fram yfir hvað einstaklingur þénar er það ekki lengur neitt sérstaklega flott.
Carrie átti heldur engan sparnað og þegar hún og Aidan hættu saman þurfti hún að kaupa hann út úr íbúðinni sinni en þar sem hún var búin að eyða aleigu sinni í skó var hún í slæmum málum. Það pirraði mig þó hvað Carrie var reið útí Charlotte þegar hún var ekki tilbúin að lána henni fyrir útborgun á íbúðinni.
Hrunið sem kom fyrir tíu árum gerði það nauðsynlegt fyrir fólk að staldra aðeins við og skoða fjármál sín og hve mikilvægt það sé að hafa varasjóð ef slys verða á vegi.
Lítil fjölbreytni
Aðalpersónurnar eru fjórar og eru allar konur af efri stéttum. Það sem aðskilur þær mest útlitslega er hárið þeirra. Af öllum mökum sem þær eignast í gegnum sex þáttarraðir eru tveir kærastar blökkumenn, einn kærasti Miröndu og einn Samönthu, og ein kærasta Samönthu var af Suður-Amerískum uppruna. Nú til dags er meiri þrýstingur á skemmtanaiðnaðinn að sýna fjölbreyttari persónur, það yrði örugglega raðað öðruvísi í hlutverk ef þessir þættir væru framleiddir í dag.
Mr. Big
Mr. Big var stóra ást Carrie í gegnum allar seríurnar. Hann var myndarlegur, hávaxinn, sjarmerandi og ríkur. Carrie féll strax kylliflöt fyrir honum. Þegar þau byrja saman fer hún að þrá meiri nánd í sambandi þeirra og hann heldur áfram að valda henni vonbrigðum, það er gegnumgangandi í öllum þáttaröðunum að hann lofi henni að vera betri en gerir það svo ekki og hleypir henni aldrei almennilega að hjartanu sínu. Carrie heldur þó alltaf sambandi við hann og þau eru on/off í langan tíma, þegar þau eru bæði í alvarlegum samböndum halda þau framhjá mökum sínum með hvort öðru. Það er ekki fyrr en í lok þáttanna að Mr. Big sér að sér og eltir Carrie sem var flutt til Parísar með öðrum kærasta. Mr. Big segir svo að það hafi tekið hann langan tíma til að hleypa henni að hjarta sínu en nú væri hann komin og að Carrie sé sú eina rétta.
Fyrst um sinn fannst mér þessi saga á milli þeirra rómantísk og full af trega en það var áður en ég vissi hvernig heilbrigð sambönd virka. Ítrekað sveik hann loforð sín, gerði Carrie óörugga og gerði lítið úr tilfinningum hennar þegar hún var reið.
Ég þakka fyrir umræður sem gagnrýna þetta svo fólk hafi frekar hugrekkið til að ganga frá borði í svona eitruðum samböndum. Ég skil vel að það sé ekki auðvelt að labba frá einhverjum sem þú elskar og átt drauma með en samband þeirra er ömurleg fyrirmynd.
Druslusmánun (e. Slutshaming)
Það er einn þáttur í þriðju seríu nefndur ,,Are we sluts?’’ og Carrie spyr sjálfa sig - hversu margir menn eru of margir menn? Og vinkonurnar fara að efast um sjálfa sig og sína hæfni vegna þess hve marga bólfélaga þær hafa átt í gegnum tíðina.
Ég er mjög tvístíga þegar kemur að þessu þar sem þættirnir eru róttækir að setja konur í fyrsta sæti sem kynverur en samt er gert lítið úr hegðun þeirra sem kynverur ef hún er of mikil. Þær mega vera kynverur, en ekki of miklar því ef þær eru of kynglaðar og hafa sofið hjá of mörgum karlmönnum þá eru þær druslur sem má dæma. Á nokkrum stöðum í þáttunum eru vinkonurnar nokkuð dómharðar í garð Samönthu, t.d. þegar Carrie labbar inn á Samönthu með manni eða þegar Samantha sefur hjá bróður Charlotte. Ég vil halda að við séum á betri stað í dag hvað þetta varðar, orðið „slutshaming“ var ekki til á þessum tíma en ég held þó að við eigum langt í land í að það ríki gott jafnrétti milli kynjanna í sambandi við kynlíf.
Það leikur engin vafi á því að þættirnir höfðu mikil áhrif þegar þeir komu fyrst á sjónarsviðið. Það var byltingarkennt að sjá sjónarhorn kvenna sem njóta kynlífs og er Samantha besta dæmið um það, hún afsakar sig aldrei og sjálfstraustið geislar af henni, þó hún þurfi að þola talsverða gagnrýni frá öðrum var hún óhrædd við að vera hún sjálf. Miranda var dugleg að gagnrýna samfélagslega staðla og hafði ekki þolinmæði í neitt kjaftæði. Í dag finnst mér ekkert sjálfsagðara en að konur séu sjálfstæðar og geti gert það sem þær vilji en það hefur ekki alltaf verið raunin. Miranda þurfti að sitja fyrir allskonar gagnrýni fyrir það að vera sjálf að kaupa sér íbúð þrátt fyrir að vera í góðu starfi og vel stödd fjárhagslega. Samantha rak eigið almannatengslafyrirtæki, var með starfsfólk í vinnu og viðskiptin blómstruðu. Þetta opnaði fyrir umræðu um að konur gætu verið leiðtogar í eigin lífi án afskipta karlmanna.
Það sem var svo dásamlegt við þættina var skilyrðislausa ástin og vináttan á milli kvennanna. Þegar Carrie átti afmæli fara vinkonurnar út að borða saman, Carrie er döpur og einmana. Charlotte stingur þá upp á því að þær verði sálufélagar hvorrar annarrar og karlmenn verði bara bónus í lífi þeirra. Þetta var virkilega falleg og einlæg stund í þáttunum. Svo ekki sé talað um allar stundirnar sem þær eru að labba eða borða saman, ferðalögin, djammið, símtölin og samræðurnar um framtíðina, vonir og þrár. Lokaorðin í þáttunum er einræða sem Carrie fer með en hún segir að öll sambönd hafi áhrif á þig á mismunandi hátt en sambandið sem þú átt við sjálfa þig er það sem skiptir mestu máli. Það er tímalaus boðskapur og rammar þættina vel inn.
Beðmál í borginni var róttækur þáttur en gott er að sjá að samfélagið hefur þróast, og það er gott að koma að gömlu efni aftur til að sjá svart á hvítu hvað maður sjálfur sem einstaklingur þroskast með breyttum tímum.
Þess vegna er svo mikilvægt að við eigum þessar umræður og að þessar byltingar eiga sér stað svo samfélagið og við sjálf getum breyst til hins betra.