Níu öpp sem einfalda líf námsmannsins

Síminn er sá vinur sem við höngum eflaust mest með. Hann fylgir okkur hvert sem við förum. Hann er til þess að einfalda okkur lífið. Hér á eftir eru tekin saman nokkur öpp sem gera nákvæmlega það. Hættu að skrolla og farðu að nýta tæknina í eitthvað uppbyggilegt! Það eru til öpp sem geta hjálpað fólki með nánast allt í lífinu.

Be Focused – Focus timer

Be Focused.jpg

Nokkrir kennarar við Háskóla Íslands hafa mælt með Pomodoro tækninni. Hugmyndin á bak við Pomodoro er að fólk vinnur í lotum og tekur pásur inn á milli. Til eru fjölmörg öpp sem bjóða upp á þessa tækni og er Be Focused – Focus timer eitt það einfaldasta og besta – og það er frítt. Þetta getur verið sérstaklega hjálplegt þegar fólk er að lesa eitthvað þurrt og ekki sérlega áhugavert - það kemur fyrir alla í háskólanámi. Appið virkar þannig að þú stillir það eftir því hversu langar lotur þú vilt taka, til dæmis lærdómslotur í 20-30 mínútur og pásur í 5-10 mínútur. Þú getur líka stillt hversu margar lotur þú vilt taka yfir daginn og sett inn langa pásu eftir nokkur skipti. Appið heldur utan um þetta allt fyrir þig og það getur verið hvetjandi að hafa yfirlit yfir tímann sem þú verð í lærdóminn og hjálpar þannig til við að ná settum markmiðum.

Headspace

Headspace.jpg

Hugleiðsla er eitthvað sem nýtur meiri og meiri vinsælda um allan heim, enda er það vísindalega sannað að það er frábær leið til þess að róa hugann, líða betur og skila meiri afköstum í því sem þú ert að gera. Headspace býður upp á fjöldann allan af hugleiðslum sem þú getur valið úr eftir því hvernig þér líður og hvert viðfangsefnið er, allt frá því að vinna á stressi eða sækja þér innblástur. Þú byrjar algjörlega á grunninum og færð leiðsögn í gegnum hugleiðslurnar á einfaldan hátt. Þannig hentar appið vel fyrir þá sem eru að taka sín fyrstu skref í að hugsa sinn gang. Headspace er líka mjög hjálplegt ef þú vilt koma hugleiðslu inn í daglega rútínu þína því appið sendir reglulega tilkynningar sem minna þig á að hugleiða. Eini gallinn við appið er að það kostar, en þú getur prufað fyrstu 10 dagana án kostnaðar.

Insight timer

Þetta hugleiðsluapp er algjörlega frítt og býður upp á endalausar og fjölbreyttar hugleiðslur og einnig er að finna spjallþætti inni á appinu. Hægt er að stunda jóga nidra, ná sér í betri svefn, róandi tónlist og margt, margt fleira fyrir byrjendur og lengra komna. Þegar þú stillir þig inn á hugleiðslu þá sérðu líka með hversu mörgum þú ert að hugleiða þá stundina - og hvar þeir eru í heiminum. Þetta er einskonar samfélagsmiðill fyrir hugleiðara. Þar er líka að finna spjallþræði þar sem fólk getur rætt um allt milli himins og jarðar.

Natural cycle.jpg

Natural Cycles

Fyrir þau sem fara á túr! Þetta app virkar sem náttúruleg getnaðarvörn þar sem hægt er að sjá hvaða daga viðkomandi manneskja er frjó ef settar eru inn réttar upplýsingar um tíðahringinn. Þetta app hefur fengið viðurkenningu hjá meðal annars þýsku skoðunarstöðinni TÜV Süd sem örugg getnaðarvörn og er það talið vera jafn áhrifaríkt og að vera á pillunni.

Leggja

Leggja.png

Þetta app er sniðugt ef þú notar bíl í Reykjavík og leggur oft í gjaldskyld bílastæði. Inni á appinu getur þú greitt fyrir bílastæði á einfaldan hátt. Þú greiðir aðeins fyrir þann tíma sem bílnum er lagt, þannig að þú þarft ekki að ákveða fyrir fram hversu lengi þú vilt nota bílastæðið! Síðan getur þú líka fylgst með tímanum inni á appinu.

Tiny Scanner.png

Tiny Scanner

Það er 2018 og skannar eru óþarfir. Með þessu appi dugar myndavélin á símanum þínum til þess að skanna inn blöðin þín og færa þau yfir á JPG eða PDF form, eins og þú hafir notað alvöru skanna í verkið.

Wunderlist

Fyrir skipulagsóða eða þá sem langar að skipuleggja líf sitt betur. Mjög einfalt í notkun og hjálpar þér að halda utan um það sem þú þarft að gera og muna í daglegu lífi. Einnig er það sniðugt til þess að halda utan um lista yfir t.d. myndir sem þig langar að sjá, bækur sem þig langar að lesa eða innkaupalistann.

Tasty.jpg

Tasty

Fyrir matarunnendur! Fáránlega aðlaðandi matarmyndböndin sem maður gleymir sér oft yfir á fésbókinni er hægt að nálgast öll í þessu appi auk þess að þar fylgja uppskriftirnar með. Uppskriftirnar eru sýndar skref fyrir skref á myndböndunum svo það er ómögulegt að klúðra máltíðinni. Inni í appinu getur þú líka haldið utan um möppu með þínum uppáhalds uppskriftum. Mjög einfalt og sniðugt!


Moment

Moment.png

Við vitum öll að síminn, sem er stundum sagður vera til þess að einfalda þér lífið, er líka tímaþjófur. Ef þig grunar að þú þjáist af símafíkn, þá er Moment appið fyrir þig. Hver kannast ekki við að geta ekki einbeitt sér að lærdómnum vegna þess að maður er svo sjúkur í símann? Moment appið hjálpar þér að vinna á snjallsímafíkninni með því að halda utan um hversu miklum tíma þú eyðir í símanum á hverjum degi og hversu oft þú tekur hann upp. Appið vinnur í bakgrunninum og minnir þig á ef þú ert að fara yfir tímamörkin auk þess að þar er hægt að finna alls konar fróðleik. Það getur verið virkilega fróðlegt að sjá tölfræðina um símanotkunina sína - kannski þarft þú að taka þig á?